Handbolti

Reiknar ekki með Elísu eða Andreu á morgun

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson undirbýr íslenska liðið fyrir fjarveru tveggja lykilleikmanna. 
Arnar Pétursson undirbýr íslenska liðið fyrir fjarveru tveggja lykilleikmanna. 

Elísa Elíasdóttir og Andrea Jacobsen munu að öllum líkindum ekki taka þátt í opnunarleiknum á HM vegna meiðslanna sem hafa plagað þær síðustu vikur. 

Ísland hefur leik á HM á morgun gegn Þýskalandi. Liðið er núna að leggja hönd á undirbúninginn, í Porsche höllinni í Stuttgart.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson undirbýr liðið og leggur leik morgundagsins upp án Elísu og Andreu. 

„Það er svipuð staða, þær taka test með sjúkraþjálfurunum á eftir en við keyrum þessa æfingu og undirbúninginn fyrir leikinn á morgun eins og þær séu ekki með“ sagði Arnar fyrir æfingu en lokaákvörðun verður svo tekin í kvöld.

Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul er Elísa á sínu þriðja stórmóti og lykilleikmaður í landsliðinu. vísir

Arnar var því ekki alveg tilbúinn að slá því föstu að þær yrðu ekki með. 

Elísa er líklegri til að spila en finnur enn fyrir eymslum í öxlinni. Andrea reiknar hins vegar ekki með að mæta til leiks fyrr en á sunnudaginn, í lokaleik riðilsins gegn Úrúgvæ.

„Ég er að prófa aðeins í dag að vera með í handbolta þannig að leikurinn á morgun er mjög tæpur en við stefnum á þriðja leikinn. Allt fyrir það er bónus“ sagði Andrea fyrir æfingu.

Nánar verður fjallað um fyrsta leik Íslands á HM í Sportpakkanum í kvöld.

Opnunarleikur Þýskalands og Íslands hefst klukkan fimm á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og mun fylgja landsliðinu vel eftir á meðan mótinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×