Skoðun

Gleði­leg ný fiskveiðiáramót …von eða ótti?

Arnar Laxdal skrifar

Áramótin eru alltaf tímamót, en í ár skiptast hughrifin milli vonar og ótta. Sjávarútvegurinn hefur í gegnum aldir verið burðarás íslensks samfélags, fætt þjóðina og byggt upp byggðir landsins. En framtíð hans virðist ótryggari en áður.

Sífellt þyngri skattlagning hefur þrengt að rekstri margra fyrirtækja. Smærri og meðalstórar útgerðir eiga erfitt með að lifa af, á meðan stærri aðilar mögulega hafa þetta af með hagræðingu. Þetta leiðir til samþjöppunar og veikrar byggðafestu.

Afleiðingarnar sjást í daglegu lífi. Fyrirtækin hverfa mörg hver eða hafa minna svigrúm til að styðja íþróttafélög, björgunarsveitir og önnur samfélagsverkefni. En mikilvægast er þó hitt: að störf eru í auknum mæli í hættu. Hagræðing þýðir ekki aðeins uppsagnir heldur líka að vinnsla flyst úr landi þar sem ódýrara vinnuafl er að finna. Þannig tapast ekki aðeins störf heldur skatttekjur og tengslin við samfélögin sem hafa lifað af sjávarútvegi í aldaraðir.

Óttinn vex einnig við þá hugsun að Ísland gengi inn í Evrópusambandið. Þá væri hætt við að erlendir auðmenn keyptu upp íslenskan sjávarútveg og ákvörðunarvaldið færðist úr landi.

Ný fiskveiðiáramót er því ekki aðeins dagsetning í almanakinu…… heldur spurning um framtíð atvinnu, byggða og samfélags á Íslandi.

Höfundur er smábátasjómaður.




Skoðun

Sjá meira


×