Innlent

Heljarinnar verð­munur á sömu flug­ferðinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Sami miðinn kostaði 85 þúsund krónur hjá Icelandair en 51 þúsund krónur hjá SAS.
Sami miðinn kostaði 85 þúsund krónur hjá Icelandair en 51 þúsund krónur hjá SAS. Vísir/Vilhelm

Maður sem var að leita sér að flugmiða frá Keflavík til Prag í febrúar sá að mikill verðmunur var á verði flugferðarinnar, eftir því hvort hún var bókuð á vef Icelandair eða vef SAS. Það er þrátt fyrir að hann hafi skoðað nákvæmlega sömu ferðina, sem farin verður í flugvélum beggja félaga.

Sami miðinn kostaði 85 þúsund krónur hjá Icelandair en 51 þúsund krónur hjá SAS.

Jóhann Örn B. Benediktsson segir í samtali við Vísi að hann hafi verið að skoða farmiða hjá Icelandair og hafi tekið eftir því að seinni liður ferðarinnar væri með flugvél SAS. Þá hafi hann kíkt á vef þess flugfélags til að skoða verðið.

„Fyrst þegar ég skoðaði flugið með Icelandair kostaði það 85 þúsund krónur. Á vef SAS kostaði það 51 þúsund,“ segir Jóhann.

Hann keypti miða af vef SAS og fór til baka inn á vef Icelandair til að taka skjáskot af verðinu þar. Þá hafði verðið hækkað um tuttugu þúsund krónur og var nú 105 þúsund.

„Þetta er sami farmiðinn og hjá Icelandair, sama farangursheimildin og sömu flugvélarnar,“ segir Jóhann.

Verðið hafði ekkert hækkað á vef SAS á sama tíma hjá Jóhanni en það var fyrir hádegi.

Þegar blaðamaður kíkti á verðið fyrir sömu flugferðir á vef SAS á öðrum tímanum í dag var verðið komið í 533,6 evrur, eða tæplega áttatíu þúsund krónur.

Fyrirspurn um muninn hefur verið send á Icelandair og er verið að skoða málið þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×