Enski boltinn

Tony Adams vill að Arsenal skipti um fyrir­liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Adams vill að Declan Rice sé fyrirliði Arsenal en ekki Martin Ödegaard.
Tony Adams vill að Declan Rice sé fyrirliði Arsenal en ekki Martin Ödegaard. EPA/TOLGA AKMEN

Ein mesta goðsögnin í sögu Arsenal er ekki ánægður með fyrirliða liðsins í dag og vill að knattspyrnustjórinn Mikel Arteta taki fyrirliðabandið hreinlega af Martin Ödegaard.

Tony Adams þekkir vel hvað það er að vera fyrirliði Arsenal enda var hann orðinn fyrirliði liðsins 21 árs gamall og gegndi því hlutverki í fjórtán ár. Hann fékk viðurnefnið herra Arsenal.

Það er því öruggt að stuðningsmenn Arsenal og fleiri hlusta þegar Adams talar enda lyfti hann mörgum bikurum sem fyrirliði liðsins.

Adams mætti á opinn umræðufund um stöðuna á Arsenal liðinu og var óhræddur við að tjá sig um fyrirliðastöðuna. Hann var ekkert mikið að fela það að hann gæti verið sáttari með knattspyrnustjórann.

Arsenal hefur orðið í öðru sæti þrjú tímabil í röð og hefur ekki orðið enskur meistari í meira en tuttugu ár.

Adams varð spurður beint út hvort hann væri aðdáandi Arteta en hikaði og fékk að launum mikinn hlátur úr salnum.

„Arteta þarf að taka virkilega stóra ákvörðun í ár og að mínu mati hefur hann ekki tekið hana,“ sagði Tony Adams.

„Ákvörðunin er að gera Declan Rice að fyrirliða liðsins. Declan er fyrirliði eins og ég vill sjá þá. Með þessu þá gæti Ödegaard líka verið frjálsari inn á vellinum,“ sagði Adams. Norðmaðurinn hefur verið fyrirliði Arsenal síðustu ár.

Adams nefndi dæmi þegar hann tók við fyrirliðastöðu enska landsliðsins af David Platt og þegar hann missti hana líka. Hann er á því að það sé mikilvægt að finna hinn sanna leiðtoga hvers liðs.

„Ég held að Declan Rice sé betri en Mikel Arteta og mér finnst hann vera sigurvegari. Hann er leiðtogi í þessu Arsenal liði, í klefanum, á æfingasvæðinu og alls staðar. Hann hefur sterk gildi og hann er prinsipp maður,“ sagði Adams.

„Stórir knattspyrnustjórar eru fljótir að sjá það: Þú ert minn maður núna,“ sagði Adams. Það má sjá hann tjá sig um þetta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×