Erlent

Ní­tján látnir eftir að her­flug­vél brot­lenti á skóla­byggingu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slökkviliðið að störfum á vettvangi.
Slökkviliðið að störfum á vettvangi. AP

Að minnsta kosti nítján eru látnir eftir að herflugvél í eigu bangladesska hersins brotlenti á skólabyggingu í höfuðborg landsins. Talið er að yfir hundrað manns séu slasaðir. 

Í tilkynningu frá hernum segir að herþotunni hafi verið flogið af stað rétt eftir klukkan eitt eftir hádegi að staðartíma, eða klukkan sjö að morgni til á íslenskum tíma. Einhverju seinna brotlenti vélin á skólanum. Skólinn sem um ræðir er Milestone School and College sem er í norðurhluta höfuðborgarinnar Dhaka í Bangladess. Börn á aldrinum fjögurra til átján ára stunda nám við skólann.

Að minnsta kosti nítján eru látnir en á meðal þeirra er flugmaður herþotunnar. Rúmlega fimmtíu manns voru fluttir á sjúkrahús, bæði börn og fullorðnir einstaklingar, með brunasár.

„Þegar ég leit til baka sá ég bara eld og reyk, það voru margir forráðamenn og börn hérna,“ sagði Masud Tarik, kennari við skólann samkvæmt umfjöllun BBC. Annar kennari sagðist hafa séð herþotuna stefna beint á skólann.

Á ljósmyndum af vettvangi má sjá að fjöldi fólks hefur safnast saman og fylgist með aðgerðum á vettvangi. Slökkviliðsmenn leita í rústum byggingarinnar af fleiri fórnarlömbum.

„Þetta er mikil sorgarstund fyrir þjóðina. Ég óska hinum særðu skjótum bata og fyrirskipa öllum yfirvöldum, þar á meðal viðkomandi sjúkrahúsum, að takast á við aðstæðurnar af mikilli alvöru,“ segir Muhammad Yunus, leiðtogi bráðabirgðastjórnar Bangladess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×