Enski boltinn

Dóttir Scholes fékk svaka­legt augna­ráð frá pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alicia Scholes var að stríða pabba sínum á meðan leik Manchester United og Arsenal stóð og honum var ekki skemmt.
Alicia Scholes var að stríða pabba sínum á meðan leik Manchester United og Arsenal stóð og honum var ekki skemmt. Getty/Morgan Harlow/Alicia Scholes

Paul Scholes er einn sigursælasti leikmaður Manchester United í sögunni og hann spilaði aldrei fyrir neitt annað félag. Það er því kannski ekkert skrýtið að hann hafi ekki verið ánægður með dóttur sína á dögunum.

Paul Scholes lék yfir sjö hundruð leiki fyrir aðallið Manchester United frá 1993 til 2013 og vann alls 25 titla með félaginu. Scholes varð meðal annars ellefu sinnum Englandsmeistari og vann Meistaradeildina.

Hann kom inn í unglingastarf United þegar hann var fjórtán ára gamall og spilaði þar þangað til að hann var 39 ára. Hann er dæmi um eins harða United goðsögn og þær gerast.

Aðalkeppinautur United á þessum árum var oftast Arsenal undir stjórn Arsene Wenger.

Alicia, dóttir Scholes, ákvað að stríða pabba sínum þegar United var að spila á móti Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í ár.

Hún fann Arsenal treyju og fór inn í stofu til pabba sína þar sem hann lá í sófanum og fylgdist með leiknum.

Það er óhætt að segja að faðir hennar hafi ekki verið sáttur enda fékk hún svakalegt augnaráð frá pabba sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

United stóð sig ágætlega í leiknum en fékk snemma á sig mark eftir hornspyrnu og náði ekki að svara fyrir það í 1-0 tapi á Old Trafford.

Hér fyrir neðan má sjá þessu viðbrögð Scholes við uppátæki dótturinnar sem er 24 ára gömul og landliðskona í netbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×