Skoðun

Kjarninn og hismið

Magnús Magnússon skrifar

- sameiningartillaga Húnaþings vestra og Dalabyggðar

Kynningarfundir um tillögu að sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar hafa nú verið haldnir bæði á Hvammstanga og í Búðardal auk íbúafunda á báðum stöðum í apríl og október. Einnig var haldin vinnustofa á Borðeyri í lok ágúst þar sem saman komu kjörnir fulltrúar, fulltrúar í nefndum og ráðum, embættismenn og forstöðumenn einstakra sviða og stofnana beggja sveitarfélaga auk fulltrúa menningarlífs og atvinnulífs. Áfram hefur vatn haldið áfram að renna til sjávar eftir kynningarfundina þokklega hreint en eitthvað grugg slæðist með eins og gengur. Við því er ljúft og skylt að bregðast, greina hismi frá kjarna, og senda ljós í mikilli mildi til allra þeirra sem eiga erfitt með að standa í báða fætur þar til storminn hefur lægt.

Valkostagreining

Valkostagreining var rædd nokkuð fyrir og á undangengnum kynningarfundum og kom undirritaður inn á það í sinni framsögu. Látið er að því liggja að margir valkostir séu í stöðunni og það er fallega hugsað en spurning hvort það stenst nánari skoðun.

Í fyrsta lagi er valkostagreining ekki hluti af lögboðnu ferli við sameiningar sveitarfélaga og því er ekki farið á skjön við lög og reglur.

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram að margir valkostir séu í boði í öðru orðinu en bent í austur í hinu orðinu. Í Austur-Húnavatnssýslu hafa sveitarfélög verið að sameinast allt frá aldamótum að kalla og enn er nokkur vinna óunnin þar eð sveitarfélögin eru ennþá tvö talsins; Húnabyggð og Skagaströnd. Við í Húnaþingi vestra höfum sagt við Austur-Húnvetninga bæði formlega og óformlega að þeir þurfi að klára sín mál innbyrðis áður við förum að taka upp hald. Auk þess er Húnabyggð að taka á móti sameiningarframlögum, sem greiðast út á sjö árum, næstu árin vegna sameininga síðustu ára og því ekki heimilt að taka á móti slíkum framlögum vegna annarrar sameiningar á meðan. Hins vegar þarf eitt ekki að útiloka annað og sameining Húnaþings vestra við Dalabyggð útilokar alls ekki sameiningu við Húnabyggð og Skagaströnd og áfram norður enda yrði slík sameining á margan hátt góður kostur til lengri tíma litið og yrði raunar afar sterk stjórnsýslueining.

Í þriðja lagi hefur enginn nefnt sameiningu við Borgarbyggð eða Strandabyggð og kann það felast í hreinu og kláru hagsmunamati og eða stöðumati. Varðandi Borgarbyggð þá hafa Borgfirðingar átt sameiningarvinnu óunna til skamms tíma sem reyndar er að klárast núna með nýsamþykktri sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps og þ.a.l. sjö ára sameiningarframlögum. Strandamenn eiga einnig óunna vinnu hvað varðar sameiningu innan sýslunnar eða hvert þeir vilja leita.

Í fjórða lagi hefur því verið haldið fram að það gangi ekki að horfa til Dalabyggðar þar sem samfélögin séu svo einsleit. Það er nú einu sinni þannig að öll sveitarfélög í grennd við Húnaþing vestra eru hvert öðru lík; Húnabyggð, Borgarbyggð, Strandabyggð og síðan Dalabyggðin sjálf. Flest eru einkjarna sveitarfélög, megin þjónusta á einum stað, landbúnarsamfélög þar sem þorpin lifa í stórum dráttum á þjónustu við landbúnaðinn og sveitirnar. Ef við viljum sameinast einhverju samfélagi sem er ekki líkt okkar að samsetningu þá gætum við skoðað Skagaströnd, Bolungarvík eða Snæfellsbæ!

Í fimmta lagi og tengist líkindunum þá hefur ýmislegt athyglisvert komið fram í íbúakönnunum Vífils Karlssonar. Í könnuninnni 2023 þá hafði útkoma Húnaþings vestra versnað lítillega frá síðustu könnun (heildareink. 5,7 í 5,4). Dalir voru hins vegar hástökkvarar könnunarinnar (heildareink. 3,9 í 5,0) á meðan Austur-Húnavatnssýsla var í hópi þeirra þriggja svæða sem lækkuðu mest á milli kannana (heildareink. 4,7 í 4,1). Til að verja þessa góða útkomu úr könnun Vífils væri því mun vænlegra í þessari lotu að sameinast í Dalina en í A-Hún svo dæmi sé tekið. Líkindi samfélaganna ættu að vera ótvíræður kostur að þessu leyti. Meðfylgjandi er slóð á könnun Vífils til frekari upplýsingar. 

Í sjötta lagi var á kynningarfundunum talað um vegalengdir í umræðum um greiningu valkosta. Nú er það þannig að öll þau sveitarfélög sem liggja að Húnaþingi vestra eru afar víðfeðm og vegalengdir því miklar og allt frá 45–90 mín. akstur frá þjónustukjarna Húnaþings vestra til þjónustukjarna í einhverjum af hinum sveitarfélögunum. Akstursvegalengdir eru einnig týndar til sem mikill kostnaðarpóstur í þjónustu stjórnsýslunnar í víðu samhengi innan sameinaðs sveitarfélags. Þetta er í stuttu máli hreinn fyrirsláttur. Við þekkjum það t.a.m. af mörgum samfundum og samtölum við fólk sem vinnur hjá opinberum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu að þar er fólk farið að taka fjarfundi í stórum stíl þó fólk sé staðsett í næsta nágrenni. Það sparar ekki aðeins akstur og tíma heldur er einnig miklu skilvirkara. Við í Húnaþingi vestra erum að vinna í samstarfi um barnaverndarnefndir og málefni fatlaðra á stóru svæði og það gengur afar vel þrátt fyrir vegalengdir og nær allir fundir eru haldnir í fjarfundi. Samstarf yfir Laxárdalsheiðina þarf ekki að vera öðruvísi í þessu samhengi. Auk þess má nefna að Múlaþing er tæplega helmingi stærra sveitarfélag (10671 km2) heldur en sameinað sveitarfélag Húnaþings vestra og Dalabyggðar yrði og inniheldur raunar enn fleiri þéttbýliskjarna.

Í sjöunda lagi hefur verið rætt um aflsmun milli sveitarfélaganna í samhenginu litli og stóri aðilinn. Þótt stundum sé talað um það sem kost að vera ,,stærri” aðilinn í sameiningu þá er um leið mikilvægt að menn hafi í huga, sérstaklega kjörnir fulltrúar og embættismenn, að temja sér virðingu, skilning og jafnvægi þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi þjónustu, framkvæmdir og fjárfestingar. Það yrði dýrmætt verkefni í sameinuðu sveitarfélagi og sannarlega verðug áskorun.

Sameiningarframlögin og fjármálin

Sameiningarframlagið, sem hinu mögulega sameinuða sveitarfélagi félli í skaut, er um kr. 700 milljónir miðað við útkomuspá sveitarfélaga beggja v/2025. Af þessu sameiningarframlagi er skuldajöfnunarframlagið kr. 400 milljónir. Ekkert skilyrði fylgir að þessi hluti framlagsins fari í niðurgreiðslu skulda og því ekki hægt að draga það sérstaklega frá heildarupphæðinni þ.e. kr. 700 millj. eins og heyrst hefur. Þessir fjármunir koma inn í rekstur sameinaðs sveitarfélags yfir 7 ára tímabil og geta þá nýst til að auka við framkvæmdir án lántöku, lækka álögur og/eða bæta þjónustu. Einnig yrði hægt að greiða niður skuldir ef ný sveitarstjórn myndi ákveða svo og lækka þá vaxtabyrði um leið.

Auk þessa myndu árlegu framlögin hækka frá Jöfnunarsjóði um kr. 77 milljónir miðað við það sem sveitarfélögin fengju í sitthvoru lagi og það er varanlegt miðað við núgildandi reglur. Auðvitað er ekki hægt að tryggja að þær verði óbreyttar um ókomna tíð en það hefur áhrif á sveitarfélögin hvort sem þau sameinast eða ekki. Framlög til Húnaþings vestra lækka um u.þ.b. 30 milljónir á ári miðað við nýju úthlutunarreglur. Setjum það í samhengi við nokkrar stærðir í rekstri sveitarfélagsins:

  • U.þ.b. bil 2-3 stöðugildi með launatengdum gjöldum.
  • Allir þeir styrkir sem sveitarfélagið veitir til félagasamtaka þ.m.t. fjallskiladeilda og ýmissa menningarverkefna, m.v. fjárhagsáætlun 2026.
  • Allt almennt viðhald (gjaldfært) v/grunnskóla, leikskóla, íþróttamiðstöð, Órion, Ráðhúss, Skólahúss Borðeyri og fyrrv. barnaskóla Staðarhrepps, v/2026 er áætlað 30 milljónir.
  • Allt viðhald félagslegra íbúða og á Reykjaeignum er áætlað um 30 milljónir (gjaldfært).
  • Fyrir 30 milljónir má leggja malbik á (undirvinna ótalin) – Strandgötu, Klapparstíg, Lækjargötu, Eyrarland og Höfðabraut norðurhluta.

Fyrirliggjandi er eftirfarandi spá um hvað muni gerast næstu 10 árin.

Þessi mynd sýnir að þótt deilt yrði með 2 og jafnvel 3 í ætlaða niðurstöðu sameinaðs sveitarfélags er það samt sem áður mun betri niðurstaða en samanlagt í sitthvoru lagi. Vissulega yrði brugðist við stöðunni eins og hún er vinstra megin á myndinni en það kallar á lækkun kostnaðar sem þýðir m.ö.o. samdráttur í þjónustu og/eða hækkun gjalda. Í nefndri spá er síðan gott að hafa í huga að þessi spá miðast við þá fasteignagjaldaprósentu sem var árið 2025 en við vorum lækka þá prósentu í seinni umræðu um fjárhagsáætlun í Húnaþingi vestra þannig að niðurstaðan er því aðeins lakari. Í umræðu um fjármálin hefur því verið slegið fram að verið sé að láta kaupa sig til sameiningar. Það er sannarlega af og frá en á hinn bóginn er verið að stuðla að ábyrgum rekstri, minni lántökum, lægri fjármagnskostnaði, tryggja möguleika á bættum búsetuskilyrðum, jafn gott eða hærra þjónustustig og hugsanlega lægri álögum.

Varðandi stjórnsýslu og fjármál þá er reiknað með því að við sameiningu sveitarfélagana tveggja muni sveitarstjórum og sveitarstjórnarfulltrúum fækka um helming og við það verður til hagræðing upp á ca. 60 milljónir króna til viðbótar við áðurnefnd framlög sem nýtast til þess að efla sérhæfingu í stjórnsýslu og þjónustu. Þá eru ótaldir fjármunir sem sparast í endurskoðun og þjónustusamningum sem skv. greiningum yrðu ca. 20 milljónir króna sem gott er að eiga til góða til enn frekari eflingar

Sleggjan og slagkrafturinn

Við höfum haldið því fram að slagkraftur sameinaðs sveitarfélags muni verða meiri heldur en er núna hjá okkur í sitt hvoru sveitarfélaginu. Þetta á bæði við um innri slagkraft gagnvart þjónustu og fjárfestingu innan sveitarfélags og ytri slagkraft gagnvart ríkissvaldinu s.s. í samgöngu- og innviðamálum o.fl. En þegar talað er um sleggju og slagkraft þá er sleggjudómalaus spurning hér og víðar: Hvenær fer sleggjan að virka og fyrir hverja? Er munur á slagkrafti í 1200 manna sveitarfélagi vs. tæplega 1900 manna? Eðli málsins samkvæmt hlýtur að vera meiri kraftur í sleggjunni eftir því sem fleiri hendur taka á henni nema mönnum séu mislagðar hendur. Ef það er dregið í efa hvar liggur þá skurðpunkturinn og hvert yrðum við þá að sameinast? Er sameining við Húnabyggð nóg með samtals 2500 íbúa? Er munur á slagkrafti tæplega 1900 vs. 2500? Eða þarf það að vera sameining við Borgarbyggð sem skilaði samtals 5500 íbúum. Hvar er formúlan og planið og hver er formúlan og planið?

Íbúafjöldaviðmið, nútíðin og framtíðin

Fram hefur komið í umræðum og á sameiningarfundum undanfarið að Húnaþing vestra sé ofan við íbúafjöldaviðmið eins og staðan er í dag. Það er gott og blessað en þetta viðmið er ekki meitlað í stein og það mun hækka en spurningin er ekki hvort heldur hvenær það verður. Í skriflegri orðræðu láta menn ýmislegt frá sér fara m.a. að Dalamenn séu fáir en um leið er sett fram von um að þeim muni ekki fækka meira. Minn góði og gegni heimspekiprófessor Páll heitinn Skúlason kenndi forðum daga að við ættum ekki að deila um staðreyndir. Því spyr ég: Er Dalamönnum að fækka?

Við einfalda skoðun kemur í ljós að Dalamönnum fjölgar hlutfallslega meira en íbúum í Húnaþingi vestra frá 1. des 2019 miðað við tölur frá Þjóðskrá birtar á vef þeirra í nóvember 2025. Þannig þurfum við ekki deila lengi um þá staðreynd máls.

Umræðan hefur farið vítt og breitt og menn hafa nefnt að það sé erfitt að spá ... sérstaklega um framtíðina í sameinuðu sveitarfélagi. Þess vegna sé öruggara að halda að sér höndum og gera ekki neitt og vona það besta. Það er hvorki hugrekki né kjarkur í þessari afstöðu og hún virðist einkennast af undirliggjandi tortryggni. Í þessu samhengi er rétt að gera sér grein fyrir því að ekkert er gulltryggt í sambandi við Húnaþing vestra til framtíðar þótt ekki verði sameinað. Við getum ekkert fullyrt um fjöldaviðmið sveitarfélaga í lagasetningu, álögum sveitarfélagsins og þjónustu þess. Ekkert af þessu er fast í hendi og því er jafnmikil óvissa eða meiri ef ekki verður sameinað.

Í framhaldi af þessu er því síðan slegið fram að við eigum að snúa okkur að okkar eigin málum og fara að byggja leikskóla! Þótt við höfum sett saman starfshóp um húsnæðisþörf og þróun útisvæðis Leikskólans Ásgarðs þá er slík bygging hvergi á fjárhagsáætlun. Hvorki á fjárhagsáætlun 2026 og hvað þá þriggja ára áætlun 2027-2029. Enda hvernig ætla menn að mæta þeirri framkvæmd? Með lántökum og auknum fjármagnsgjöldum eða með auknum álögum á íbúa nema hvort tveggja sé?

Lítil kynni og engin hefð fyrir samstarfi?

Ein mótrökin sem menn hafa lagt fram í umræðunni er að lítil eða engin hefð sé fyrir samstarfi og lítil kynni yfir heiðina. Vissulega má til sanns vegar að hefð fyrir samstarfi sé ekki mikil eða víðtæk. En á móti má spyrja þarf það alltaf að vera svo til að hægt sé að vinna með fólki? Þegar fimm sýrlenskar fjölskyldur komu í Húnaþing vestra árið 2019 þá var engin hefð fyrir samstarfi og sáralítil kynni við Sýrland! Þetta er m.ö.o. alltaf spurning um afstöðu og sjónarhorn. Það kostar alltaf vogun að kynnast öðru fólki og ef menn vilja bæta samfélagið og heiminn þá er gott að byrja á sjálfum sér. Síðan má segja að það sé full róttæk afstaða að engin hefð sé fyrir samstarfi. Sú afstaða gæti átt rót sína rekja til þekkingarleysis eða skorti á yfirsýn. Varðandi samstarf má benda á nýlegt verkefni um eflingu sauðfjárræktarsvæða sem náði yfir sauðfjár- og dreifbýlissvæði Dalabyggðar, Reykhólasveitar, Stranda og Húnaþings vestra. Þá er árlegt og reglulegt samstarf milli fjallskiladeilda yfir Laxárdalsheiðina af eðlilegum ástæðum. Einnig hefur samstarf í ferðaþjónustu verið um árabil tengt hestaferðum og gengið afar vel.

Ofan í þetta kaup er fullyrt að samgangur sé enginn milli byggðarlaganna. Þetta er ekki rétt þar sem dæmi eru sannarlega um að íbúar í fyrrum Bæjarhreppi sæki í einhverjum tilfellum þjónustu í Búðardal og einnig atvinnu. Þá er samstarf á milli landshlutasamtakanna á Vesturlandi og Norðurlandi vestra þónokkuð sérstaklega er varðar samgöngu- og innviðamál. Einnig erum við í sama heilbrigðisumdæminu og hjúkrunarfræðingar á sjúkrahúsinu á Hvammstanga eru stuðningur við næturvaktir í Búðardal þegar ekki er hjúkrunarfræðingur á vakt þar.

Samantekt

Þegar allt er tekið saman þá sýna greiningar, gögn og áætlanir að rekstur sameinaðs sveitarfélags Húnaþings vestra og Dalabyggðar muni styrkjast að miklum mun og stjórnsýslan að sama skapi með sérhæfingu á einstökum sviðum stjórnsýslu og þjónustu. Á móti kemur að ef sveitarfélögin verða áfram sitt í hvoru lagi þá verður veruleg áskorun að viðhalda sama þjónustustigi. Við vitum ekki fyrir víst hvernig mál þróast. Við vitum ekki hvaða verkefni ríkið leggur næst á herðar sveitarfélögunum, hvaða fjármunir fylgja með og hvaða áhrif það hefur á rekstur sveitarfélaganna. Í öllu falli verðum við miklum mun betur í stakk búin að takast á við þær og aðrar áskoranir sameinuð heldur en í sitt hvoru lagi.

Höfundur er formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og formaður samstarfsnefndar um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar.




Skoðun

Skoðun

Skelin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×