Innlent

Inn­brot og menn til ama á úti­vistar­svæði

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Ívar Fannar

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið mann eftir að óskað var aðstoðar vegna innbrots í húsi í miðborg Reykjavíkur. Hinn grunaði var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Sömu sögu var að segja í Grafarvogi þar sem aðstoðar var óskað vegna innbrots og þjófnaðar, en sakborningurinn var handtekinn stuttu síðar og fannst þýfið í kjölfarið.

Í tilkynningunni segir einnig að lögregla hafi haft í ýmsu að snúast og var meðal annars kölluð út vegna hnupls úr verslun í Garðabæ, en málið var afgreitt með vettvangsskýrslutökum.

Þá segir að aðstoðar lögreglu hafi einnig verið óskað vegna tveggja manna sem voru til ama á útivisvæði í Breiðholti og var þeim vísað á brott.

Ennfremur kemur fram að maður hafi verið handtekinn vegna gruns um ölvun á almannafæri í Árbæ. Maðurinn er sagður hafa verið í annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×