Enski boltinn

Arsenal með lang­bestu vörn Evrópu

Valur Páll Eiríksson skrifar
William Saliba og félagar í vörn Arsenal hafa staðið vaktina vel.
William Saliba og félagar í vörn Arsenal hafa staðið vaktina vel. AP Photo/Kirsty Wigglesworth

Vörn Arsenal er sú besta í Evrópu sé litið til meðaltals marka sem lið í stærstu deildum álfunnar hafa fengið á sig á leiktíðinni. Arsenal hefur fengið á sig mark í fjórða hverjum leik.

Arsenal vann afgerandi 4-0 sigur á spænska stórliðinu Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær og fylgir þar með eftir sitthvorum 2-0 sigrinum á Athletic Bilbao annars vegar og Olympiakos hins vegar í keppninni fram að því. Arsenal er því með markatöluna 8-0 eftir þrjá leiki í keppninni.

Alls hefur Arsenal spilað tólf leiki í öllum keppnum og aðeins fengið á sig þrjú mörk, öll í ensku úrvalsdeildinni, en liðið vann 2-0 sigur á Port Vale í enska deildabikarnum.

Manchester City, Liverpool og Newcastle United eru einu þrjú liðin sem hafa fundið leið í netmöskvana gegn Skyttunum það sem af er vetri. Liverpool vann 1-0 sigur þökk sé aukaspyrnumarki Dominik Szoboszlai á Anfield í lok ágúst, Arsenal og City gerðu 1-1 jafntefli um miðjan september og Arsenal vann Newcastle 2-1 viku síðar.

Arsenal hefur því fengið á sig 0,25 mörk að meðaltali í leik í vetur, töluvert minna að meðaltali en AC Milan sem hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í öllum keppnum, en í níu leikjum, 0,44 að meðaltali.

Næst koma Roma og Como frá Ítalíu, það síðarnefnda er jafnt Manchester City og Sunderland er í sjötta til sjöunda sæti ásamt Bologna. Ensk og ítölsk lið einoka nánast lista þeirra tíu liða sem hafa fæst mörk fengið á sig, en þar eru að auki Inter Milan, Lyon frá Frakklandi og Bayern Munchen frá Þýskalandi.

Listann má sjá á myndinni að neðan.

Arsenal er efst í ensku úrvalsdeildinni með 19 stig eftir átta leiki, þremur stigum á undan Manchester City en þar á eftir koma Bournemouth og Liverpool.

Transfermarkt tók saman lista yfir bestu varnir í fimm stærstu deildum Evrópu það sem af er leiktíð.Mynd/Transfermarkt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×