Lífið

„Auð­vitað væri ég til í að ná enn lengra“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Jökull Júlíusson forsprakki hljómsveitarinnar Kaleo ræddi við blaðamann um lífið og listina.
Jökull Júlíusson forsprakki hljómsveitarinnar Kaleo ræddi við blaðamann um lífið og listina. Aðsend

„Það er mjög tilfinningalegt ferli að búa til plötu, opna þig upp á gátt og leyfa fólki að hlusta á lögin þín. Það er eiginlega alltaf jafn erfitt en að sama skapi algjör forréttindi, þvílíkt frelsi, gleði og upplifun að fá að gera þetta,“ segir Jökull Júlíusson aðalsöngvari hljómsveitarinnar Kaleo og einn farsælasti tónlistarmaður sem Ísland hefur alið af sér. Blaðamaður ræddi við hann um listina, lífið og væntanlega tónleika í Vaglaskógi.

Gríðarleg framleiðsla og meiriháttar batterí

„Þetta er svolítið heill hringur, að halda tónleika í Vaglaskógi. Við erum búnir að ætla að vera með tónleika hérlendis svo lengi og það er ótrúlegt að það séu heil tíu ár liðin frá því við stigum síðast á svið heima.

Við vorum með alls konar hugmyndir að tónleikum fyrir Covid sem svo gekk ekki upp því faraldurinn setti allt á hliðina. Svo erum við, eins og svo margir aðrir, að vinna hörðum höndum að því að koma okkur fjárhagslega af stað eftir faraldurinn,“ segir Jökull, en strákarnir eru stöðugt á tónleikaferðalagi og er framleiðslan ekki lítil.

Jökull er á tónleikaferðalagi 250-300 daga á ári.Aðsend

„Þetta er risa stórt batterí sem við keyrum frá Nashville. Við erum með tvær stórar rútur, fjölmennt teymi, mikið vinnuafl og það er gríðarlega kostnaðarsamt. 

Þar af leiðandi erum við að spila yfir 100 tónleika á ári sem þýðir að við erum 250, jafnvel 300 daga á tónleikaferðalagi. Sem er í það mesta sem tónlistarmenn eru að gera.“

Jökull Júlíusson er fæddur árið 1990 og er Mosfellingur í húð og hár. Hann er búsettur bæði í Nashville og Mosfellsbæ þar sem hann festi kaup á húsi ásamt ástinni sinni Telmu Fanneyju, meistaranema í klínískri sálfræði. 

Hann þarf vart að kynna fyrir lesendum enda einhver þekktasti tónlistarmaður Íslandssögunnar sem hefur túrað um allan heim, hitað upp fyrir Rolling Stones og komið fram í Glæstum vonum svo fátt sé nefnt. 

Tónlistin tók yfir fótboltasýkina

Ástríða Jökuls fyrir tónlist kviknaði snemma en hann er þekktur fyrir að fara alla leið með hlutina og hella sér algjörlega inn í það sem hann hefur áhuga á.

Það skilaði sér aldeilis en hingað til hefur Jökull sungið fyrir allt að rúmlega 100 þúsund manns á tónleikum og komið fram um allan heim með hljómsveitinni Kaleo. 

Íslendingar eru líklega flestir stoltir af sveitinni og hennar velgengni og það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með vegferð strákanna á síðastliðnum tíu árum.

„Tónlistin hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Ég byrja að læra á píanó sem barn, fer síðar í FÍH og um tólf ára aldur kenndi ég sjálfum mér að spila á gítar. 

Á unglingsárunum er ég fótboltasjúkur eins og svo margir eru á þeim tíma en það verða vatnaskil þegar ég byrja í menntaskóla. Þá byrjar tónlistin að taka yfir og ég fer að semja mikið af lögum.“

Húsband á Hressó sem túrar nú um heiminn

Jökull er aðalsöngvari og lagahöfundur sveitarinnar en ásamt honum mynda trommarinn Davíð Antonsson, bassaleikarinn Daníel Kristjánsson, gítarleikarinn Rubin Pollock og munnhörpuleikarinn Þorleifur Gaukur Davíðsson Kaleo.

„Við flestir í bandinu kynntumst í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Við erum allir fæddir árið 1990 nema Gaukur munnhörpuleikari er fæddur 91. Við komum allir frá sama bakgrunni, höfðum allir áhuga á sömu tónlist og vorum rokkaðdáendur.“

Í fyrstu spiluðu strákarnir ábreiður og komu víða fram.

„Við vorum að trúbadorast um alla Reykjavík og vorum húsband á Hressó um tíma. Svo voru nokkar lókal ölstöfur í Mosó sem við gerðum alls konar skemmtilegt með, héldum til dæmis söngvakeppnir. Við erum búnir að vera mjög duglegir að taka þátt í samfélaginu í Mosó frá byrjun.“

Músíktilraunir, Airwaves og plötusamningur

Árið 2012 ákveða strákarnir að taka þátt í Músíktilraunum og átti það eftir að breyta gangi sögunnar.

„Ég man ekki hvort við náðum að lenda í einhverju sæti en þarna urðu vatnaskil. Ég fann að mig langaði að spila mín eigin lög og koma þeim á framfæri svo við fórum í kjölfarið að taka upp mína eigin tónlist og einblína á frumsamið efni.“

Jökull ólst upp við að hlusta gríðarlega mikið á alls konar tónlist.

„Mér finnst þú alltaf fá bestu reynsluna á því að hlusta mikið á tónlistina sem þú fílar. Með því að tengja við lögin færðu svo mikinn innblástur. Báðir foreldrar mínir eru með góðan tónlistarsmekk og það var mótandi að alast upp við að hlusta á tónlist með þeim.

Svo hellti ég mér algjörlega í þetta. Ef ég hef áhuga á einhverju þá dembi ég mér í það og verð hálf manískur. Ég fæ svona lazer einbeitingu og get setið tímunum saman í því sem ég hef áhuga á.“

Strákarnir taka svo þátt í tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í nóvember 2012.

„Þá þurftum við að finna nafn á hljómsveitina og þannig varð Kaleo til. Eftir það vorum við duglegir að fara í útvarpið og vorum alltaf að leita leiða við að koma okkur á framfæri.“

Söng útgáfuna fyrst í menntaskólaútskriftinni

Kaleo kom svo fram í þætti á Rás 2 þar sem þeir fluttu nokkur lög en þá vantaði meira efni til að fylla þáttinn.

„Ég átti þessa útgáfu af laginu Vor í Vaglaskógi sem ég hafði spilað í útskriftinni minni úr framhaldsskólanum í Mosó ári áður. Við spiluðum hana og þá fór einhver bolti af stað, það voru margir deildu þessu og þetta varð hálf svona viral móment á Íslandi.“

Í spilaranum hér fyrir neðan má hjá Kaleo taka lagið Vor í Vaglaskógi hjá Bylgjunni árið 2013: 

Það má í raun segja að þarna hafi snjóbolti byrjað að rúlla af fullum krafti en eflaust muna margir Íslendingar eftir því að hafa heyrt þessa útgáfu Kaleo í fyrsta sinn og hugsað vá, hvað er þetta. Stuttu síðar fengu strákarnir plötusamning hjá Senu.

„Það var allt gert á methraða til að ná að koma út plötu fyrir jólin. Þetta var líka mögulega síðasta árið í sögu geisladiska sölunnar sem var mjög gaman að fá að taka þátt í. Við fórum í ævintýralegar heimsóknir í Kringluna og Smáralind að undirrita diska eins og gert var forðum. Það var mjög gaman að ná í skottið á þessum kúltúr. 

Eftir þetta héldum við bara ótrauðir áfram og ætluðum okkur að ná langt. Það varð fljótt rosalega mikið að gera. Ég skráði mig tvö ár í röð í háskólann en áttaði mig svo á því að það var bara ekki að fara að ganga. Við ákváðum svo allir að einblína 100 prósent á tónlistina og sjá hvert það færi með okkur.“

Hafði nánast aldrei komið til Ameríku þegar hann flutti þangað

Í kjölfarið fóru hlutirnir að gerast frekar hratt. Fólk hvaðan af úr heiminum varð spennt að gera samninga við Kaleo og þá sérstaklega frá Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum.

„Innan við ári frá því að við gáfum út plötuna heima erum við farnir að leggja drög að samningum í Bandaríkjunum. Í byrjun ársins 2015 flytjum við svo út.“

Jökull hafði nánast aldrei komið til Ameríku þegar hann skrifaði undir risa plötusamning og flutti þangað.Aðsend

Eins og gefur að skilja breyttist líf drengjanna gríðarlega við flutningana.

„Ég hafði nánast aldrei komið til Ameríku áður en við fluttum. Tónlistarlega séð fannst mér við mjög vel í stakk búnir fyrir þetta, við vorum búnir að vera að koma svo gríðarlega mikið fram og sú reynsla held ég að hafi skilað sér rosalega vel.

Senan heima er algjörlega frábær og það er mikið um geggjuð tækifæri. Við vorum líka duglegir að troða upp um allt land, Græna hattinum á Akureyri, höllinni í Vestmannaeyjum og fara á allar þessar hátíðir. Það var mjög góðir skóli fyrir ævintýrin vestanhafs.“

Upplifað margt skemmtilegir og skrýtið saman

Jökull segir að hljómsveitarmeðlimirnir séu búnir að eiga bæði góða og vonda tíma saman og fara í gegnum súrt og sætt.

„Það er náttúrulega svo gaman og verðmætt að fá að gera þetta með vinum þínum sem þú ert búinn að þekkja svo lengi. Það er góður mórall í hópnum og við höfum fengið að upplifa alls konar skemmtilega og skrýtna hluti saman.“

Hann segir erfitt að velja eitthvað afmarkað sem stendur upp úr af öllum ævintýrunum.

„Það var auðvitað ótrúlega gaman að tróna á toppnum í útvarpi í Ameríku og fá fyrstu gullplötuna. Fyrsta árið sem við byrjuðum að ferðast um allan heim að spila vorum við stöðugt að fá nýja platinum eða gullplötu. 

En svo hefur þetta breyst svo rosalega á undanförnum árum og maður er enn að átta sig á því hvað vegur mest í velgengni tónlistar.

Útvarp og sjónvarp hefur ekki sama vægið í dag. Við spiluðum fyrst í stórum sjónvarpsþætti árið 2015 hjá Connan O’Brien sem var auðvitað mjög spennandi og mikil upplifun. 

Það er ekki alveg sama dæmið í dag, áhorf er ekki það sama í sjónvarpi og hlustun á útvarpið ekki sú sama heldur. Núna eru auðvitað allar þessar streymisveitur og samfélagsmiðlar.“

Með 1,5 billjón streymi

Kaleo er með tæplega tólf milljónir mánaðarlegra hlustenda á streymisveitunni Spotify um þessar mundir og lagið þeirra Way Down We Go er með tæplega 1,5 billjón streyma.

„Það er erfitt að bera saman bækur núna og sjá hvað það er sem hefur vægi og hversu mikið. Það er kannski svona það skrýtnasta við þetta i dag. Sömuleiðis að fá móment þar sem lag slær í gegn í dag. 

Eftir mínu viti gerist það mögulega í gegnum Tiktok eða þú færð titillag í bíómynd sem verður gríðarlega stór. Það eru í raun i einu skiptin sem þú sérð að lag slær algjörlega í gegn í dag. Það er skrýtið að venjast þessu þar sem maður ólst upp við alla rómantíkina við að hlusta á útvarpið og bíða spenntur eftir einhverju í sjónvarpinu.

Það er smá erfitt að tengja við tæknina í dag, ég er ekki á TikTok og er kannski ekki sá tæknivæddasti þannig séð. En auðvitað þýðir ekkert annað en að aðlaga sig að samtímanum og hlutir breytast. Fyrir tíu árum neitaði ég oft að nota lögin mín í auglýsingar sem mér persónulega fannst ekki flottar eða passa við.

Í dag sé ég þetta öðruvísi og þá sérstaklega eftir að hafa rætt þetta mikið við teymið okkar úti. Þetta er ein af fáum leiðum til að fá fólk til þess að uppgötva tónlist og í raun bara frábær tækifæri til þess. Þú verður að aðlaga þig að breyttum aðstæðum, annars ertu bara einn inni í herbergi í fýlu.“

Hann segir þó gott að finna einhvern milliveg á þessu.

„Að sama skapi verður maður að halda í sig. Ég ætla aldrei að aðlaga lagasmíðina mína að utanaðkomandi áhrifum en þú þarft að hafa opinn hug gagnvart breyttu samfélagi. 

Svo vona ég að það verði mikilvægar breytingar í framtíðinni og listamenn fái stærri hlut af streymisveitum. Það er ekkert leyndarmál að streymisveitur og plötufyrirtæki eru búin taka langstærstan hluta af kökunni og allt of lítið rennur til tónlistarmannanna. Þess vegna erum við öll svo háð því að vera á tónleikaferðalögum.“

Mosó og Afturelding alltaf í hjarta Kaleo

Þrátt fyrir að vera stöðugt á faraldsfæti heldur Jökull fast í íslensku ræturnar.

„Ég hef alltaf haft sterkar taugar til Íslands og það er erfitt að útskýra þetta með orðum. Tilfinningin að koma heim í Mosó, sérstaklega á vorin, hlaupa með fram læknum og hlusta á fuglana, hún er engri lík. 

Það er einhver rosaleg jarðtenging sem maður nær þegar maður kemur heim og svo er að sjálfsögðu svo verðmætt að vera í kringum fjölskyldu og vini.“

Kaleo og Afturelding öflugt teymi.Aðsend

Jökull tekur að sama skapi öflugan þátt í samfélaginu í Mosó. 

„Við strákarnir höfum unnið mikil með Aftureldingu sem er auðvitað uppeldisfélagið mitt í fótbolta.

Þjálfari Aftureldingar kom með hugmynd að því að Kaleo yrði framan á fótboltabúningunum og mér fannst það geggjað. Við slóum til í þessu samstarfi og það er búið að vera svo skemmtilegt að fylgjast með stemningunni á leikjum í Mosó. Það er líka gaman að segja frá því að þeir voru í 2. deild og eru núna komnir í efstu deildina.

Þetta er búið að vera alveg ótrúlega skemmtilegt samstarf og við höfum verið duglegir að halda styrktarkvöld og gera skemmtilega hluti. Þeir hafa líka hópferðir út á tónleika þar sem 200 Mosfellingar hafa mætt á tónleika í Evrópu. 

Það er svo stórkostlegur andi yfir Mosó sem er svo verðmætt að fá að taka þátt í. Mosfellsbærinn er stór partur af mér og mun alltaf verða það.“

Fékk að prófa næstum því eðlilegt líf í faraldrinum

Jökull og Telma Fanney hafa verið par í mörg ár og elska að halda heimili í Mosfellsbæ en eru þó stóran hluta ársins í fjarsambandi.

„Hún var að klára grunnnám í sálfræði með miklum sóma með þvílíkar orður og verðlaun. Það er búið að vera rosa mikið að gera hjá henni og hún stendur sig þvílíkt vel og því hefur verið svolítið erfitt fyrir hana að koma mikið út undanfarið.“

Jökull og Telma Fanney glæsileg saman en þau hafa verið par í mörg ár. Instagram

Covid faraldurinn var auðvitað erfiður tónlistarfólki en margir sáu að sama skapi einhverja fegurð í þessum fordæmalausu tímum.

„Faraldurinn var svolítið tækifæri fyrir mig að koma heim og eiga svona það sem kemst næst því að vera eðlilegt líf í einhvern tíma. Sem var líka mjög krefjandi því þú þarft að skipta um gír og setja allt á bið. 

Við vorum nokkrum vikum frá því að fara á tónleikaferðalag um allan heim þegar þetta skellur á og vorum að fara að gefa út plötu. Það var líka svo skrýtið að við vorum alltaf í biðstöðu og enginn vissi neitt. Ég var lengi vel tilbúinn að fara af stað eftir tvær vikur sem svo auðvitað gerðist ekki.

En ég held þetta hafi gert okkur strákunum rosalega gott. Við vorum allir mestmegnis heima í gegnum faraldurinn og við náðum sem hljómsveit að fara aftur inn í bílskúr, núllstilla okkur, tengja upp á nýtt og bara spila til þess að spila, sem er svo mikilvægt fyrir hljómsveit. Back to basics, fara aftur í grunninn og spila upp á gleðina.“

Eftirspurnin meiri en þeir héldu

Kaleo geta ekki beðið eftir að taka á móti mjög svo spenntum tónleikagestum í Vaglaskógi 26. júlí en það seldist upp gríðarlega hratt.

„Við erum svo spenntir og eftirspurnin er kannski meiri en við héldum. Við erum með alls konar hugmyndir af öðru skemmtilegu á komandi tímum.

Við erum búnir að ætla að gera þetta lengi og okkur langaði að gera eitthvað öðruvísi. Mér fannst svo rómantískt að tengja þetta við lagið sem kom okkur svolítið á kortið. 

Ég veit líka að það er ekki búið að halda tónleika í Vaglaskógi í áratugi þannig þetta verður magnað. Það er eitthvað við það að fá að spila í íslensku skóglendi og fjölskyldur mæta saman. Ég er svo spenntur að búa til þennan fallega viðburð.“

Alltaf elskað tísku og glingur

Samhliða tónlistinni spilar tíska að sama skapi veigamikið hlutverk í framkomu Jökuls.

„Ég hef mikið verið að koma fram í peysum frá mömmu og ömmu hennar Telmu sem ég elska að klæðast,“ segir Jökull en ásamt því að vinna með stærstu tískuhúsum í heimi hefur hann rokkað íslenska hönnun frá tískumerkjum á borð við Sif Benedicta.

„Ég elska tísku, þetta er önnur frábær leið til að tjá sig. Frá því ég var ungur hef ég haft mikinn áhuga á klæðaburði og glingri. Ég elska skart og hef alltaf gert og hef gert tvær skartgripalínur hingað til. 

Svo hef ég verið svo heppinn að vinna með helstu og stærstu tískuhúsum og hönnuðum í heimi sem eru auðvitað algjör forréttindi. Ég er með mjög góðan stílista sem ég hef unnið lengi með. Hattarnir eru líka auðvitað mikið áhugamál og mér finnst svo gaman að kafa í tísku- og menningarsögu þeirra staða sem við heimsækjum. 

Maður er svo heppinn að ferðast heimsálfa á milli og ég elska að kynnast þessum hlutum, það er svo mikill innblástur að grúska og fræðast um tískuna og hefðbundna lókal stíla í ólíkum löndum.“

Jökull flottur í silkiskyrtu frá íslenska hönnuðinum Sif Benedicta.Aðsend

Jökull er stöðugt að þróast í tónlistinni og vill aldrei staðna.

„Mér finnst svolítið aðalatriðið sem tónlistarmaður að vera ekki að gera sama hlutinn alltaf. Ég fæ innblástur úr alls kyns tónlistartegundum og mögulega langar mig að gera reggae lag á næstu plötu, ég er aðeins búinn að setja smá diskó inn undanfarið líka.

Það er erfitt að loka listamann inni í afmörkuðu boxi og það er bara ekki fyrir mig.“

Alltaf verið gríðarlega þrjóskur

Þetta hefur fylgt honum frá byrjun ferilsins.

„Þegar ég skrifaði undir plötusamninginn var algjört lykilatriði að ég hefði algjört listrænt frelsi eða creative control. Ég barðist nógu mikið fyrir því og það gekk í gegn. 

Það er svo stór hluti af því að skapa að geta farið í alls konar áttir, ég held það séu mjög fáir góðir listamenn sem vilja endurtaka sig.“

Jökull hefur sjaldan átt erfitt með að standa með sér og fylgja innsæinu.

„Ég er gríðarlega þrjóskur og hef alltaf verið. Ég hef rosa mikið gert það sem ég vil, svo ertu bara með mér í liði eða ekki.

Ég tek auðvitað mark á áliti annarra ef mér finnst viðkomandi þess virði. Ég held það hjálpi að hafa opinn hug og læsa sig ekki alveg af. En ég held það mikilvægasta sé klárlega að finna vel fyrir innsæinu eða þessu gut feeling. 

Ef þú hlustar ekki á það ertu aldrei sáttur við ákvörðunina. Það er alls ekki alltaf aðgengilegt að vita nákvæmlega hvað maður vill en þú veist alltaf hvað þú vilt ekki þannig það er góð leið til að byrja.“

Ástfanginn af upptökunni

Þegar þú hlustar á lag sem þú fellur fyrir er erfitt að gera sér í hugarlund hversu langur tími er að baki þessara þriggja mínútna.

„Þessi sköpun er gríðarlegt ferli. Þú eyðir miklum tíma í að semja lag og svo getur það tekið mjög langan tíma að taka það upp þannig að þú sért ánægður með það. Upptakan er að mínu mati mikilvægasta formið.

Í grunninn varð ég ástfanginn af tónlist í gegnum hugtakið upptöku. Hvernig þú getur fangað alla þessa sál á réttu upptökuna. Það er svo margt sem þarf að vinna með þér og þú ert alltaf að reyna að ná að grípa þessa réttu töfra á upptökuna þannig þú náir að tjá alla sálina í laginu og flutningnum yfir á upptökuna. 

Þetta er mjög krefjandi listform sem ég er enn að læra inn á og hvert einasta lag er ólíkt hinu. Það er ástæða þess að ég hef mér alltaf mjög góðan tíma í að klára mínar plötur.“

Mjög tilfinningalegt ferli

Aðspurður hvort það sé berskjaldandi að gefa út tónlist segir Jökull:

„Algjörlega. Það er mjög tilfinningalegt ferli að búa til plötu, opna þig upp á gátt og leyfa fólki að hlusta á lögin þín. Það er eiginlega alltaf jafn erfitt en að sama skapi algjör forréttindi, þvílíkt frelsi, gleði og upplifun líka að fá að gera þetta!“

Jökull segir mjög berskjaldandi ferli að gefa út plötu. Aðsend

Jökull stefnir alltaf ótrauður áfram og leyfir sér alltaf að huga stórt.

Ég er ekkert rosalega duglegur að staldra við og líta yfir farinn veg. Auðvitað þegar maður gerir það þá er rosalega magnað að sjá hvar maður var fyrir tíu árum. Það er ómögulegt að sjá fyrir hvernig lífið fer, þetta er búið að vera rosalega mikil vinna og maður hefur svo ótrúlega mikinn metnað sem hefur örugglega haft jákvæð áhrif á vegferðina.

Metnaðurinn minnkar ekkert, hann eykst bara. Þannig ég held það sé gott að finna jafnvægi, að halda ótrauður áfram en ná líka að njóta.“

Mjög verðmætt að syngja á íslensku

Strákarnir eru búnir að vera á mikilli og ævintýralegri vertíð síðastliðin tíu ár. Þeir eru núna með tvö lög á íslensku, Vor í Vaglaskógi og Sofðu unga ástin mín, sem þeir taka á tónleikum.

„Mér þykir svo vænt um það að geta spilað þessi íslensku lög fyrir tugþúsunda erlendra tónleikagesta. Við erum búnir að spila Vor í Vaglaskógi í áratug núna og það er alltaf svakalega sérstakt augnablik á tónleikunum okkar. 

Þetta hefur alltaf verið eina lagið sem er ekki á ensku og það eru auðvitað fáir áhorfendur sem tala íslensku þótt Íslendingar séu duglegir að koma á tónleika hjá okkur.

Þetta er rótgróið DNA í okkar prógrammi og okkar vegferð hingað til. Það er alltaf eitthvað alveg einstakt sem á sér stað, annað hvort er grafarþögn og kveikjarar á lofti eða einhverjir reyna að syngja mis vel með,“ segir Jökull kíminn. 

Spiluðu fyrir 116 þúsund manns

Stærsta gigg Kaleo hingað til var á tónleikaferðalagi þeirra þegar þeir hituðu upp fyrir einhverja stærstu rokksveit sögunnar Rolling Stones.

„Þar vorum við í fjöllunum í Austurríki og þarna voru 116 þúsund manns. Besta orðið til að lýsa því er eiginlega bara að þetta er auðvitað algjört kikk, að vera á sviði fyrir framan svo marga. 

Fyrstu árin okkar úti vorum við kannski örlítið óþægilegri en núna er maður orðinn þaulvanur. Sérstaklega þegar fólk er komið að sjá þig og syngja lögin þín. Það er stærsta kikkið, mesta örvunin og hlýtur að vera eitthvað besta eiturlyf sem er til.

Tónleikar eru auðvitað stórkostlegt form, eitt fallegasta óspillta listformið sem er ekki hægt að reyna að breyta. Mér fannst það koma sterkt fram í faraldrinum þegar það átti að fara að streyma tónleikum, ég ákvað að gera það ekki því mér finnst það bara alls ekki það sama og mér þykir mjög vænt um þetta format.

Það er líka svo gaman hvað þetta getur verið gríðarlega ólíkt, til dæmis að spila á litlum klúbbum eða á tónlistarhátíðum þar sem fullt af fólki er kannski ekki komið til að sjá þig og einhverjir eru jafnvel að heyra lögin þín í fyrsta skipti. Þetta er frábær leið til að ögra sér og fara langt út fyrir þægindarammann.“

Tónleikar eru eitt af uppáhalds listformum Jökuls.Aðsend

„Það allra fallegasta“

Að lokum spyr blaðamaður Jökul hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér?

„Ég ætla að halda áfram að gera tónlist og vera trúr sjálfum mér. Auðvitað væri ég vil í að ná lengra og ná til fleira fólks. Vonandi semur maður meiri tónlist sem fólk kann að meta og maður getur haldið áfram að tengja við fólk í gegnum tónlistina sína. 

Ég verð fyrst og fremst að búa til tónlistina út frá mér og fyrir sjálfan mig áður en ég get sýnt öðrum það. Ef fólk tengir svo við lögin þá er það bara það allra fallegasta,“ segir hann yfirvegaður og brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.