Innlent

Frum­varp um brottfararstöð komið til Al­þingis

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. vísir/ívar

Frumvarp dómsmálaráðherra um svokallaða brottfararmiðstöð fyrir útlendinga er komið til Alþingis. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að reka slíka brottfararmiðstöð á fleiri en einum stað en lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði falin ábyrgð á rekstri stöðvarinnar. Frumvarpið felur í sér heimild til frelsissviptingar þeirra einstaklinga sem vistaðir verða í brottfararstöð, og meðal annars heimild til valdbeitingar og agaviðurlaga.

Samkvæmt frumvarpinu er brottfararmiðstöð skilgreind sem „staður þar sem útlendingur sætir frelsisskerðingu samkvæmt lögum um útlendinga vegna ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar hjá stjórnvöldum.“

Við upphaf vistunar í brottfararmiðstöð samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ýmsar persónuupplýsingar um einstaklinga verði teknar niður, svo sem ljósmynd, fullt nafn, kyn, fæðingardagur og þjóðerni eða eftir atvikum ríkisfangsleysi, upplýsingar um tungumálakunnáttu, heilsufar og sjúkrasögu. 

Þá skal upplýsingum um hvenær einstaklingur var frelsissviptur haldið til haga auk þess sem viðkomandi skal kynnt um réttindi sín og skyldur auk þess sem honum verður heimilt að hafa samband við lögmann, aðstandendur, fulltrúa heimalands og/eða viðurkennd mannúðarsamtök.

Þá er gert ráð fyrir að vistarverur karla og kvenna verði aðskildar, en þó skuli fjölskyldum séð fyrir sérstökum vistarverum. Í þriðja kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild til valdbeitingar, líkamsleitar og leitar í vistarverum ef nauðsyn þykir og beitingu agaviðurlaga svo fátt eitt sé nefnt.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þau taki gildi þann 1. mars á næsta ári og að brottfararmiðstöð taki til starfa þann 12. júní sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×