Körfubolti

Kjartan Atli lætur af störfum eftir stærsta tap sögunnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson og Hjalti Þór Vilhjálmsson.
Kjartan Atli Kjartansson og Hjalti Þór Vilhjálmsson. Vísir/Anton Brink

Stjórn körfuknattleiksdeildar Álftaness hefur komist að samkomulagi um starfslok Kjartans Atla Kjartanssonar, aðalþjálfara Álftaness. Ákvörðun um að Kjartan láti af störfum er hans eigin samkvæmt tilkynningu stjórnar. 

Á meðan unnið er að því að finna nýjan aðalþjálfara mun Hjalti Þór Vilhjálmsson, aðstoðarþjálfari, taka við þjálfun liðsins.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar stærsta taps í sögu efstu deildar á Íslandi. Álftanes steinlág fyrir Tindastóli í gærkvöldi og tapaði 137-78, sem var fjórða deildartap liðsins í röð. 

Kjartan Atli tók við sem aðalþjálfari Álftaness árið 2022 og stýrði liðinu upp í efstu deild á sínu fyrsta tímabili. Á fyrsta tímabilinu í efstu deild tókst nýliðunum að tryggja sinn í úrslitakeppnina og komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Á síðasta tímabili fór Álftanes í undanúrslit Íslandsmótsins en tapaði gegn Tindastóli.

„Við virðum ákvörðun Kjartans Atla og óskum honum alls hins besta. Kjartan hefur náð framúrskarandi árangri með lið Álftaness síðan hann tók við. Stuðningsmenn, stjórn, meistaraflokksráð og bakhjarlar verða honum ævinlega þakklátir fyrir hans framlag í að festa Álftanes í sessi í efstu deild. Ástríða hans fyrir uppeldisfélaginu hefur gefið klúbbnum mikið og það verður seint þakkað. Hans framlag til uppbyggingar körfuboltastarfsins og samfélagsins á Álftanesi er ómetanlegt“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×