Erlent

Fjórir látnir eftir gríðar­stóra loft­á­rás

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum í Lviv snemma í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í Lviv snemma í morgun. AP

Rússar skutu rúmlega sex hundruð flugskeytum og drónum í gríðarstórri árás í nótt á vesturhluta Úkraínu. Að minnsta kosti fjórir eru látnir og fjórtán særðir.

Rússneski herinn sendi 597 sprengjudróna auk 26 flugskeyta í átt að Úkraínu í nótt. Samkvæmt umfjöllun France24 sagðist Úkraínuherinn hafa skotið niður 219 dróna og 25 flugskeyti. Eitt flugskeyti og um tuttugu drónar hafi hitt fimm skotmörk.

Fjórir létust í borginni Chernivtsi, sem er nálægt landamærum Úkraínu og Rúmeníu. Mestur skaði varð í borgunum Lviv, Lutsk og Chernivtsi að sögn Andriy Sybiha, utanríksiráðherra Úkraínu. Í Lviv eyðilögðust 46 heimili, háskólabygging og dómhús borgarinnar.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kallar eftir aðstoð frá bandamönnum sínum í vestri. Hann bað þau um að gera meira en að senda einhver merki. Refsa ætti ríkjunum sem kaupa olíu frá Rússlandi og aðstoða við drónasmíði þeirra. 

„Hraði rússnesku loftárásanna krefst skjótra viðbragða og hægt er að stemma stigu við því með viðskiptaþvingunum,“ sagði Selenskí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×