Fótbolti

Freyr ó­sáttur með dómarann: „Svo slæmt að ég er orð­laus“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson var mjög pirraður út í dómarann í leikslok sem þorði ekki að reka leikmann austurríska liðsins af velli.
Freyr Alexandersson var mjög pirraður út í dómarann í leikslok sem þorði ekki að reka leikmann austurríska liðsins af velli. Getty/Iosport

Brann steinlá á heimavelli í undankeppni Meistaradeildarinnar í kvöld og eftir 4-1 tap á móti Salzburg er ólíklegt að sjá liðið komast lengra í keppninni í ár.

Freyr Alexandersson sá landa sinn Sævar Atla Magnússon koma Brann 1-0 yfir í fyrri hálfleik en Austurríkismennirnir skoruðu fjórum sinnum í seinni hálfleiknum.

Leikurinn hefði þróast allt öðruvísi ef Salzburg hefði misst mann af velli eins og Norðmennirnir vildu. Mamadou Diambou fékk ekki sitt annað gula spjald þrátt fyrir grófa tæklingu á leikmann Brann.

„Það er mjög grimmt að tapa þessum leik 4-1. Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleiknum. Við gerum svo heimskuleg mistök,“ sagði Freyr við Vedens Gang. Hann vildi sjá rauða spjaldið fara á loft.

„Ég er mjög pirraður yfir því þar sem að við vorum þarna að ná tökum á leiknum. Þetta er svo slæmt að ég er orðlaus. Þetta er grín. Þetta er óskiljanlegt en ef segi meira þá gæti ég komið mér í fyrirsagnirnar,“ sagði Freyr

„Ég er í áfalli eftir að hafa séð myndirnar af þessu. Hann var að gefa gult spjald fyrir allt og ekkert í upphafi leiks en ekki þarna,“ sagði Freyr.

„Þetta er dómaraskandall,“ sagði Vegard Leikvoll Moberg, knattspyrnusérfræðingur VG.

Pólverjinn Damian Sylwestrzak dæmdi leikinn í Bergen í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×