Innlent

Elds­neytis­verð lækkar um tæp­lega hundrað krónur á nýju ári

Smári Jökull Jónsson skrifar
Auður Daníelsdóttir er forstjóri Orkunnar.
Auður Daníelsdóttir er forstjóri Orkunnar. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Orkunnar segir að dæluverð eldsneytis muni lækka strax um áramótin í kjölfar þess að frumvarp um kílómetragjald á ökutæki var samþykkt á Alþingi í gær. Neytendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að lagabreytingin verði nýtt til að auka álögur.

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um kílómetragjald á ökutæki var samþykkt á Alþingi í gær. Álíka lög hafa verið í gildi frá árinu 2024 en giltu þá einungis um rafmagns-, tengitvinn- og vetnisbíla. 

Eigendum allra bifreiða verður nú skylt að skrá stöðu akstursmælis að minnsta kosti einu sinni á ári en hægt verður að skrá stöðu mælis á Ísland.is en einnig hjá skoðunarfyrirtækjum sem sömuleiðis munu kanna stöðu mælis við reglubundna skoðun.

Eldsneytisverð lækkar umtalsvert

Samhliða upptöku kílómetragjaldsins munu lög um olíugjald falla úr gildi en kolefnisgjald jafnframt hækka. Breytingarnar munu engu að síður hafa töluverð áhrif á eldsneytisverð og samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda ætti bensínverð að lækka um rúmar 93 krónur á hvern líter og verð díselolíu um rúmar 80 krónur.

Auður Daníelsdóttir forstjóri Orkunnar segir að dæluverð muni lækka strax þann 1. janúar.

„Þannig að þetta er mikil breyting sem við erum að ná utan um núna en það er ljóst að þetta mun hafa áhrif strax um áramótin,“ sagði Auður í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Neytendur þurfi ekki að hafa áhyggjur

Hún segir að aðrir þættir en niðurfelling olíugjaldsins hafi áhrif á eldsneytisverðið.

„Við erum einmitt að taka það saman núna hversu mikið þetta verður í heild. Íblöndunarefnin sem okkur ber að hafa í bensíni og dísel mun breytast líka. Þannig að við erum bara að ná utan um það núna hversu mikið þetta mun raunverulega hafa áhrif.“

Lækkunin muni nema tugum króna á hvern líter. Auður hvetur neytendur til að skoða skýringar sem meðal annars samtök verslunar og þjónustu hafa tekið saman um áhrif breytinganna. 

Neytendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að breytingarnar verði nýttar til að auka álögur á eldsneyti.

„Bara alls ekki. Við munum bara breyta verðinu í takt við það sem gjöldin eru að breytast. Þannig að við erum ekki að fara að nýta þetta eitthvað. Það er alls ekki þannig,“ sagði Auður Daníelsdóttir forstjóri Orkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×