Viðskipti innlent

Lánshæfið hækkar úr stöðugu í já­kvætt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur breytt horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar og staðfest um leið „A“ lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að jákvæðar horfur endurspegli sterkari stöðu opinberra fjármála.

„Gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera lækki verulega á árinu 2025 eftir vel heppnað uppgjör á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs og sölu á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka. Áfram fjölgar stoðum í atvinnulífinu, með áherslu á verðmætar atvinnugreinar, svo sem lyfjaiðnað, upplýsinga- og samskiptatækni og líftækni. Gnægð endurnýjanlegrar orku og samkeppnishæft orkuverð hafa laðað að sér fjárfestingar í orkufrekum gagnaverum. Þá eru miklir möguleikar í lagareldi þar sem Ísland hefur samkeppnisforskot á heimsvísu,“ segir í tilkynningunni.

Þá er bent á hvað gæti leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.

„Aukin trú á verulegri og viðvarandi lækkun skuldahlutfalls ríkissjóðs, áframhaldandi kröftugur vöxtur og vísbendingar um frekari fjölbreytni í efnahagslífinu sem dregur úr áhættu Íslands gagnvart ytri áföllum, gæti leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.“

En það getur brugðið til beggja vona eins og fram kemur í tilkynningunni.

„Veruleg hækkun skuldahlutfallsins, til dæmis vegna langvarandi slökunar í ríkisfjármálum eða alvarlegs efnahagsáfalls, sem gæti til að mynda komið til vegna verulegs samdráttar í heimshagkerfinu, gæti leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.“

Fitch ratings er eitt af þremur stóru matsfyrirtækjunum en hin tvö eru Standard & Poor’s og Moody’s. Hæsta mögulega lánshæfi er AAA en sú lægsta er D, algjört greiðslufall.


Tengdar fréttir

Lánshæfismat ríkissjóðs óbreytt

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs er óbreytt í A og hörfur stöðugar. Þetta er mat lánshæsfismatsfyrirtækisins Fitch Ratings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×