Erlent

Tugir látnir eftir flóð í Taí­landi og Indónesíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rigningin í suðaustur Asíu hefur verið gífurlega mikil á síðustu dögum.
Rigningin í suðaustur Asíu hefur verið gífurlega mikil á síðustu dögum. AP/Arnun Chonmahatrakool

Að minnsta kosti 145 eru látnir eftir mikil flóð í suðurhluta Taílands. Dregið hefur úr flóðunum og eru gífurlegar skemmdir að líta dagsins ljós. Áætlað er að flóðin hafi haft áhrif á um 1,2 milljónir heimila og um 3,6 milljónir manna í tólf héruðum Taílands.

Songkhlahérað varð hvað verst úti en þar stendur fjöldi látinna í 110.

Mikil rigning síðustu daga olli flóðunum en vatnið og skemmdir á innviðum hafa gert björgunarstörf erfið. Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur ástandið þó skánað nokkuð.

Aðgengi björgunarsveitarmanna að svæðum þar sem flóðin urðu mikil hefur aukist og látnum hefur fjölgað hratt samhliða því, þar sem fleiri lík finnast í vatninu.

Í einhverjum tilfellum mældist rigningin 630 millimetrar yfir þrjá daga, samkvæmt frétt Reuters. Vatn flæddi niður hlíðar Taílands og héldu fráveituskurðir ekki undan. Fréttaveitan hefur eftir íbúum á svæðinu að margir hafi misst aleiguna í flóðunum.

Aurskriður haffa leikið fólk á Súmötru í Indónesíu grátt.AP/Nazar Chaniago

Rigningin lék þó ekki eingöngu Taílendinga grátt en að minnsta kosti 174 eru látnir eftir flóð og aurskriður á Súmötru í Indónesíu. Tuga er saknað.

AP segir að rúmlega 3.200 hús hafi orðið fyrir aurskriðum þar en skemmdirnar hafa einnig komið verulega niður á björgunarstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×