Enski boltinn

Hákon reyndist hetja Brentford

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hákon Rafn var hetjan í vítaspyrnukeppninni.
Hákon Rafn var hetjan í vítaspyrnukeppninni. Eddie Keogh/Getty Images

Hákon Rafn Valdimarsson gerðist sekur um slæm mistök en stóð síðan uppi sem hetja Brentford í sigri gegn Aston Villa í vítaspyrnukeppni enska deildabikarnum.

Hákon hleypti marki Aston Villa auðveldlega inn, fékk skot beint á sig en missti boltann milli fóta. Brentford fór marki undir inn í hálfleikinn en jafnaði snemma í seinni hálfleik.

Hvorugu liði tókst að setja sigurmarkið og draga þurfti til vítaspyrnukeppni, þar sem Hákon reyndist hetjan.

Hann varði fyrsta vítið frá John McGinn, sem skaut með vinstri fæti í vinstra hornið. Hákon varði svo einnig fjórða víti Villa, frá Matty Cash.

Brentford skoraði hins vegar úr öllum sínum vítaspyrnum og fór með 4-2 sigur úr vítaspyrnukeppninni, áfram í næstu umferð deildabikarsins.

Crystal Palace komst einnig áfram, eftir 1-1 jafntefli og 4-2 sigur í vítaspyrnukeppni gegn Millwall.

Grimsby er sömuleiðis á leið í næstu umferð, eftir 1-0 sigur á útivelli gegn Sheffield Wednesday. Jason Daði Svanþórsson er leikmaður Grimsby en kom ekki við sögu.

Þetta er annar leikurinn sem Hákon spilar fyrir Brentford á tímabilinu en hann stóð sig einnig vel í deildabikarleiknum gegn Bournemouth. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×