Erlent

Rétti Trump miða um að til­kynna sam­komu­lag um Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með umræddan miða. Þar stendur að Trump þurfi að samþykkja færslu á Truth Social svo hann geti verið fyrstu til að segja frá samkomulagi.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með umræddan miða. Þar stendur að Trump þurfi að samþykkja færslu á Truth Social svo hann geti verið fyrstu til að segja frá samkomulagi. AP/Evan Vucci

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gekk inn á fund sem Donald Trump, forseti, sat með íhaldssömum áhrifavöldum og blaðamönnum og rétti forsetanum miða. Á mynd sem ljósmyndari náði af miðanum sést að Rubio var að biðja Trump um að gefa grænt ljós á færslu um samkomulag varðandi Gasaströndina væri í höfn.

Það þyrfti Trump að gera svo hann gæti verið fyrstur til að tilkynna að samkomulag hafði náðst og það á Truth Social, hans eigin samfélagsmiðli. Á miðanum segir að samkomulag sé „mjög nærri“.

Í kjölfarið svaraði Trump nokkrum spurningum frá blaðamönnum meðan Rubio stóð óþreyjufullur nærri, samkvæmt AP fréttaveitunni. Þegar Trump stóð upp sagði hann að samkomulag væri nærri en neitaði að fara nánar út í það.

„Ég þarf að fara núna, til að reyna að leysa vandamál í Mið-Austurlöndum,“ sagði hann.

Viðræður milli leiðtoga Hamas og Ísraela hafa farið fram í Egyptalandi undanfarna daga. Þeim er ætlað að binda enda á hernað Ísraela þar og sagði Trump fyrr í kvöld að hann myndi mögulega fara þangað um helgina.

Trump lagði á dögunum fram tillögur að mögulegu friðarsamkomulagi sem samþykktar hafa verið af Ísraelum og nokkrum ríkjum Mið-Austurlanda.

Sjá einnig: Hótar hel­víti á jörð sam­þykki Hamas ekki til­lögurnar

Al Jazeera hefur eftir heimildarmanni sínum í Palestínu að leiðtogar Hamas hafi samþykkt að sleppa öllum gíslum sem eru í þeirra haldi, en ekki líkum sem þeir halda enn. Heimildarmaðurinn segir nokkurn árangur hafa náðst þegar kemur að skiptum á föngum og tryggingum um að Ísraelar hefji stríðið ekki aftur þegar gíslum hefur verið sleppt.

Líbanskur miðill sem kallast Al Mayadeen segir að leiðtogar Hamas hafi samþykkt samkomulag sem hafi verið til umræðu í dag og skrifa eigi undir það í Egyptalandi á morgun. Það hefur ekki verið staðfest enn þegar þetta er skrifað (22:08).

CNN hefur heimildir fyrir því að stutt sé í yfirlýsingu frá Trump.

Frá því Rubio rétti Trump miðann hafa tvær færslur verið birtar á síðu hans á Truth Social, báðar myndbönd. Annað þeirra fjallar í einföldu máli sagt um að Demókratar séu ömurlegir. Hitt er um að ástandið í Chicago sé hræðilegt.

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir

„Auðvitað er ég hrædd um hana“

„Auðvitað er mér ekki rótt. Auðvitað er ég hrædd um hana. En ég veit að hún stendur sig vel og ég er stolt af því sem hún hefur gert,“ segir Sólveig Hauksdóttir, móðir Margrétar Kristínar Blöndal, eða Möggu Stínu, sem hefur verið handtekin og flutt til Ísrael.

Tengdasonur Trumps mætir til Egyptalands

Sérlegur erindreki Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Steve Witkoff, og tengdasonur forsetans Jared Kushner eru nú á leið til Egyptalands til þess að taka þátt í friðarviðræðunum sem í gangi eru á milli Hamas og Ísreala.

Engan óraði fyrir framhaldinu

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að enginn hafi búist við því að staðan sem nú er uppi á Gasaströndinni yrði þegar Hamas gerði árás á Ísrael þann 6. október árið 2023. Í dag eru tvö ár liðin frá þeirri áras.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×