Enski boltinn

Fékk bann fyrir fagnið á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Taylor gaf Enzo Maresca rauða spjaldið eftir fagnaðarlætin.
Anthony Taylor gaf Enzo Maresca rauða spjaldið eftir fagnaðarlætin. Getty/Robin Jones

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, fær ekki að stýra liðinu í næsta leik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Maresca var dæmdur í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sitt í sigrinum á Liverpool í síðasta leik fyrir landsleikjahléið.

Maresca hljóp þá niður hliðarlínuna til að fagna sigurmarki Chelsea. Maresca má ekki vera á hliðarlínunni en getur undirbúið liðið að öðru leyti.

Enska knattspyrnusambandið sagði að Maresca hefði játað á sig óíþróttamannslega hegðun eftir að hafa verið vísað af velli á sjöttu mínútu uppbótartíma í leiknum fyrir að fagna sigurmarki liðs síns á afar öfgafullan hátt.

Hann hefur einnig verið sektaður um átta þúsund pund eða meira en 1,3 milljónir króna.

Ítalinn verður því í banni frá hliðarlínunni í útileik Chelsea gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

Maresca er sagður hafa sagt við ítalska fjölmiðla að þetta hafi verið „eðlislæg viðbrögð“ og bætt við „en ég held að [rauða spjaldið] hafi verið þess virði“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×