Skoðun

Leikjanám­skeið fyrir full­orðna við Austur­völl

Þórður Snær Júlíusson skrifar

Árið 2000 kom út viðtalsbók sem hét „Í hlutverki leiðtogans“. Á meðal þeirra sem voru þar til viðtals var Davíð Oddsson, sem nú hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins í næstum 16 ár en var um tíma formaður Sjálfstæðisflokks og forsætisráðherra.

Í viðtalinu lagði Davíð fram leikjafræði sem hann hafði þróað snemma á níunda áratug síðustu aldar þegar hann sat í skamman tíma sem oddviti í minnihluta í borgarstjórn. Hún var eftirfarandi: „Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Gervigreind án rökhugsunar

Í gær eyddi stjórnarandstaðan fjórum klukkustundum og níu mínútum í að tala um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Taíland. Samning sem liðkar fyrir vöru- og þjónustukaupum milli samningsaðila. Samning sem enginn á Alþingi er á móti. Samning sem fulltrúar allra flokka í utanríkismálanefnd skrifuðu saman undir nefndarálit vegna. Í því áliti sagði: „Nefndin tekur undir það mat að með samningnum sé lagður grunnur að bættri samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, fjárfesta og einstaklinga í Taílandi. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.“ Þegar málið kom til atkvæðagreiðslu í dag var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, þingmanna úr öllum flokkum.

Þrátt fyrir fullkomna þverpólitíska sátt um framgang málsins talaði stjórnarandstaðan í rúmlega fjórar klukkustundir um málið, sem er það langmesta sem nokkru sinni hefur verið rætt um fríverslunarsamning í sölum Alþingis. Ræður þingmanna andstöðunnar snerust um að þeir styddu frumvarp ríkisstjórnarinnar, en spurðu svo hvort annað hvort það væri ekki örugglega rétt skilið að þau styddu frumvarpið. Þær báru margar þess merki að þingmenn hefðu notið aðstoðar gervigreindar við samningu þeirra og sönnuðu um leið að rökhugsun hefur, að minnsta kosti ekki enn, þróað með sér rökhugsun.

Stoppa það sem allir eru sammála um

Vegna þessa tókst ekki að klára umræður um mál sem voru á dagskrá eins og aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum 2025-2029, frumvarp um sorgarleyfi sem tryggir aukin réttindi foreldra þegar þeir missa börn, frumvarp um einföldun málsmeðferðar vegna framsals sakamanna og frumvarp um að auka heimildir lögreglu til að fá farþegaupplýsingar til að hjálpa henni í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi eins og mansal og fíkniefnaviðskipti. Mál sem þverpólitísk sátt er um og skipta samfélaginu miklu að komist til framkvæmda.

Útgáfur af þessum stjórnmálum sjást í þingsal Alþingis nánast daglega, þar sem tilgangurinn er bara að skemma fyrir framförum, vegna þess að það eru aðrir flokkar en þeir sem nú sitja í stjórnarandstöðu standa fyrir þeim. Sá leikþáttur sem flestir muna best eftir á þessu þingi snerist um áfasta plasttappa í febrúar og stóð í fjóra klukkutíma og 36 mínútur.

Pólitísku pabbavandamálin

Þessi pólitík kemur auðvitað ekki á óvart enda öll stjórnarandstaðan að einhverju leyti afsprengi stjórnmála Davíðs-tímans. Stjórnmála sem biðu skipbrot með bankahruni og efnahagslegum glundroða fyrir næstum 17 árum síðan. Það var viðbúið að þessi þrotaða leikjafræði yrði ofan á þegar helmingaskiptaflokkarnir, og skilnaðarbarnið þeirra, myndu lenda saman í ríflegum minnihluta eftir að hafa verið hafnað með afgerandi hætti í kosningum.

Svona höguðu þeir sér kjörtímabilið 2009 til 2013, þegar alls kyns met í innihaldslausum tafarleikjum voru sett. Svona hefur Sjálfstæðisflokkurinn hagað sér í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur meira og minna frá árinu 1994 með þeim afleiðingum að hann hefur vart komist að í stjórn höfuðborgarinnar og þótt með öllu óstjórntækur.

Undirliggjandi er, nú sem fyrr, að þessi hópur hagar sér eins og börn með hegðunarvanda. Þau halda sig vera með einkaleyfi á því að stjórna og þegar þau gera það ekki þá liggja þau öskrandi í forinni í frekjukasti illa þjökuð af pólitískum pabbavandamálum. Þeim er auðvitað vorkunn, þau kunna ekkert annað.

Opinberun á erindisleysi

Það má auðvitað alveg segja það upphátt að helsta ástæða tafarleikjanna er sú að stjórnarandstaðan vill koma í veg fyrir framfarir. Henni svíður að komin sé til valda verkstjórn sem ætlar sér að taka á vandamálunum sem síðasta verklausa stjórn skildi eftir sig og koma á réttlátara samfélagi. Það er vor í Íslandssögunni eftir allt of langt slyddutímabil.

Ég hef sagt það áður, og segi það aftur, verði þeim að því. Það eina sem þessir leikir opinbera er erindisleysi flokkanna sem nú mynda stjórnarandstöðu. Og það má hafa gaman af tilgerðarlegu móðgunargirninni þegar þau eru ítrekað opinberuð fyrir það sem þau eru.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru rólegir yfir þessum fyrirsjáanlega barnaskap. Þeir reiknuðu með honum, þótt það megi auðvitað alltaf vona að fólki batni. Þeirra markmið er áfram sem áður skýrt, að vinna af yfirvegun, skynsemi og duglegheitum Íslandi gagn.

Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×