Innlent

Sérsveit hand­tók vopnaðan mann

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út í nótt.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í nótt tilkynnt um mann sem ógnaði öðrum manni vopnaður hníf í heimahúsi í Reykjavík. Maðurinn var handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra og vistaður í fangaklefa.

Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar frá klukkan fimm í gær til klukkan fimm í morgun. Í Reykjavík var einnig tilkynnt um mann sem hafði gengið í skrokk á öðrum og brotið rúður nokkurra bíla. Viðkomandi var einnig vistaður í fangaklefa. 

Þá segir að lögregla hafi sinnt nokkrum útköllum tengdum hávaða, ölvun og slagsmálum í miðborginni enda mikið um að vera í gærkvöldi, bæði skipulagðir viðburðir og útskriftarfögnuðir.

Í Hafnarfirði handtók lögregla mann sem hafði misst stjórn á rafhlaupahjóli og valdið skemmdum á tveimur ökutækjum og reynst undir áhrifum áfengis. Maðurinn var með áverka á andliti og hendi og því fluttur á slysadeild. 

Tilkynnt var um einstakling í annarlegu ástandi á stigagangi í Kópavogi að banka á dyr. Þegar lögregla kom á vettvang tók aðilinn á móti lögreglu með múrstein í hendi. Maðurinn reyndi að flýja lögreglu en án árangurs og var vistaður í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×