Erlent

Segist ekki munu leyfa Ísrael að inn­lima Vesturbakkann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump virtist nokkuð afgerandi í afstöðu sinni gegn innlimun.
Trump virtist nokkuð afgerandi í afstöðu sinni gegn innlimun. AP/Leon Neal

„Ég mun ekki leyfa Ísrael að innlima Vesturbakkann. Nei, ég mun ekki leyfa það. Það mun ekki gerast,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í Hvíta húsinu í gær. „Það er komið nóg. Það er kominn tími til að stoppa.“

Margir hafa beðið eftir því að Trump lýsti afstöðu sinni til ákalla öfgafyllstu samstarfsmanna Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, eftir innlimun hluta eða alls Vesturbakkans. Áætlanir eru uppi um 3.400 ný heimili fyrir Ísraelsmenn á svæðinu.

Svar Bandaríkjaforseta virðist nokkuð afgerandi en menn bíða enn eftir því að Netanyahu grípi til einhvers konar aðgerða til að svara ákvörðun Breta, Frakka, Ástrala og fleiri um að viðurkenna sjálfstæða Palestínu.

Þykir nokkuð víst að hann muni ekki taka dramatísk skref án þess að bera þau undir Trump.

Breskir embættismenn höfðu lýst áhyggjum af því að Trump myndi leggja blessun sína yfir yfirráð Ísraelsmanna yfir landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Leiðtogar Evrópu og Arabaríkjanna hafa staðið í ströngu við að koma í veg fyrir það undanfarna daga.

Það hefði enda haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem endalok tveggja ríkja lausnarinnar og enn meiri sundrung og óstöðugleika á svæðinu.

Trump sagði einnig í gær að hann hefði rætt við Netanyahu og fulltrúa annarra ríkja Mið-Austurlöndum og að samkomulag um Gasa gæti náðst á næstunni. Þess ber að geta að samhljóma yfirlýsingar hafa ítrekað reynst byggja á sandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×