Innlent

Sendi­nefnd ESB tjáir sig ekki um tollana

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Clara Ganslandt er sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.
Clara Ganslandt er sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Vísir/Samsett

Sendinefnd Evrópusambandsins til Íslands vill ekki tjá sig um verndartolla sambandsins sem leggjast að óbreyttu á járnblendi og kísiljárn meðal annars frá Íslandi og Noregi. Svokölluð verndarráðstafanarannsókn standi yfir sem sendinefndin hafi enga aðkomu að.

Greint hefur verið frá því að verndartollar leggist á járnblendi og kísiljárn frá Íslandi eftir þrjár vikur að óbreyttu en formlegt samtal á milli íslenskra og evrópskra stjórnvalda stendur nú yfir. Elkem á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit er eini framleiðandi kísiljárns á Íslandi.

Sveitarstjórnir á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit hafa miklar áhyggjur af áformunum og telja að þau ógni atvinnulífi svæðisins með beinum hætti. Fjöldi starfa eru undir og forstjóri Elkem á Íslandi hefur sagt samkeppnishæfni starfseminnar hverfa á einu bretti við álagningu tollanna.

Enn er margt óljóst um framhaldið enda stendur svokölluð verndarráðstafanarannsókn yfir í Brussel. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Evrópusambandsins felur slík rannsókn í sér að kanna hvort innflutningur á tiltekinni vöru ógni afkomu framleiðenda innan bandalagsins. Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu er henni heimilt að leggja tolla eða kvóta á innflutninginn. Ísland hefur notið góðs af EES-samningnum hvað útflutning til Evrópu varðar en EES-samningurinn er ekki það sama og að tilheyra tollabandalagi Evrópusambandsins.

Þegar fréttastofa hafði samband við sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi um málið sögðust þau lítið geta tjáð sig um málið.

„Hvað járnblendið varðar hefur sendinefndin ekki haft neina aðkomu að því. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið verndarráðstafanarannsókn. Þar sem rannsóknin stendur enn yfir er framkvæmdastjórninni ekki fært um að tjá sig um niðurstöður hennar,“ sagði sendinefndin í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×