Körfubolti

„Hortugasta klapp sem ég hef séð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Valsmanna, var ekki sáttur með dómgæsluna og bauð upp á kennslustund í kaldhæðinslegu klappi á hliðarlínunni.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Valsmanna, var ekki sáttur með dómgæsluna og bauð upp á kennslustund í kaldhæðinslegu klappi á hliðarlínunni. Sýn Sport

Það er til klapp og svo er til klapp eins og sjöfaldur Íslandsmeistaraþjálfari bauð upp á í síðasta leik. 

Finnur Freyr Stefánsson hefur heldur betur náð að snúa við gengi Valsliðsins í Bónusdeild karla í körfubolta eftir dapra byrjun. Liðið vann sinn fjórða leik í röð í síðustu umferð og situr í fjórða sætinu en Bónus Körfuboltakvöld vakti athygli á látalátum meistaraþjálfarans á hliðarlínunni í sigrinum á Njarðvíkingum.

„Finnur Freyr Stefánsson er náttúrulega búinn að vinna þetta allt saman ítrekað en sá kann að klappa,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds og sýndi myndbrotið með Finn.

Klippa: Kaldhæðnislegt klapp hjá Finni Frey

„Þeir fengu tólf villur á sig í öðrum leikhluta og hann var að verða geðveikur á þessu, Finnur, þetta er hortugasta klapp sem ég hef séð,“ sagði Stefán Árni.

„Þetta er bara Vesturbæjarhroki, beint af Kaffihúsi Vesturbæjar. Þetta voru svona fjórir til fimm tvöfaldir espressó í þessu klappi,“ sagði Sævar Sævarsson.

„Fyrir svona þjálfara sem eru með siguráru þá verða þeir að vera með smá svona. Ég veit það fyrir víst að dómararnir fundu fyrir hverri einustu snertingu á höndunum þarna. Það nísti inn að beini að þeir voru að taka rangar ákvarðanir. Þetta hafa ábyggilega verið tólf klöpp, fyrir hverja einustu villu sem var búið að dæma bara: „Takið ykkur taki drengir. Ég er búinn að vinna fullt af titlum og ég veit hvernig þetta á að vera,“ sagði Sævar.

Það má sjá klappið og umræðuna hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×