Innlent

Fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blazinic kom hingað til lands með Norrænu.
Blazinic kom hingað til lands með Norrænu. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Erlendur ríkisborgari, Marko Blazinic, hefur verið dæmdur til að sæta fangelsisvist í fjögur ár og sex mánuði vegna tilraunar til fíkniefnainnflutnings.

Maðurinn var dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur, fyrir að hafa freistað þess að flytja inn 6,7 kíló af kókaíni, sem hafði 68 til 70 prósent styrkleika, þann 4. september 2025.

Fíkniefnin fundust við leit á Seyðisfirði, þaðan sem Blazinic var að koma með Norrænu frá Svíþjóð. Efnin voru í ellefu pakkingum í varahjólbarða og tveimur pakkningum undir ökumannssæti, í Volvo-bifreið.

Blazinic játaði sök og samþykkti upptökukröfur. Samkvæmt dómnum veitti hann lögreglu þá aðstoð sem hann gat við rannsókn málsins en hann virðist eingöngu hafa haft það hlutverk að flytja efnin hingað til lands.

Sagði hann fyrir dómi að hann hefði tekið verkið að sér gegn greiðslu í örvæntingu.

Blazinic var dæmdur til að greiða um það bil 2,5 milljónir í málsvarnarlaun og annan sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×