Innlent

Upp­sagnir hjá Norðuráli í dag

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Atli Ísleifsson skrifa
Norðurál rekur álverið á Grundartanga.
Norðurál rekur álverið á Grundartanga. Vísir/vilhelm

25 manns verður sagt upp hjá Norðuráli í dag. Ástæðan er sögð vera aukinn framleiðslukostnaður.

Þetta staðfestir Sólveig Kr. Bergmann, framkvæmdastjóri samskipta og samfélagsmála í samtali við fréttastofu. 

„Mjög erfitt að þurfa að fara í slíkar aðgerðir og sárt að hrof á eftir góðu samstarfsfólki,“ segir Sólveig.

„Við erum að bregðast við breyttum aðstæðum en framleiðslukostnaður hefur aukist verulega.“

Allir 25 starfsmennirnir starfa á sviði framleiðslu. Alls starfa 675 manns hjá Norðuráli og áttatíu prósent þeirra á sviði framleiðslu.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, greindi frá tíðindunum á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.

„Það er þyngra en tárum taki að þurfa enn og aftur að horfa upp á töpuð störf hér á Akranesi, því mér er verulega til efs að nokkurt svietarfélag hafi þurft að þola jafnmiklar hremmingar og við Akranesingar á undanförnum árum,“ skrifar Vilhjálmur.

„Í morgun, rúmlega hálf átta, fékk ég símtal frá framkvæmdastjóra Norðuráls þar sem mér voru tilkynnt þau ömurlegu tíðindi að fyrirtækið hyggist segja upp 25 starfsmönnum í dag. Ástæðan er sögð aukinn framleiðslukostnaður og minni framleiðsla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×