Skoðun

Að vera eða ekki vera aumingi

Helgi Guðnason skrifar

Kaffistofa Samhjálpar hefur síðustu tvo mánuði haft aðsetur í kirkjunni þar sem undirritaður starfar. Kaffistofan er á sömu hæð og skrifstofa kirkjunnar.

Þessa tvo mánuði hefur það aldrei gerst að starfsmenn eða gestir kirkjunnar hafi upplifað áreiti eða ógn af hendi skjólstæðinga kaffistofunnar. Mikið af gestum kaffistofunnar er vinnandi fólk, fólk sem tímabundið er atvinnulaust eða einfaldlega fólk sem gengur gegnum fjárhagslega erfiðleika.

Þann tíma sem kaffistofan hefur verið í húsnæði okkar hefur ekki fundist ein sprautunál á lóðinni að mér vitandi, en þær fundust öðru hvoru fram að því. Það eru færri sígarettustubbar en áður og húsnæði kirkjunnar er alls ekki í verra ástandi en það var áður en kaffistofan fékk aðstöðu.

Kaffistofan er ekki eitthvað greni þar sem óþjóðalýður kemur saman og hangir allan daginn, eins og mætti ætla af tali sumra.

Kaffistofa Samhjálpar er þrifalegur matsalur sem ber mannsæmandi mat á borð og mætir hverjum og einum með þeirri reisn og virðingu sem góður Guð hefur gefið hverjum manni.

Á kaffistofu Samhjálpar starfar fólk sem hefur þjálfun og þekkingu til þess að mæta þeim fjölbreytta hópi sem þangað sækir. Kafffistofan gefur fólki að borða, fólk kemur, borðar matinn sinn, getur aðeins yljað sér og er svo farið á braut eftir kannski klukkutíma. Þó kaffistofan afgreiði yfir 200 matarskammta á dag, þá eru ekki nema 30-40 í húsinu í einu. Kaffistofan er opin frá klukkan 10-14, í lok dags fer starfsfólkið yfir lóðina, passar að þar sé allt í lagi og enginn sé að hanga þar sem ekki eigi að vera.

Kaffistofa Samhjálpar er samfélagsþjónusta, þar er líka verið að hugsa um nágrennið og að vera umhverfinu til bóta.

Við umræðu undanfarinna daga hefur mér verið hugsað til eins af slagorðum Besta Flokksins þegar hann bauð fram í Reykjavík. „Allskonar fyrir aumingja.“

Það sem er svo fyndið við það slagorð er að það talar auðvitað enginn þannig. Bitið í brandaranum er að stundum er yfirlæti í því þegar talað er um þau sem eru í neyð eða þurfa stuðning, ,,við” erum góða fólkið, ,,þau” eru grey og kannski smá aumingjar.

Hvernig myndir þú skilgreina orðið aumingi?

Orðið aumingi er notað til að lýsa þeim sem vísvitandi víkur sér undan skyldum sínum, jafnvel þó það valdi öðrum skaða. Aumingi er jafnan sá sem bregst þeim sem honum eru háðir um umönnun eða öryggi, vegna þess að hann tekur þægindi sín fram yfir þau. Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar en hopar um leið og hann mætir jafningja. Aumingi er sá sem hugsar ekki um sig en ætlast til þess að aðrir sjái um hann.

Miðað við algenga notkun mætti allavega skilja orðið svona.

Í umræðu síðustu daga hafa einstaklingar stigið fram og tjáð sig um fólk í neyð þannig að skilja megi að fólk í neyð séu bara aumingjar.

Undirritaður ólst upp við þá sjálfsmynd sem íslendingur að íslenskt samfélag væri gott samfélag. Það hefur mátt ganga að því sem vísu að íslendingar vilji ekki samfélag þar sem börn fara svöng að sofa, við viljum ekki samfélag þar sem fólk verður úti þegar kólnar á veturna. Við viljum ekki vera samfélag sem hendir tonnum af fatnaði og mat í ruslið meðan samborgarar okkar eru án klæða og matar. Við viljum ekki vera einhverjir aumingjar sem bregðast þeim sem eru í neyð.

En hverskonar samfélag erum við þegar það gerist trekk í trekk að félagsleg úrræði fá hvergi húsnæði vegna þess að enginn vill að þjónustan sé í sínu nærumhverfi?

Hverskonar samfélag erum við þegar við fellum tár vegna þjáninga í útlöndum, en fólk í neyð í okkar nærumhverfi er ógn eða aumingjar?

Reynsla mín af því að hafa kaffistofuna sem næsta nágranna er sú að kaffistofan er góður nágranni. Þar er öllum mætt með virðingu, þar er höfðinu ekki stungið í sandinn gagnvart þeim áskorunum sem kunna að koma upp, þeim er mætt af skynsemi og festu.

Allir sem sjá það starf sem unnið er á kaffistofunni verða samstundis miklir stuðningsmenn hennar, ég er einn þeirra og hvet alla sem lesa til þess að vera það líka.

Höfundur er prestur Fíladelfíu í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×