Skoðun

Boðs­ferð Lands­virkjunar

Stefán Georgsson skrifar

Í vikunni bauð Landsvirkjun þingmönnum og sveitarstjórnarfólki í skoðunarferð að fyrirhuguðu virkjanasvæði við Þjórsárver. Í ferðinni dreifði Landsvirkjun einhliða og röngum upplýsingum um að Norðlingaölduveita (sem hefur verið endurskírð Kjalölduveita) hefði engin áhrif á Þjórsárver. Verkefnisstjórn um rammaáætlun (sem er óháður aðili) hafnaði þessari túlkun Landsvirkjunar mjög skýrt eins og lesa má um í greinargerð frá 1. desember 2023.

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar með mjög digra sjóði, velta fyrirtækisins var 560 milljónir dollara í fyrra og rekstrarhagnaður 300 milljónir dollara. Þá virðist fyrirtækið hafa góðan aðgang að löggjafarvaldinu og sveitastjórnarfólki.

Landsvirkjun hefur gert margt gott í gegnum ári en það að nota næstum ótakmarkaða sjóði og gott aðgengi að þingmönnum til að fá að virkja í Þjórsárverum með því að dreifa röngum upplýsingum er skammarlegt. Norðlingaölduveita er í verndarflokki og sú flokkun er vel rökstudd af verkefnisstjórn rammaáætlunar. Þó markaðsfræðingar Landsvirkjunar hafi gefið henni nýtt nafn og legu hennar hnikað til breytir það ekki því að virkjunin hefur áhrif á Þjórsárver og á því að vera í verndarflokki áfram.

Vonandi sér Landsvirkjun sóma sinn í að leiðrétta þær röngu upplýsingar sem dreift var í ferðinni og allra helst hætta verkfræðingar Landsvirkjunar þeirri vegferð sinni að fá leyfi til að eyðileggja Þjórsárver. Landsvirkjun og alþingismenn mega ekki láta blinda trú á Excel skjöl og blauta verkfræðidrauma byrgja sér sýn.

Höfundur er verkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×