Viðskipti innlent

Litla kaffi­stofan verði nýtt fyrir norður­ljósa­ferðir

Atli Ísleifsson skrifar
Til stendur að mála húsið og fjarlægja eldsneytistankana af bílaplaninu. Myndin er úr myndasafni Facebook-síðu Litlu kaffistofunnar.
Til stendur að mála húsið og fjarlægja eldsneytistankana af bílaplaninu. Myndin er úr myndasafni Facebook-síðu Litlu kaffistofunnar. Litla kaffistofan

Ferðaþjónustufyrirtækið Icelandia hefur keypt Litlu kaffistofuna á Suðurlandsvegi og verður húsnæðið nýtt fyrir norðurljósaferðir. Framkvæmdir hafa staðið yfir við húsið síðustu daga.

Morgunblaðið greinir frá kaupunum og segir að kaupin hafi átt sér stað í síðasta mánuði.

Sagt var frá því í sumar að Litlu kaffistofunni hafi verið lokað í sumar en veitingarekstur hafði farið þar fram nánast sleitulaust síðan 1960.

Elín Guðný Hlöðversdóttir, einn fyrrverandi rekenda staðarins, sagði Vísi í sumar frá því að reksturinn hafi verið erfiður og ekki hafi bætt úr skák þegar Olís flutti bensínstöð sína af Litlu kaffistofunni og í Norðlingaholt. Þar með hafi 63 ára sögu bensínstöðvarinnar lokið. Elín Guðný er dóttir Hlöðvers Sigurðssonar, kenndur við Hlöllabáta, en fjölskyldan tók við rekstri Litlu kaffistofunnar árið 2021.

Morgunblaðið hefur eftir Birni Ragnarssyni, forstjóra Icelandia, að félagið hafi oft verið vandræðum með norðurljósaferðirnar þegar kemur að því að koma fólki fyrir og bjóða upp á aðbúnað fyrir viðskiptavini, meðal salernisaðstöðu. Litla kaffistofan muni þar nýtast vel.

Til stendur að mála húsið og fjarlægja eldsneytistankana af bílaplaninu á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Litla kaffistofan skellir í lás

Laugardaginn næsta, þann 28. júní, verður dyrum hinnar rómuðu Litlu kaffistofu sem hefur um áratugi þjónað vegbúum þjóðarinnar skellt í lás. Kaffihúsið hefur verið rekið nánast sleitulaust frá árinu 1960.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×