Handbolti

Haukar jafna Val að stigum á toppi deildarinnar

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Hauka fyrr á tímabilinu. 
Frá leik Hauka fyrr á tímabilinu. 

Haukar unnu átta marka sigur á ÍR í Olís deild karla í handbolta í kvöld, 39-31, og jafna þar með Val að stigum á toppi deildarinnar. 

Haukar höfðu yfirhöndina allt frá byrjun leiksins til loka hans og eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18-14, bættu þeir við forskot sitt í seinni hálfleik og fóru að lokum með átta marka sigur af hólmi. 

Með sigrinum jafna Haukar Val að stigum á toppi deildarinnar en Valur bar eins marks sigur úr býtum gegn Þór Akureyri í kvöld, 31-30. 

Össur Haraldsson og Adam Haukur Baumruk voru markahæstir í liði Hauka í kvöld með sex mörk hvor en stórleikur ÍR-ingsins Baldurs Fritz Bjarnasonar dugði ekki til fyrir Breiðhyltinga. Baldur skoraði þrettán mörk í leiknum. ÍR er sem stendur í neðsta sæti deildarinnar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×