Sport

Snævar sló tugi meta á árinu: „Á­nægður og stoltur af sjálfum mér“

Aron Guðmundsson skrifar
Snævar Örn Kristmannsson, sundkappi úr Breiðabliki er íþróttamaður ársins 2025 hjá ÍF
Snævar Örn Kristmannsson, sundkappi úr Breiðabliki er íþróttamaður ársins 2025 hjá ÍF Vísir

Snævar Örn Krist­manns­son, íþrótta­maður ársins 2025 hjá Íþrótta­sam­bandi fatlaðra, sló þrjátíu og þrjú Ís­lands­met, fimm Evrópu­met og eitt heims­met á árinu sem nú er að líða. Hann stefnir á að gera allt sem hann gerði í lauginni í ár, enn þá hraðar á næsta ári.

Kúlu­varparinn Inge­borg Eide Garðars­dóttir og sund­kappinn Snævar Örn Krist­manns­son eru íþrótta­fólk fatlaðra árið 2025 en verð­launin voru veitt við há­tíð­lega at­höfn á Grand Hótel í gær.

Snævar átti magnað ár, setti þrjátíu og þrjú Ís­lands­met, fimm Evrópu­met og á Ís­landsmóti SSÍ setti hann hvorki meira né minna en nýtt heims­met í 50 metra flug­sundi. Á heims­meistaramóti Virtus í Tælandi vann hann svo þrenn silfur­verð­laun.

„Ég er mjög ánægður og stoltur af sjálfum mér,“ sagði Snævar Örn í sam­tali við íþrótta­deild. „Það er bara mjög mikill heiður að fá að vera hérna.“

Klippa: Snævar heimsmethafi og íþróttamaður ársins

Á svona tíma­mótum er margs að þakka og er Snævar afar þakk­látur fyrir alla þjálfara sem hann hefur haft fram að þessum tíma­punkti, þeim liðum sem hann æfir með sem og fólkinu sem stendur að baki Íþrótta­sam­bandi fatlaðra.

„Svo vil ég þakka mömmu og pabba.“

Heims­metið í 50 metra flug­sundi í flokki s19 er klár­lega einn af há­punktunum á ári Snævars til þessa. Það setti hann á Ís­landsmóti SSÍ.

„Ég fékk að vita það fyrir sundið að ef ég myndi bæta tímann minn um ákveðið mikið þá gæti ég sett heims­met. Það var mitt mark­mið komandi inn í sundið. Ég náði því og fékk það síðar stað­fest, var reyndar á leiðinni í boðsund þá. Þetta var svaka­legt.“

Er það ekki virki­lega stórt fyrir mann sem íþrótta­mann að eiga heims­met?

„Jú, ég í raun get ekki út­skýrt það.“

Stórt ár að renna sitt skeið fyrir Snævar en hvernig horfir hann á fram­haldið?

„Ég vil gera allt sem ég gerði á þessi ári hraðar,“ svaraði Snævar lunkinn. „Það eru nokkur mót fram­undan og þar af leiðandi fleiri tækifæri til þess að gera allt það sem ég geri hraðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×