Enski boltinn

Er hluti af leik­manna­hópnum þrátt fyrir að vera í fangelsi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er í fangelsi en gæti spilað í ensku C-deildinni fyrir jól.
Er í fangelsi en gæti spilað í ensku C-deildinni fyrir jól. Mansfield Town

Lucas Akins er hluti af leikmannahóp Mansfield Town í ensku C-deildinni þrátt fyrir að vera í fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.

Hinn 36 ára gamli Akins var dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir að verða valdur að andláti hjólreiðamanns með glannalegum akstri í mars árið 2022. BBC, breska ríkisútvarpið, greinir frá að hann muni að öllum líkindum losna úr haldi eftir að hafa setið inni helming dómsins.

Það þýðir að Akins gæti spilað fyrir Mansfield Town í ensku C-deildinni fyrir jól þar sem félagið er með hann skráðan í leikmannahóp sinn.

Undir lok síðasta tímabils, þegar lið skila inn listum sem innihalda leikmenn sem hafa runnið út á samning, gaf Mansfield út að liðið væri enn að skoða mál Akins. Nú hafa formlegir hópar liðanna verið birtir á heimasíðu EFL og þar er Akins að finna sem leikmann Mansfield.

„Félagið mun skoða stöðu Lucas þegar honum verður sleppt úr haldi og mun ekki tjá sig frekar að svo stöddu,“ sagði í stuttri yfirlýsingu Mansfield þegar BBC spurðist fyrir um málið.

Akins var leikmaður Mansfield árið 2022 þegar hann varð valdur að banaslysi. Hann hélt áfram að spila fyrir félagið á meðan dómsmálinu stóð. Hann byrjaði leik í C-deildinni aðeins klukkustundum eftir að játa sekt sína í réttarsal þann 4. mars síðastliðinn.

Þegar dómur var kveðinn upp sagði Nigel Clough, þjálfari félagsins, að niðurstaða dómsins væri „ótrúlegt sjokk“ fyrir alla í félaginu.

Akins hefur spilað yfir 150 leiki fyrir Mansfield síðan hann gekk í raðir félagsins í janúar 2022 frá Burton Albion þar sem hann spilaði einnig undir stjórn Clough.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×