Lífið

Til­kynntu hver jóla­gjöf ársins væri

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVF, segir jólaverslun hafna og verslunarmenn ekki endilega merkja samdrátt í neyslu.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVF, segir jólaverslun hafna og verslunarmenn ekki endilega merkja samdrátt í neyslu. Vísir/Einar

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur tilkynnt að jólagjöf ársins sé praktísk gjöf sem skilur eitthvað eftir sig. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að um óvanalega gjöf sé að ræða en hún fylgi samt sem áður tíðarandanum. 

Ólíkt fyrri árum var enginn ákveðinn hlutur sem stóð uppi eftir könnun rannsóknarsetursins heldur var undirliggjandi þemað eitthvað praktískt sem skilur eitthvað eftir sig. Í könnun setursins nefndu margir hlýja flík, einhvern búnað fyrir heimilið eða áhugamálin. Vinsælasti gjafaflokkurinn var raf- og heimilistæki þar sem snjallúrin voru áberandi.

„Nokkuð var rætt um að jólagjöfin í ár ætti að skilja eitthvað eftir sig, helst sem gæti bætt heilsu eða líðan þiggjandans og að gæðin skiptu miklu máli,“ segir í fréttatilkynningu.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir verslunarmenn bjartsýna fyrir jólagjafatíðinni. Fleiri nýta sér íslenskar netverslanir og að sama skapi gefa erlendar netverslanir eftir.

„Miðað við þau samtöl sem ég hef tekið virðist að fatnaður verði vinsæll, bókin er alltaf klassísk, menn velta fyrir sér hvort það sé eldri kynslóðin að halda yngri kynslóðinni við efnið. Það eru ýmis raftæki, þar geta verið skemmtilegir flokkar eins og í fyrra eða árið áður voru pungrakvélar óvænti hluturinn. Við sjáum ekki neitt svoleiðis núna heldur er þetta meira heilt yfir,“ segir Benedikt sem ræddi jólagjöf ársins í Reykjavík síðdegis í dag.

Hann segir jólagjöf Rannsóknarseturs verslunar vera óvanalega en endurspegli samt sem áður tíðarandann.

„Þetta kemur kannski ekkert á óvart því við höfum undanfarin ár verið með einhver atriði sem standa upp. Ég ætti alveg von á því að, miðað við hvað ég hef heyrt frá verslunarmönnum, að ísvélar væru mjög hátt á listanum, jafnvel snjallúr eða eitthvað þess háttar. Það er ekkert eitt sem stendur upp úr en það sem verslunarmenn segja mér er að praktík er eitthvað sem allir eru að leita að, praktík og gæði.“

Ísvélin virðist verða vinsæl gjöf en hún prýddi efsta sætið í könnun Elko um hver yrði jólagjöf ársins. Benedikt tekur líka ýmiss konar fatnað sem dæmi auk stálpotta og veglegra skurðarbretta.

„Áherslan er á eitthvað sem hefur notagildi dagsdaglega eða hefur góða endingu og er jafnvel eitthvað sígilt,“ segir hann.

„Víða hefur verið gagnrýni á hraðtísku en neytandinn virðist vera að færa sig yfir í meiri gæði og eitthvað sem endist lengur, seem er gott því það má ætla að það verði síður að úrgangi strax eftir jólin.“

Árið 2024 var allt fyrir pizzagerðina útnefnt sem jólagjöf ársins en árið 2023 voru samverustundir vinsælastar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.