Skoðun

Fögur fyrir­heit sem urðu að engu

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson skrifar

Þegar hæstvirtur atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, lagði upp í metnaðarfulla hringferð með Bændasamtökunum síðastliðið vor hugsaði ég með mér að þarna væri ráðherra sem ætlaði að rækta gott samtal við bændastéttina. Þetta fannst mér gefa góð fyrirheit fyrir það sem koma skyldi í málefnum landbúnaðarins á þessu kjörtímabili.

Áður en að þessu kom ritaði Hanna Katrín grein sem birtist á vef Bændablaðsins í byrjun febrúar, þá ný tekin við málefnum landbúnaðarins sem atvinnuvegaráðherra. Þar sagði hún meðal annars svo frá “Það er mér bæði heiður og ánægja að sinna þessum mikilvæga málaflokki og vinna með ykkur að því að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.”

Það verður ekki annað sagt en að þessi fögru fyrirheit um samvinnu og samtal við bændastéttina hafi nú algjörlega fokið út um gluggann með framlögðum drögum að frumvarpi að nýjum búvörulögum.

Innihald frumvarpsins er eitt en vinnubrögð hæstvirts atvinnuvegaráðherra í þessu máli er svo allt annað mál. Sama hvað fólki kann að finnast um innihald draga að frumvarpi að nýjum búvörulögum, þá verður ekki annað sagt en að sú staðreynd að algjörlega sé gengið fram hjá Bændasamtökunum við vinnslu frumvarpsins er algjörlega óskiljanlegt. Samráð og samvinna sem ítrekað var búið að lofa eins og kom fram í yfirlýsingu stjórnar Bændasamtakanna á dögunum.

Sú staðreynd að ráðherra ákveði að ganga svona til verka þykir mér verulega umhugsunarvert. Með því að leita til bændastéttarinnar við vinnslu frumvarpsins hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau miklu og hörðu viðbrögð sem komið hafa við frumvarpinu undanfarna daga. Hér leikur ráðherra sér að því að skapa glundroða og óánægju sem hefði með lítilli fyrirhöfn verið hægt að koma í veg fyrir með vönduðum vinnubrögðum.

Höfundur situr í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.




Skoðun

Sjá meira


×