Innlent

Lögmannafélagið að­hefst ekki

Agnar Már Másson skrifar
Málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Höfuðstöðvar hennar eru á Akureyri.
Málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Höfuðstöðvar hennar eru á Akureyri. Vísir/Viktor Freyr

Stefán Andrew Svensson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir félagið ekki hafa vitneskju um mál lögmanns sem er í gæsluvarðhaldi, grunaður um aðild að skipulagðri brotastarfsemi, umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.

Hann segist því ekki geta tjáð sig um málið enda hafi hann engar forsendur til þess. 

Stefán Andrew Svensson er lögmaður á Juris.

Líkt og kom fram í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í gær er lögmaðurinn grunaður um skipulagða brotastarfsemi sem felst í aðstoð við að koma útlendingum ólöglega til landsins, peningaþvætti og fíkniefnamisferli. 

Verjandi lögmannsins hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar, en maðurinn neitar sök í málinu. 

Stefán Andrew segir Lögmannafélagið hafa fengið vitneskju um málavöxtu á svipuðum tíma og fjallað var um það í fjölmiðlum, hann viti ekki til þess að lögregla hafi leitað til félagsins vegna þess. 

Ekki verði aðhafst að sinni, fylgst verði með málinu en að öðru leyti séu engar forsendur til að bregðast við á þessu stigi þess. 

Stefán bendir á þá almennu reglu að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð og það sé dómstóla að skera úr um mál, rati þau þangað.

Skarphéðinn Aðalsteinsson hjá lögreglunni sagði við Vísi í gær að rannsókn málsins tengdist meðal annars annarri rannsókn, í máli sem kennt hefur verið við Raufarhöfn. Í því máli var húsleit framkvæmd á fjölda staða í júní, meðal annars á Raufarhöfn, í tengslum við ætlaða skipulagða brotastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×