Enski boltinn

„Arteta hefur aldrei verið með jafn góðan hóp og núna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gyoekeres, Eberechi Eze og Noni Madueke gengu allir í raðir Arsenal í sumar.
Viktor Gyoekeres, Eberechi Eze og Noni Madueke gengu allir í raðir Arsenal í sumar. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar eru vægast sagt hrifnir af því sem þeir hafa séð í upphafi tímabils hjá Arsenal.

Adda Baldursdóttir og Sigurbjörn Hreiðarsson voru gestir Stefáns Árna Pálssonar í Sunnudagsmessunni í gær þar sem farið var yfir allt það helsta úr fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Meðal þess sem rætt var í þættinum var gengi Arsenal í pphafi tímabils. Liðið vann afar öruggan 3-0 sigur gegn Nottingham Forest á laugardaginn og nýja framherjatríóið, Eberechi Eze, Noni Madueke og Viktor Gyökeres átti stóran þátt í sigrinum. Sem og annar nýr maður, Martin Zubimendi.

Sigurbjörn og Adda eru ofboðslega hrifin af því sem þau hafa séð frá nýju mönnunum hjá Arsenal í upphafi tímabils og Sigurbjörn gengur svo langt að segja að Mikel Arteta, þjálfari liðsins, hafi aldrei verið með jafn góðan hóp í höndunum og nú.

„Núna eru þeir með frábæra níu í Gyökeres og með þessa möguleika á vængjunum,“ sagði Sigurbjörn meðal annars.

„Það er frábært fyrir þjálfara að vera með kannski tvo kantmenn sem eru kannski ekki alveg að ná sér á strik, en þá ertu með aðra jafn góða á vængjunum sem bíða eftir því að koma inn. Arteta hefur aldrei verið með jafn góðan hóp og hann er með núna hjá Arsenal,“ bætti Sigurbjörn við að lokum.

Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: „Arteta hefur aldrei verið með jafn góðan hóp og núna“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×