Neytendur

Oft slegist um innstungurnar á tjaldsvæðunum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Íris Angela segir fólk geta ferðast í miklum lúxus en það geti líka sleppt því.
Íris Angela segir fólk geta ferðast í miklum lúxus en það geti líka sleppt því. Samsett

Íris Angela Jóhannesdóttir, innkaupa- og markaðsstjóri Víkurverks, segir sölu góða á hvers kyns hjólhýsum, húsbílum og tjaldvögnum í sumar. Margir velti því þó fyrir sér hvernig eigi að tengja við rafmagns því oft sé mikið að gera á tjaldsvæðunum og slegist um innstungur.

„Hver ferðamáti hefur sinn sjarma,“ segir Íris Angela sem var til viðtals um hjólhýsi og húsbíla í Reykjavík síðdegis í dag. Hún segir Víkurverk með margar tegundir á sölu. Það sé mikið úrval og þau mörg í raun eins og „sumarbústaðir á hjólum“ og auðvelt að forðast rigninguna með þessum ferðamáta.

Hún segir misjafnt eftir tegund hvernig sé að geyma yfir veturinn. Einhverjir geti geymt heima en víða um land sé að finna vetrargeymslur fyrir hjólhýsi og húsbíla. Hún segir fólk geta, ef það hefur kost á, geymt hýsin og bílanna heima en það verði að búa þau fyrir veturinn með til dæmis rakagildrum eða yfirbreiðslum.

Íris Angela segir sumarið hafa hafist seint í ár. Páskarnir hafi verið seint á árinu og svo hafi verið Tenerife maí. Þá hafi verið rosalegt stuð hjá þeim og mikil sala.

Hún telur að salan sé á pari við það sem hún var í fyrra þegar um 600 nýir og notaðir vagnar voru seldir yfir sumarið.

Hún segir misjafnt hvað fólk velur en undanfarið hafi þeim fjölgað sem til dæmis eiga nokkur börn og eru á leið á fótboltamót um land allt. Víða sé erfitt að fá gistingu og þá sé mikill kostur að geta keypt notaðan tjaldvagn eða hjólhýsi.

„Það er algjör sjarmi í því að geta verið í tjaldvagni eða hjólhýsi.“

Kjúklingurinn í airfryer og Netflix á flatskjánum

Íris Angela segir fólk sannarlega geta í nýjustu bílunum og hýsunum geta ferðast með mikil þægindi, til dæmis sjónvörp og airfryera, en það megi þó ekki gleyma því að þessum ferðalögum fylgi mikil og góð tækifæri til samveru.

„Ég get að sjálfsögðu farið með 32 tommu flatskjá, ég get tengt mig við Netflix, ég get skellt kjúklingi í airfryerinn og látið dropana renna í Nespresso-vélinni minni. Það er ekkert mál. En svo viljum við líka minna á að stoppa og staldra við. Þú ert að fara í frí. Þú vilt njóta Íslands og öllu sem það hefur upp á að bjóða og þá er að ferðast um í ferðavagni með öllu þessu frelsi auðvitað dásamlegt.“

Sum hjólhýsin eru afar vel búin. Eins og sumarbústaðir á hjólum. Facebook

Íris segir breytingar í vændum hvað varðar rafmagn fyrir hjólhýsin og bílana. Það sé mikið að gera á mörgum tjaldsvæðum og við það bætist erlendir ferðamenn sem margir ferðast um á minni sendibílum sem búið er að breyta þannig að hægt sé að gista í þeim.

„Það er rosalega mikið slegist um innstungurnar þannig við finnum að fólk er rosalega mikið komið til okkar til að spyrja hvernig þau geti farið án þess að vera bundin rafmagni. Þú getur það algjörlega sama hvort þú ert í húsbíl, hjólhýsi eða tjaldvagni eða hvað sem er.“

Misjafnt hversu mikið bílarnir draga

Þannig sé hægt að kaupa gashitara sem hitar fortjald og sólarsellu og inverter þannig hægt sé að stinga í samband. Hún segir sólarsellurnar virka vel en það fari eftir vögnunum og búnaðinum og hvað fólk sé að gera í vögnunum sínum.

Hversu þungan bíl þarf til að draga vagnana og hýsin segir Íris að það fari eftir hýsinu og bílnum. Sporthýsin séu til dæmis um 1.300 kíló og það sé auðvelt fyrir rafmagns- og tvinnbíla að draga þau, sem og tjaldvagnanna.

Hún segir að flestir eigi að geta fundið upplýsingar um það í skráningarskírteini bílsins hversu þungan farm hann má draga og fólk þurfi að vera meðvitað um það þegar það fer að skoða kaup. Sölumenn hýsa leiðbeini þeim miðað við það.

Hún segir verðið allt frá tveimur milljónum að tólf milljónir fyrir vagna.

„Þetta er fjárfesting. En það eru mismunandi týpur og þú velur eftir þínum þörfum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×