Handbolti

„Reyndi að halda þessu á­fram eins lengi og ég gat“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hafdís Renötudóttir
Hafdís Renötudóttir Tom Weller/Getty Images

„Úff, við fundum lyktina af sigrinum, þetta var mjög svekkjandi“ sagði landsliðsmarkmaðurinn Hafdís Renötudóttir, sem sýndi hetjulega frammistöðu í grátlegu 27-26 tapi Íslands gegn Serbíu á HM.

Hafdís varði alls 11 skot í leiknum en eiginlega allar vörslurnar voru undir lok seinni hálfleiks og á sama tíma tókst Íslandi að minnka muninn niður í eitt mark, eftir að hafa verið sex mörkum undir í hálfleik.

„Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel og mig langar bara að hrósa liðinu í dag“ sagði hógvær Hafdís um sína frammistöðu.

Á tímabili virtist hreinlega ekkert geta sigrað Hafdísi í markinu, hún varði bara allt.

„Já mér fannst [leikurinn vera að snúast] en ég hugsaði samt allan tímann að ég þyrfti að taka svona fimm vörslur í viðbót í röð, þá náum við vinna. Ég reyndi að halda þessu áfram eins lengi og ég gat, en það var ekki nóg.“

Sá kafli í seinni hálfleik var hreint ótrúlegur, en í fyrri hálfleik gekk markvarslan illa.

„Þær voru ekkert að fylgja planinu [í fyrri hálfleik.] Þær voru ekki að fylgja sínum fyrri skotum úr fyrri leikjum síðastliðna árið, það truflaði mig mjög mikið. Allt í einu kom bara eitthvað allt annað… Þær eiga sér uppáhalds skot úr einhverjum stöðum og þegar þær gera það tíu sinnum í röð þá treystirðu svolítið á að þær geri það aftur, en þær gerðu það ekki.“

Klippa: Hetjan Hafdís svekkt eftir leik

Viðtalið við hetjuna Hafdísi má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×