Viðskipti erlent

Tíu prósenta tollur á fær­eyskar vörur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Vísir/Getty

Innflutningstollur Bandaríkjanna á færeyskar vörur verður tíu prósent. Færeyingar mega þannig una við fimm prósentustigum lægri toll en Íslendingar, sem fá fimmtán prósenta toll á sínar útflutningsvörur, eins og Norðmenn.

Færeyjar eru reyndar ekki á tollalista Trumps Bandaríkjaforseta, sem Hvíta húsið birti síðastliðinn fimmtudag. Það fylgdi þó sögunni að þau lönd sem ekki væru á listanum fengju tíu prósenta toll.

Færeyska Kringvarpið hefur það eftir framkæmdastjóra Viðskiptaráðs Færeyja, Niels Winther, að tollurinn verði tíu prósent á færeyskar vörur. Kveðst hann hafa fengið það staðfest frá ræðisskrifstofu Færeyja í Washington.

Óvíst er hvort Grænlendingar hafi fengið samskonar meðhöndlun og Færeyingar en Grænland er heldur ekki á tollalistanum.

Helsta útflutningsvara Færeyinga er eldislax. Á Bandaríkjamarkaði keppir færeyski laxinn meðal annars við norskan og íslenskan eldislax en Bandaríkin eru stærsti kaupandi íslensks lax.

Frá laxeldiskvíum Bakkafrosts í Færeyjum. Eldislax er mikilvægasta útflutningsafurð Færeyinga.Bakkafrost

„Við fáum forskot í samkeppni við lönd sem þurfa að greiða meira í tolla, en í heildina er viðskiptastríð ekki gott fyrir Færeyjar,“ hefur Kringvarpið eftir framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Færeyja.

Engin skýring er gefin á því hversvegna Færeyingar sleppa betur. Þeir eru hvorki innan Evrópusambandsins né aðilar að EES-samningum. Ríki innan evrópska efnahagssvæðisins fengu fimmtán prósenta toll, bæði ríki Evrópusambandsins og EES-ríkin þrjú; Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Sviss, sem er í sömu stöðu og Færeyjar og Grænland, fékk hins vegar skell; 39 prósenta toll á sínar vörur. Aðeins Sýrland fékk hærri toll, 41 prósent.

Þess má geta að í opinberri heimsókn til Færeyja árið 2017 kynntist Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Íslands, stærsta fiskeldisfyrirtæki Færeyinga:


Tengdar fréttir

Hækkun tolla eins og þruma úr heiðskíru lofti

Utanríkisráðherra segir hækkun bandarískra tolla á íslenska vöru koma verulega á óvart. Stjórnvöld hafi kallað eftir samtali um hækkunina og vonir standa að samtöl hefjist strax.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×