Innlent

Magga Stína hand­tekin í nótt af Ísraels­her

Lovísa Arnardóttir skrifar
Margrét Kristín Blöndal, Magga Stína, var handtekin í nótt af Ísraelsher á leið sinni til Gasa með skipinu Conscience.
Margrét Kristín Blöndal, Magga Stína, var handtekin í nótt af Ísraelsher á leið sinni til Gasa með skipinu Conscience. Instagram

Ísraelski herinn handtók alla meðlimi bátsins Conscience um klukkan 04:30 að staðartíma í nótt. Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona, Magga Stína, var ein þeirra sem var um borð. Á Instagram-síðu Frelsisflotans má sjá að ísraelski herinn kom hermönnum um borð í þyrlum og handtók alla meðlimi.

 Á síðunni má einnig sjá myndbönd frá áhafnarmeðlimum, þar með talið Möggu Stínu, þar sem hún segir að hún sé sjálfboðaliðii um borð í skipinu og að ef fólk sé að horfa á myndbandið þá sé Ísraelsher búin að ræna þeim.

„Ég biðla til alla vina minna, fjölskyldu og félaga að þrýsta á íslensk stjórnvöld til að krefjast lausnar minnar nú þegar og þrýsta á íslensk stjórnvöld að slíta stjórnmálastarfi,“ segir hún.

Í ákalli frá fjölskyldu hennar segir að áhafnarmeðlimum sé nú siglt yfir til Ashdod hafnar í Ísrael og að þau hafi misst allt samband við hana og aðra skipverja.

„Við fjölskyldan biðlum til íslenskra stjórnvalda að beita sér með öllum mætti fyrir því að ísraelsk yfirvöld leysi hana úr haldi tafarlaust, sem og aðra í áhöfn Frelsisflotans,“ segir í ákallinu.

Um borð í The Conscience, skipinu sem Margrét Kristín sigldi með, voru hátt í hundrað heilbrigðisstarfsmenn, blaðamenn og friðarsinnar í sem vildu reyna að koma neyðaraðstoð og heilbrigðisstarfsfólki til íbúa Gaza. Um borð voru nauðsynjar á borð við lyf, hjúkrunarvörur og mataraðstoð upp á þrettán milljónir króna samkvæmt ákalli fjölskyldu Möggu Stínu.

„Ísrael stendur engin ógn af þeim skipum sem sigla undir merkjum Frelsisflotans. Engu að síður hafa ísraelsk stjórnvöld gert skipin sem á undan sigldu upptæk með ofbeldi og ógnunum, rænt skipverjum og fargað matvælum og lyfjum sem um borð voru. Fréttir bárust í kjölfarið af illri meðferð Ísraels á fólkinu sem haldið er í Ktzi’ot-fangelsinu. Þeim hefur verið misþyrmt, neitað um næringu, vatn, svefn og lífsnauðsynleg lyf tekin af þeim. Mannréttindi þeirra eru virt að vettugi, rétt eins og Ísrael hefur virt mannréttindi palestínsku þjóðarinnar að vettugi allt frá byrjun hernáms og þjóðarmorðs Ísraels í Palestínu,“ segir í ákalli fjölskyldunnar og að þau hafi því miklar áhyggjur af henni og þeirri meðferð sem hún gæti hlotið í haldi Ísraela.

„Við skorum á íslensku ríkisstjórnina og almenning að fordæma ólöglega handtöku Ísraela á almennum borgurum og krefjast þess að allir sjálfboðaliðar verði látnir lausir tafarlaust,“ segir í ákallinu.

Undir það rita Elsa María Blöndal, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, dóttir, systir og móðir Möggu Stínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×