„Og ég varð snargeðveikur“ Jakob Bjarnar skrifar 11. maí 2025 07:02 Sveinn Rúnar Hauksson er ákaflega vinsæll heimilislæknir en hann lætur nú af störfum og hefur sögu að segja. vísir/anton brink Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir hefur nú hætt störfum enda að verða 78 ára gamall. Sveinn Rúnar hefur notið mikilla vinsælda, hann er með skemmtilegri mönnum og hefur verið heimilislæknir fræga fólksins. Sveinn beitir við lækningar sínar aðferð sem sjaldan bregst; hann er ávallt veikari en sjúklingurinn sem braggast allur í samanburði. Eða svo sagði Dr. Gestur Guðmundsson í ræðu þegar Sveinn varð fimmtugur. Dró upp búnt af Jónösum „Aðal söfnunardagurinn er 1. maí. Það safnast líka mikið hér á stofunni.“ Ætlarðu að fara að pína mig til að borga? „Neinei. Þú ert nefnilega ekki svoleiðis,“ segir Sveinn Rúnar þegar hann tekur á móti blaðamanni Vísis og ljósmyndara. Hann er að pota í skjöl á stofu sinni og segir að líklega verði þetta safn. „Það kom hérna einn maður um daginn.“ Sveinn Rúnar er enn að tala um söfnun fyrir frjálsa Palestínu. „Ég vissi að það var mikið í fötunni. Hann kom í hjólastól og var líka með hækjur. Hann bakkaði hér að, hann þurfti að sjá á stafatöfluna. Þegar ég var að útbúa vottorðið fyrir hann til að hann fengi ökuskírteini, spyr hann mig hvort ég sé enn með þessa Palestínusöfnun? Sveinn Rúnar segir að maður nokkur hafi komið á hans fund og afhent sér búnt af Jónösum, milljón krónur samtals.vísir/anton brink Þetta er alvörugefinn karl, Bjarni Hannesson frá Undirfelli Húnavatnssýslu, og svo dregur hann fram búnt af Jónösum, tíu þúsund króna seðlavöndull. Jújú, segi ég, við erum að safna fyrir gervifótum fyrir Gaza. Þá segir hann: Þá vil ég að þú takir þetta. Og það kom í ljós að þetta voru hundrað seðlar, ein milljón samtals.“ Sveinn Rúnar segir að það þurfi að gera grein fyrir peningunum sem safnast mánaðarlega, það þurfi að fara í gegnum skriffinnsku vegna hryðjuverka og peningaþvættis. Dagur var dauður þremur mánuðum síðar Meðan ljósmyndarinn stillir honum upp eftir kúnstarinnar reglum segir Sveinn Rúnar af því þegar Dagur Sigurðarson heitinn og Kári Schram kvikmyndagerðarmaður mættu til hans. „Ég er í rauninni ekki heimilislæknir. Ég er kvikmyndaleikari. Ég er bara atvinnulaus og hef verið að dunda þetta í atvinnubótaskyni. En þetta var eina hlutverkið sem ég fékk,“ segir Sveinn Rúnar og hlær. Kári var að gera mynd um Dag sem kom í læknaviðtal til Sveins Rúnars. Læknirinn vildi fá hann á bekkinn. Ein mynda sem hangir á vegg skrifstofu Sveins Rúnars er mynd sem Dagur Sigurðarson gaf honum.vísir/anton brink „Ég teygði úr bekknum og dugði ekki til. Hann var langur. Svo finn ég þessa ógurlegu lifur á honum. Ég fer að ræða þetta við hann, um lifrina, það líti ekki vel út með hana. Og nú sé ekkert annað að gera en hætta að drekka. Hann hlustaði kurteislega á mig og gaf mér þessa mynd,“ segir Sveinn Rúnar og bendir á mynd sem er á vegg stofunnar. „Voðalega skemmtileg mynd. Hann fór beint frá lækninum og á barinn. Hann var dáinn þremur mánuðum seinna.“ Ætlaði sér alla tíð að verða læknir Sveinn Rúnar segir að nú séu þetta að vera fjörutíu ár síðan hann kom inn í Domus Medica til starfa og það sé söknuður, sorg sem því fylgi að vera að hætta. „Tannlæknirinn minn, sem ég var hjá í morgun, sagði að maður mætti vera þakklátur fyrir að vera að hætta í starfi sem maður saknar.“ Áður en hann settist á skrifstofu sína 1. október 1985 í Domus Medica hafði Sveinn Rúnar verið í þrjú ár spítala- og heilsugæslulæknir á Húsavík. Og þrjú ár þar áður á spítölum í Reykjavík. „Þetta eru komin 46 ár hér á landi, eftir að ég kom heim frá Danmörku.“ Var þetta eitthvað sem þú hafðir alltaf stefnt að? Að verða læknir? „Þetta er góð spurning. Ég var sennilega ekki nema fimm ára gamall þegar ég fékk þá dellu í kollinn að ég ætlaði að verða læknir þegar ég yrði stór. Sveinn Rúnar segist hafa ákveðið fimm ára gamall að hann vildi verða læknir og einhvern veginn gekk það eftir.vísir/anton brink Einhvern veginn breyttist það bara ekki neitt. Það kom svo í ljós að áhugi minn var ekkert endilega á læknisfræði heldur miklu frekar á félagsmálum, ég hefði sennilega átt að fara í félagsráðgjöf. Ég giftist nú félagsráðgjafa á endanum.“ Þarna er Sveinn Rúnar að tala um eiginkonu sína Björk Vilhelmsdóttur. „Haustið 1985 var heilmikið að baki í einkalífinu. Ég bjó einn og var að leita mér að vinnu. Ég átti marga góða kunningja og margir þóttust endilega vilja fá mig á sinn vinnustað en einhvern veginn gekk það ekki eftir. Ég var eiginlega til neyddur að opna stofu sjálfur. Og það gat maður á þeim tíma. Það voru margir að opna stofu á þessum tíma. Við vorum ekki færri en 10-12 sem vorum að byrja á þessum tíma.“ Hverfur inn í stúdentapólitíkina Sveinn Rúnar telur að þá hafi verið í Reykjavík um 35 heimilislæknar sjálfstætt starfandi þannig að þetta var talsverð innspýting. „Heilsugæslukerfið var lítið farið að byggjast upp. Ég átti svo eftir að komast að því að það átti ekkert betra við mig en að vera einmitt heimilislæknir. Ég hafði í sjálfu sér aldrei neinn faglegan metnað í læknisfræði, ég hefði ekki viljað vera á spítala í einhverri sérgrein, skrifa einhverjar rannsóknargreinar og reyna að príla upp metorðastigann. Þarna gat ég, í starfinu sem heimilislæknir, snúið mér beint að fólki og það var það sem ég hafði áhuga á.“ Læknirinn gerir stutt hlé á ræðu sinni og hugsar sig um. „Fyrir réttum fimmtíu árum lauk Víetnamstríðinu. Það var 30. apríl. Og mér finnst það á vissan hátt vera góður lokadagur fyrir mig líka. Það eru fimmtíu ár liðin síðan því stríði lauk og ég var ekki síður upptekinn af því stríði en Palestínu núna.“ Sveinn Rúnar hefur komið víða við í félagsmálum og þá var hann formaður Víetnamnefndarinnar, en ekki hvað? „Ég vakti þessa nótt og hlustaði á Kanann en þar gat ég fengið beinar fréttir af ósigri þeirra í Saigon. Þegar síðustu hermennirnir flúðu sem fætur toguðu, upp í þyrlu út á haf. Og sigur var unninn í Suður-Víetnam fyrir þjóðfrelsishreyfinguna. Með stuðningi félaganna í norðri. Þetta voru stórir viðburðir fyrir mig, sem snertu mig mjög persónulega. Víetnamstríðið hafði mikil áhrif á Svein Rúnar, líkt og átökin á Gaza nú.vísir/anton brink Og mér fannst ég núna verða að skoða minn gang. Þá voru liðin átta ár eða frá haustinu ´67 sem að ég þá nýstúdent hóf nám við læknisfræði. Ég var þá þegar á kafi í allskyns félagsmálum: Það voru Tenglar, þá var stúdentapólitíkin að koma til sögunnar, Víetnammálið ekki síst, Grikklandshreyfingin og svo framvegis og svo framvegis.“ Svona menn þurfum við í læknisfræðina! Sveinn Rúnar segist hafa verið upptekinn af öllu þessu, á þessum málum hafði hann áhuga en síður á læknisfræðinni. „Ég kunni efnafræðina svo mér gekk vel í því, hana hafði ég lært í Bandaríkjunum, í High School, í Seattle. Svo ég fór létt með fyrsta prófið í læknisfræðinni. En síðan ekki söguna meir. Ég var hangandi í þessari læknisfræði til 1975. Það voru liðin átta ár og ég var eiginlega ekki búinn með neitt. Kannski hægt að telja saman sem tvö ár sem ég var búinn að klára. Á öllum þessum tíma.“ Þegar þarna er komið sögu hafði Sveinn Rúnar heyrt af Árósum í Danmörku, fagkrítískum fronti, stúdentafylkingu sem réði ferðinni í stúdentapólitíkinni. „Þetta var marxísk hreyfing og hún gagnrýndi fagið og fögin. Þetta leist mér á, að væri eitthvað sem gæti haldið mér við námið og ég pantaði tíma hjá námsráðgjafa. Ég átti leið um Danmörku fyrir Stúdentaráð eða Æskulýðssambandið, ég man ekki hvort, og skaust til Árósa á fund með honum. Og lagði spilin á borðið. Sveinn Rúnar var ekki með hugann við námið þegar hann hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Annað glapti.vísir/anton brink Hérna væri ég sem hefði byrjað í læknisfræði 1967, og hefði ekkert gert að viti. Ég hefði verið að gera eitthvað allt annað og taldi það upp fyrir honum. Ég átti allt eins von á því að hann myndi hrista höfuðið og segja að ég ætti að finna mér eitthvað annað að gera. Nei, hann bara tókst allur á loft yfir þessari sögu og sagði: Það er einmitt svona menn sem við þurfum í læknisfræði!“ Fór aldrei í formlegt sérnám Þessi maður greiddi götu Sveins og lagði til við kennslunefndina að hann fengi undanþágu. Og í Árósum hóf okkar maður nám haustið 1975. „Ég lauk námi á tilsettum tíma, á fjórum árum og var á kafi í félagsmálum allan tímann. En það truflaði ekki á sama hátt. Það er allt öðru vísi þegar maður er í útlöndum og getur ekki selt sér það að maður beri einn ábyrgð á öllu og allskyns þráhyggjurugl. Og þetta var læknanámssagan í stuttu máli.“ Þegar þarna er komið sögu á Sveinn Rúnar konu og tvær dætur. Og þau halda nú heim á leið. „Mín beið vinna hjá öldrunarlækningardeild hjá Þór Halldórssyni yfirlækni. Ég hafði unnið við hjúkrun hjá honum með náminu, ellihjúkrun á Sólvangi og hafði lofað honum því að ég myndi koma til hans aftur. Og ég var fyrstu tvö árin hjá honum. Svo fór ég á aðrar deildir áður en ég fór til Húsavíkur, ég var á hjartadeildinni, þvagfæradeildinni og háls-, nef- og eyrnadeild. Ég var á Reykjalundi og víðar og þetta var minn undirbúningur. Nokkur þeirra áhalda sem Sveinn Rúnar hefur þurft að grípa til við störf sín.vísir/anton brink Ég fór aldrei í formlegt sérnám sem heimilislæknir. Mig langaði heldur ekki út aftur, menn urðu eiginlega að fara utan til að fara í sérfræðinám. Ég var búinn að vera úti í fjögur ár og langaði meira að vera heima með fjölskyldunni.“ Sveinn Rúnar kom heim 1979 og hafði þá starfað á taugaskurðdeild úti í Danmörku og aðeins hjá nunnunum í Vejle við fæðingarhjálp. Í Svíþjóð á geðsjúkrahúsi í Lundi og sem héraðslæknir í Karlshamn. „Þetta var sumarvinna sem ég hafði fengið sem læknastúdent. En starf beið mín svo hér í Domus Medica 1. október 1985. Fanatískur bindindismaður að upplagi Sveinn Rúnar segist hafa eignast góða konu og fjölskyldu á námsárunum hér. „Ég var á Gamla Garði en við fórum að búa 1972 og áttum von á fyrsta barninu ´73. Við eignuðumst svo dóttur úti í Danmörku. Hún varð ófrísk af drengnum þar og hann fæddist svo hér um vorið 1980. Hér var að byrja mjög erfiður tími fyrir fjölskylduna vegna minna veikinda.“ Sveinn Rúnar kveður nú stofu sína í Domus Medica. Hann vitnar í tannlækni sinn sem segir gott að hætta í starfi sem maður sakni. Hlustunarpípuna setur Sveinn ekki um háls sér nema hann sé að nota hana. Nú fer hún uppá vegg. Og þarna má sjá stafatöfluna sem maðurinn þurfti að rýna í til að fá ökuskírteini.vísir/anton brink Og þar er Sveinn Rúnar ekki að ýkja. „Það má víst ekki segja geðveiki lengur heldur verður maður að tala um áskoranir. Geðrænar áskoranir. Hjá mér var hreint og beint samband milli þessa og kannabisneyslu. Þegar ég byrjaði í Háskólanum tvítugur ´67 hafði ég aldrei smakkað áfengi. Ég var það sem kallast fanatískur bindindismaður. Ég var ekki í Góðtemplarareglunni en amma var þar og mamma hafi komið þar við. Við höfðum heilmikil tengsl við regluna. Þetta mótaði mig mjög. Það var mikill áfengisvandi í fjölskyldunni á báða bóga og ég var harður á því að ég ætlaði að vera í bindindisliðinu. Ég ætlaði ekki að vera í drykkjumannaliðinu.“ Þetta var svona tvískipt? „Já, fyrir mér voru þetta hreinar línur og þannig má segja að ég hafi verið fanatískur. Ég læt það fara í taugarnar á mér bæði áfengisauglýsingar í sjónvarpinu og líka þykir sjálfsagt að vera með áfengi í veislum þar sem líka eru börn. Mér finnst ekki ástæða til að umgangast áfengi eins og hverja aðra neysluvöru, eins og kleinur og vínarbrauð.“ Verður snargeðveikur af kannabisreykingum En Sveinn Rúnar segist hafa fallið fyrir áróðri sem nú endurómar um þjóðfélagið og varðar hugvíkkandi efni. „Ég verð ákaflega fanatískur á móti því ég er brennt barn. En kynntist þessum hugvíkkandi efnum ´68, fyrir sextíu árum að verða. Eða, ég kann ekki þennan hugarreikning lengur. Það var geðlæknir og sálfræðingur sem kynnti þetta fyrir mér sem eitthvað alveg stórkostlegt. Fyrst og fremst var þetta hass. Ég snerti hitt aðeins líka, LSD, en það var örsjaldan.“ Reynsla Sveins var einkum og sér í lagi af kannabis, sérstaklega eftir að hann var kominn til Þýskalands 1970, þar sem aðgangur var opinn og nóg að hafa. „Verandi í dagneyslu þá af sterku kannabisefni eins og Svörtum Afgan sem var mikið í tísku þá var nokkuð sem minn heili þoldi ekki. Og ég varð snargeðveikur af því. Fyrirgefðu að ég nota orðið en ég meina geðveikur. Ekki eins og þegar krakkar segja að eitthvað sé alveg geðveikt.“ Alvarlegar ranghugmyndir gera vart við sig Sveinn Rúnar er að tala um alvarlegar ranghugmyndir og rugl og hann endaði á geðdeild í Þýskalandi en komst heim við illan leik. Hvernig lýstu þessar ranghugmyndir sér? Sveinn Rúnar segir af því þegar hann var gripinn alvarlegum ranghugmyndum eftir að hafa dvalið í nektarkommúnu í Berlín.vísir/anton brink „Þú ert algjörlega miðja heimsins. Og alltaf í tengslum. Ég hafði ratað inn í þorp niður í Tübingen. Ég var ekki lengur í Berlín, og var þar inni á fjölskyldu. Átti kærustu þarna og var að rangla um. Rata inn í gamla bæinn, inn á torg þar, og inn í hús og inn í herbergi og þar bíður mín einmitt ritvélin sem mig vantaði svo ég gæti skrifað greinar í Spiegel. Um reynslu mína. Þarna var líka útvarpstæki sem virkaði í báðar áttir. Og ef það var sjónvarpsskjár vissi ég alveg að ég var í upptöku og sást annars staðar og gat þannig verið í sambandi.“ Og þetta er rétt að byrja. „Allt í umhverfinu hafði merkingu. Ég hafði lært það í Berlín í nektar- og hasskommúnu, af amerískum prófessor í merkingarfræði – Sementics. Tiner vildi hann láta kalla sig og hann kenndi mér að lesa úr táknum í umhverfinu. Blöðin les maður á allt annan hátt og ekki síst Bild, sem var æsingarblaðið eða DV þess tíma, mjög andkommúnískt og rak harðan áróður gegn stúdentum og mótmælum þeirra. Og tengdi svo alltaf við eina nektarmynd í blaðinu. Ef þú last bara fyrirsagnirnar og tengdir þær gastu séð boðskapinn sem blaðið var að færa fjöldanum. Og þá tengdust saman morð og kommúnismi og nauðganir og svoleiðis. Blaðinu var beinlínis kennt um skotárás á stúdentaleiðtoga sem var skotinn. Þannig voru þeir tímar, 1970, þegar ég kem þar út.“ Komst heim frá Þýskalandi við illan leik Sveinn Rúnar var sem sagt alvarlega þjakaður af ranghugmyndum þegar þetta var. „Ég komst heim með hjálp konu sem kom til að sækja mig, skildist mér á mömmu og ég var fljótlega kominn inn á Klepp. Ég var kunnugur öllu á Kleppi því þar hafði ég staðið fyrir sjálfboðaliðsstarfi í ein fimm ár eða frá febrúar ´66 sem kallað var Tenglar. Allskyns félagsstarf til að rjúfa félagslega einangrun og líka að umgengni við sjúklinga á Kleppi væri eins og við fólk.“ Sveinn Rúnar er alveg sannfærður um að kannabisreykingar hafi orsakað skammhlaup í heila sínum.vísir/anton brink En hvort kemur á undan, hænan eða eggið? Varstu geðveikur vegna kannabis eða varstu það fyrir? „Ég var náttúrlega, eins og mamma, áreiðanlega alltaf frekar ör. En ég er sannfærður um það, og það er ekkert hægt að efast um að sambandið milli þess að ég var kominn í stórneyslu og að verða svona alvarlega geðveikur. Það var beint samband enda er það þekkt nú til dags.“ Nú er talað um tvígreiningu? „Já, þetta er einmitt tvígreining, fíknsjúkdómur og geðsjúkdómur. Ég er dæmigerður slíkur. Þú ert helvíti góður í þessu.“ Jaaaá, ég hérna, … er áhugamaður um geðlækningar (segir blaðamaður rogginn við lækninn sem glottir á móti.) Vildi kenna veru sinni í nektarkommúnunni um veikindin „En ég lendi í því þarna að um leið og ég er laus undan efninu, en þetta er eins og hver önnur afvötnun að vera þarna á Kleppi í fjórar vikur, að ég verð algjörlega læknaður og allt rugl úr kollinum. Það var sérstakt að koma þarna inn sem sjúklingur. Menn vildu ekkert taka mér á lokuðu deildinni. Talið var að þetta væri bara nýtt skref hjá Tenglum, nú láta þeir sér ekki nægja að koma í heimsókn, þeir flytja bara inn! Ég þekkti náttúrlega mjög marga.“ En Sveinn Rúnar var ekki læknaður eins og hann taldi þá vera. „Ég vildi náttúrlega ekki kenna hassinu um, ekki frekar en alkóhólisti áfenginu. Það er alltaf allt einhverjum öðrum að kenna. Hjá mér var það kúlktúrsjokkið að lenda þarna í nektarkommúnu í Berlín og allt þetta. Það var mín ástæða og þess vegna hélt ég áfram minni neyslu en miklu tempraðra auk þess sem það var erfiðara að ná í efnið. Og ég var búinn að læra inn á það.“ Sveinn Rúnar segist hafa kynnst hassinu löngu áður en hann stofnaði fjölskyldu. Og þetta var löngu áður en til þess kom eða 1971. Þegar hann kom heim 1979 var hann orðinn hundleiður á því. „Ég gat ekki hugsað mér að starfa sem læknir og vera með pípuna bak við horn. Ég fór í bindindi, snerti hvorki tóbak né áfengi. Ég gerðist bindindismaður og hóf störf á öldrunarlækningardeildinni hjá honum Þór. Þetta eru afdrifarík ár sem taka við, 1980 til 1985. Þetta eru veikindaárin fyrir utan þetta sem gerðist í Berlín.“ Fékk sér í pípu og flaug af stað til móts við maníuna Sveinn Rúnar segist þá hafa upplifað þunglyndi, kvíða og svefntruflanir. „Ég var ekkert að lækna sjálfan mig með pillum eða leita til annarra heldur harka þetta af mér. Ég var vinsæll í vinnunni og einnig fjölskyldunni, því ég var nú orðinn svo hægur og talaði svo lítið. Gat hlustað á aðra,“ segir Sveinn og kímir. Sveinn Rúnar var nauðungavistaður og beittur ofbeldi, ofbeldi í geðlækningum sem hann hefur barist gegn síðan.vísir/anton brink „Þetta gekk fram á vor þá fór ég til Danmerkur. Og hitti þar mann og sagði við hann: Nú blandar þú í pípu fyrir mig. Ég vissi að ég þurfti ekki annað til að læknast af þessu þunglyndi og kvíða. Og það stóð heima. Ég varð umsvifalaust glaður og reifur og flaug af stað í fyrstu maníuna.“ Það sem við tók var ekki eitthvað „geðveikirugl“ heldur hrein og tær manía. „Eins og maður væri á spítti. Ég hef reyndar aldrei snert þessi hvítu efni en eftir lýsingum að dæma var það svo. Fyrir mér er manían þannig að hún er ekki geðrofssjúkdómur. Hún þurfi ekki að vera það. Hún er skilgreind sem slík en það var ekki beint mín reynsla. Maður varð bara ofboðslega hraður og miklu gáfaðari en allir í kringum mann. Allir voru svo hægir og lengi að hugsa.“ Nauðungarvistaður og mátti sæta ofbeldi En nú fer Sveinn Rúnar að huga að því að leita sér hjálpar. „Ég endaði inni á geðdeild, á nýju deildinni á Landspítalanum. Ég var rekinn þaðan fyrir óþekkt. Og þá leitaði ég til Klepps en þeir neituðu að taka við mér nema ég væri sviptur. Og það fór svo að ég var lagður þar inn. Móðir mín var neydd til að skrifa upp á nauðungarpappíra, það var meira en nauðugungarvistun, þetta var sjálfræðissvipting í þá daga. Hjá mér var það skúffusvipting. Ég var látinn halda að ég væri sviptur en pappírarnir voru geymdir hjá dómaranum.“ Og þannig voru árin 1980 til 1985. Vorin reyndust Sveini Rúnari erfið, þá fór hann oftast í maníu. „Það verða úr þessu nauðungarinnlagnir og ofbeldi sem ég varð fyrir bæði 1980 og 1981. Þá fór ég til Víetnam og kom til baka. Áður en ég fór hafði ég verið á geðdeildinni sviptur og nauðungarvistaður. Þegar ég kom til baka frá Víetnam, ´81 og ´82 missti ég af maníunni. Ég hafði fengið stífa meðferð. Og ekki mikils að sakna. Og þá fluttumst við til Húsavíkur, ég, mín kona og þrjú börn fædd 1973, 1978 og 1980. En þessi fimm ár einkennast af þessum erfiðleikum sem eru hjá mér.“ Skilnaður í loftinu Sveinn Rúnar segist hafa kynnst mörgu yndislegu fólki á deildunum, fólki sem honum mun alltaf þykja vænt um. „Auk þess sem ég hef alltaf verið að berjast gegn þessu ofbeldi í geðlækningunum. Ég var lengi varaformaður Geðhjálpar á sama tíma og ég var formaður Palestínufélagsins. Og er nýhættur þar. Það sem gerist er að þetta tekur enda með síðustu maníunni 1985. Og þá kemur til skilnaðar. Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir og fyrrum formaður félagsins Ísland-Palestína. Hann er að láta af störfum sem heimilislæknir 78 ára gamall. Ég var á fylleríi, það var ekki hægt að halda mér nema í tvær vikur þá samkvæmt reglunum. Og þá þvældist um landið og deleraði. Og kom meðal annars við heima á Húsavík og upp úr því varð skilnaður.“ Langt er um liðið og Sveinn Rúnar getur séð þetta núna í skondnu ljósi. „Ég fór einu sinni inn á deildina eftir það. Þá kom ég við á Löggustöðinni og sagði við þá: Strákar! Eruð þið ekki til í að skutla mér uppá deild? Þeir stukku á fætur fleiri en einn eins og þeir væru að bíða eftir mér. Það var ekkert sjálfsagðara. Þá fór ég sjálfviljugur og óskaði eftir innlögn en það var samt skráð sem nauðungarinnlögn. Og yngsti bróðir minn þurfti að skrifa uppá það.“ Sýslumaðurinn á geðdeild en Sveinn Rúnar gengur laus En þetta var algjört niðurbrot fyrir Svein. Hann bjó þá hjá móður sinni og stjúpa og gerði fátt annað en fara í göngutúra. „Ég átti ekkert, ég var skilinn, ég hafði enga vinnu.“ Sveinn Rúnar rifjar upp fræga sögu af sér þegar hann var fluttur suður í sjúkraflugi og sýslumaður var með í för. Sveinn Rúnar hafði þá um nóttina látið eins og vitleysingur í klefanum og vildi ekkert þiggja. Þegar þeir eru að lenda segist Sveinn Rúnar vera orðinn glorhungraður, hvort þeir ættu ekki að koma við á Loftleiðum og fá sér snarl. Sýslumaður var til í það. „Ég rauk beint í Svörtu Maríu og segi í þessum tóni: (Sveinn breytir röddu sinni.) Strákar! Við ætlum aðeins að fá okkur snarl. Ekki í læi? Jújú, ekkert mál. Ég sá ekki hvað gerðist á bak við mig. Sýslumaður ætlaði að ganga beint inn í bygginguna en þeir grípa hann. Þeir ætluðu ekki að láta þrjótinn sleppa. Þess vegna kom þessi kvittur upp í Húsavík: Það er nú ljóta ástandið í henni Reykjavík. Lögreglan ruglaðist á Sveini Rúnari og sýslumanni. Sýslumaður er á geðdeild og Sveinn Rúnar gengur laus! Ég man enn eftir svínasteikinni sem við borðuðum. Með öllu.“ Konan fær endanlega nóg af Sveini Þessi innlögn snemma árs 1985 reyndist sú síðasta. „Ég hafði komið norður með þjósti og fannst konan ekki taka nógu vel á móti mér. Þú vilt kannski bara skilja? Jaaaaá, sagði konan undirleit og mjög hikandi. Eigum við þá bara ekki að koma til Séra Björns? Juuuúúú, sagði konan. Og við keyrðum þangað og hann lét hana hafa miða. Ég sá strax eftir þessu og bað hana um að týna þessum miða fyrir alla muni. En ég þurfti auðvitað að hringja í hana með bölvuðum frekjulátum. Þá fékk hún nóg og fór með miðann til sýslumanns daginn eftir.“ Sveinn Rúnar segir eftirsjá af eiginkonu og fjölskyldu sinni. Og hann lenti í því hlutverki, eins og svo margur annar, að hitta börnin um helgar. „Ef þau nenntu að hitta mig. En þarna tók við nýtt líf hjá mér eftir að ég kom síðast út af geðdeildinni sumarið ´85. Ég fór að leita mér að vinnu. En það bar engan árangur, það kom margt til greina, helst rannsóknarvinna á sýkladeild eða röntgendeild. Ég vildi helst vera í einhverri þægilegri vaktalaustri vinnu. En þá kom þessi hugmynd upp að það væri opið að opna stofu sem heimilislæknir. Ég hafði svo sem sex ára reynslu af spítala- og heilsugæslu sem væri sambærilegt við sérfræðinám þó það sé það út af fyrir sig ekki. En það hefur þurft að duga mér.“ Ráðinn óvænt til meðferðarstarfs Og þá hófst ferill Sveins Rúnars sem heimilislæknir. Hann hafði ekki starfað sem slíkur nema í eitt ár þegar stór tíðindi verða í hans lífi. „Þá var voðalega lítið að gera í vinnunni. Eins og ég sagði þér vorum við einir 12 sem byrjuðum saman. Sigurbjörn Sveinsson var síðastur, Grímur Sæmundsen var að byrja um þetta leyti… Já, við vorum stór hópur. Og þegar fólk var að skrá sig í samlag skiptist það á ansi marga. Þannig að ég var ekki kominn með nema þrjú hundruð á skrá þarna um haustið. Og það taldist ekki mikið. Þú hefðir þurft átján hundruð til að það teldist vera fullt.“ Sveinn Rúnar ber saman bækur sínar við móttökuritarann í Domus Medica. Hún heitir Helena Lind Svansdóttir, dásamleg og vill hvern manns vanda leysa, að sögn Sveins.vísir/anton brinki Sveinn Rúnar fékk þó grunnlaun greidd en það var rólegt að gera. „Svo er það einn miðvikudag, 15. desember, þá hringir síminn. Ég er heima því það er miðvikudagur.“ Þetta var Grétar Haraldsson innheimtulögfræðingur sem vill fá Svein á fund. Hann tengdist þá þessu leynifélagi, sem var svo sem ekkert leynifélag, sem hét þá Vonin. Sem tengdist mikilli vakningu í meðferðarmálum. „Hann var að hringja fyrir Blóma-Binna sjálfan. Hann var að hjálpa þeim á Voninni. Og þar með fyrir Björgólf (heitinn Guðmundsson) og Þórarinn Tyrfingsson sem stóðu að þessu fyrirtæki í óskaplega fallegu húsi sem ég átti heldur betur eftir að kynnast. Bárugötu 11 held ég að það hafi verið en það var Vélstjórafélagið sem hafði byggt húsið. Og þarna var meðferðarheimili fyrir útlendinga eða Norðurlandabúa: Grænlendinga, Færeyinga, Norðmenn og Svía og fáa Dani. Ég veit aðeins eina skynsamlega ástæðu fyrir því að ég var ráðinn þarna sem var sú að ég talaði dönsku og hafði læknispróf.“ Dagdrykkjumaður og yfirlæknir Ólafur Ólafsson verðandi landlæknir var að vinna þarna og það hafði þá orðið uppgjör hjá fyrirtækinu: Þrír aðilar höfuð verið reknir á einu bretti því talið var að þeir ætluðu að sölsa undir sig fyrirtækið. „Eða þannig var mér sagt frá þessu. Og nú vantaði með látum lækni. Ég sagðist ekkert vera að leita mér að vinnu. En hann biður mig um að koma og ræða við þá. Ég var að fara í vinnuna, ég var heima því ég hafði lagt mig og átti að vera mættur í símatímann klukkan hálffjögur. Og taka við tveimur þremur eftir fjögur. En maðurinn gefur sig ekki. Starfið hjá Voninni hafði mikil áhrif á Svein Rúnar.vísir/anton brink Ég lofa að mæta þarna til að tala við Binna. Og ég fann það strax um leið og ég kom í húsið, ég hitti strax lið þarna, fór afsíðis inn á skrifstofu til Binna. Ég sagðist myndi hugsa málið eftir viðtal við hann.“ Sveinn Rúnar segist hafa sett þrjú skilyrði sem þeir gengu að og svo byrjaði hann að vinna þarna. „Á þessum tíma er ég ekki bindindismaður. Síður en svo. Ég sem aldrei hafði verið brennivínsmaður var nú farinn að drekka á hverju kvöldi. Og jafnvel upplifa blackout og svona. Ég bjó einn og þetta var mjög skrítið, að þessi stöð, og þessi Binni vildi ráða í vinnu gamlan Kleppara, hassista og dagdrykkjumann. Þetta lá allt á borðinu en hann vildi samt ráða mig. Ég hafði sótt um vinnu hjá SÁÁ ári áður en Þórarni Tyrfingssyni leist ekki á mig og ég skil hann alveg, frænda minn. Ég fór að læra meira um alkóhólisma innan frá. Maður lærði ekkert um þetta í læknisfræðinni.“ Sveinn Rúnar verður loksins edrú Sveinn Rúnar segist þá smám saman hafa öðlast skilning á fíknisjúkdómnum. „Ég fór að mæta á morgunfundi með sjúklingum. Og svo kom að síðasta fylleríinu 5. febrúar 1987. Það endaði einhvers staðar úti í bæ. Ég vissi ekkert hvar ég var staddur þegar ég vaknaði eða hjá hverjum né hvernig ég hafði komist þangað. Þetta var hið ömurlegasta mál og ég var að drífa mig til vinnu á Voninni.“ Martin Götuskeggi meðferðarstjóri tók Svein Rúnar í viðtal og plataði hann í bindindi. Ef hann héldist edrú í þrjá mánuði væri þetta ekkert vandamál en ef ekki myndi hann koma honum í Hazelden sem var Mekka meðferðarinnar. Hundruðir höfðu farið til Freeport en útvaldir fóru til Minnesota. „Minnesotameðferðin. En ég hef aldrei komið þangað. Það var aldrei staðið við það loforð af hálfu Marteins Götuskeggja. Ef mér tækist að vera edrú í þrjá mánuði, þá myndi mér bjóðast námsferð sem læknir til Minnesota. Ef ég gæti það ekki væri eitthvað að. Ég tók ekki bara þriggja mánaða bindindi, ég hef verið edrú síðan. Það eru komin meira en 38 ár.“ Sveinn Rúnar segist fara þrisvar í viku á fundi auk geðhvarfafundar sem er vikulega. „Ég verð þessum mönnum ævinlega þakklátur. Óskaplega þakklátur. Sem bæði vísuðu mér á þetta og tóku mig í vinnu sem verður til að ég kynnist þessu prógrammi. Þetta breytti minni æfi. Síðan ég fór í þetta starf og hef ég ekki snert á neinum hugvíkkandi efnum og enginn hefur séð ástæðu til að loka mig inni. Ég hef gengið laus og verið frjáls. Það munar mikið um það. Ég er ekki að segja að ég sé algerlega óbrjálaður en það er enginn að fara fram á það.“ Skaut djúpum rótum fyrir norðan Sveinn Rúnar segist ekki hafa lengi verið við störf hjá Voninnni. Átökin sem urðu til þess að hann var ráðinn leystust tveimur árum síðar og sú saga verður ekki sögð hér. Sveinn Rúnar, sem hafði haldið starfi sínu sem heimilislæknir meðfram, einbeitti sér nú að því. Þú verður fljótt vinsæll heimilislæknir? „Já, það er mjög furðulegt í raun og veru. Mér var kappsmál að verða ekki vinsæll héraðslæknir. Þá yrði enginn friður. En ég skaut hins vegar mjög djúpum rótum fyrir norðan og á þar mikið af góðum vinum. Ekki bara á Húsavík heldur ekki síður í sveitunum. Kópaskeri og Mývatni þangað sem við fórum reglulegar ferðir. Nákvæmlega svona þekkja margir sjúklingar Svein Rúnar Hauksson.vísir/anton brink Þetta fólk hefur komið reglulega hingað eftir að það flutti suður. Ég var ekki eins upptekinn af því þegar ég byrjaði hér en það er skrítið að ég skyldi, eins og þú segir, verða þetta vinsæll. En það eru þín orð.“ Og blaðamaður, sem hefur lengi verið einn af skjólstæðingum Sveins Rúnars, stendur fastar en fótunum á því að svo sé í pottinn búið. Alltaf aðeins veikari en sjúklingarnir Sveinn Rúnar rifjar nú upp mikil hátíðarhöld sem efnt var til þegar hann varð fimmtugur. Ekki dugði minna en Borgarleikhúsið undir hátíðina, mikil menningardagskrá var keyrð þar sem trúbadorar stigu á stokk auk klassískra tónlistarmanna. Og aðeins ein ræða var leyfð en hana flutti Dr. Gestur Guðmundsson. „Og hann notaði tækifærið til að hæðast að mér. Það verður bara að segjast eins og er. Hann meinti það ekkert illa en hann lýsti því hvernig það væri að koma á stofu til mín. Og vera með ýmislegt sem plagaði mann. En það væri yfirleitt þannig að sjúklingarnir kæmu ekki upp nema tveimur orðum, þá greip læknirinn inn í og segði: Já, einmitt! Ég hef einmitt átt við þetta að stríða. Og það er alveg sama hvort meinið væri andlegt eða líkamlegt, læknirinn kannaðist persónulega svo vel við það. Og hafði í raun verið miklu þjáðari, hálfu veikari en sjúklingurinn. Hann sagði svo frá því þannig að fólk færi frá lækninum alheilt. Samanburðurinn væri svo hagstæður.“ Við hlæjum saman að þessari lýsingu Gests og þó Sveinn Rúnar telji þetta fært í stílinn þá er þetta fyndið því þarna er sannleikskorn að finna. „Ég er þakklátur fyrir að hafa verið í þessu starfi. Mér finnst það svo skemmtilegt. Mér finnst fólk svo skemmtilegt. Allavega fólk. Að hafa það að atvinnu að fá kannski til sín tíu manns daglega, hvern öðrum skemmtilegri! Jújú, það er líka gaman að takast á við vanda og reyna að leysa hann. Og takast það stundum. Þá má líka segja jákvæðu hliðina á þessu starfi og ég á kannski auðveldara en margir með að skilja og geta sett mig í spor fólks sem á við erfiðleika að stríða. Ég hef svolítið verið í því og ég hugsa að það fólk hafi sótt meira til mín en meðaljónsins. Jú, ætli megi ekki segja það?“ Sveinn Rúnar og frægur sjúklingahópurinn Og þinn skjólstæðingahópur er litskrúðugur? „Jú, það finnst mér. Hinir læknarnir segja með öfundartóni, þú ert með allt fræga fólkið? Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég á marga vini í hópi listamanna og tónlistarfólks ekki síst. Þetta er nú þannig.“ Sveinn Rúnar vill ekki gera mikið úr því að hann sé vinsæll heimilislæknir en kannast þó við að aðrir læknar öfundi hann oft af frægu fólki sem eru skjólstæðingar hans.vísir/anton brink Sjúklingar Sveins Rúnars verða oftar en ekki vinir hans. Hann segir svo frá að hann hafi bara þá í hádeginu hitt einn sinn eftirlætissjúkling á Múlakaffi og snætt með honum ýsu eins og mamma gerir hana. „Það var svo gaman að hitta vin í hádeginu og borða með. Mér finnst þegar ég er að hætta núna að ég sé að yfirgefa þrjúhundruð vini. Ég er ekki með nema sjö hundruð á skrá.“ Sveinn Rúnar útskýrir að það hafi verið að minnka á skrá hjá sér ekki síst vegna þess að nú er fólki gert að skrá sig á sjúkraskrá. Heilsugæslan taki við. Þeir eru bara þrír eftir á Domus Medica. „Ég verð 78 ára bara eftir nokkra daga. Jón Gunnar er orðinn 75. Við erum í rauninni ekki nema tveir. Sá þriðji, Lárus, er hættur. En heldur sinni stofu gangandi í launalausu leyfi. Maður veit ekki hvað þetta hangir lengi. Ekki hjálpar það að ég sé að hætta.“ Frægir menn að skyggja á „hætt“ Sveins Þetta hefur gerbreyst? „Já, við fengum þetta einhliða í hausinn frá Sjúkratryggingum að ekki yrði leyfilegt að ráða inn fyrir þá sem eru að hætta. Þetta er kallað sólarhringsákvæði og það er í raun verið að bíða eftir því að við hættum. Og það er öllum vísað í heilsugæslustöðvarnar hvort sem þær eru ríkisreknar eða einkareknar.“ Þar er ekki beinlínis gaman að koma? „Nei, það er mér sagt. En gengur nú oft ágætlega samt. Ég held að menn þurfi líka að sjá þetta, eins og ráðherra sagði nýlega á fundi sem ég var á, að hann væri ekki að lofa heimilislæknum fyrir alla heldur heimilislæknateymum. Það er kannski hjúkrunarfræðingurinn sem þú átt að tengja þig við þegar þú nærð ekki í lækninn.“ Við förum yfir það að margir kappar eru nú að láta af störfum. Og skyggja þar með á starfslok Sveins svo sem Bogi Ágústsson og Pétur prestur hjá Óháða söfnuðinum boði til lífslokamessu. „Þessir menn eru að skyggja á mig,“ gantast Sveinn Rúnar. „Kári Stefánsson ætlaði reyndar ekki að hætta en sama samt.“ Upplagt tækifæri til að rifja upp forna frægð En hvernig kynntist þú Björk? „Það var stúdentapólitíkin sem tengdi okkur saman. Árið 1968 hafði ég verið fenginn til að leiða vinstri menn í Háskólanum, svokallaðan Bræðing; kratarnir, Framsókn og Félag róttækra sem voru kommarnir.“ Það þarf greinilega talsverðan inngang að þessum sögulegu kynnum. „Ég var ekki í neinum flokki. Vaka vann kosningarnar raunar með því að bjóða fram frábæran dreng, Ólaf Guðmundsson augnlækni, sem var frjálslyndur maður og við náðum strax vel saman. Eins Bjarni Magnússon sem var krati og hann var hjá Vöku, hann hefði alveg eins getað verið á listanum hjá okkur en það var mjótt á munum. Það var það á þessum árum. Þegar Helgi Kristbjarnar fór í framboð ári á eftir mér var jafnt algjörlega og það varð að varpa hlutkesti.“ Sveinn Rúnar og Björk eru bæði á bólakafi í baráttunni fyrir frjálsri Palestínu. Það lítur ekki vel út með ástandið á Gaza nú sem stendur.vísir/anton brink Sveinn Rúnar rekur að hann hafi ásamt fleirum stofnað Verðandi sem tók nokkrum nafnabreytingum og varð að Röskvu – félagi vinstri manna. Sveinn rifjar upp að hann hafi komið að því að ýmsir leiðtogar vinstri manna urðu formenn. „Síðan kom formaður Stúdentaráðs sem var kona sem ekki var á mínum vegum og hún var Björk Vilhelmsdóttir. Hún var formaður vinstri manna. Og hér er komið 1986. Björk þessi hringir í mig og spyr hvort ég sé ekki til í að koma með innlegg, þau voru þá með fundarröð um sósíalisma. Ég segist ekkert vita um sósíalisma. En nei, hún vildi bara fá mig til að tala um hvernig þetta var þarna 1968. Svo ég fann þarna tækifæri til að velta mér upp úr fornri frægð. Og sagði, já takk. Ég skal bara koma.“ Og þá var hún þarna þessi hávaxna Þá hittust þau fyrsta sinni. Og síðar var Sveinn Rúnar að þvælast með vini sínum Páli Biering. „Í Stúdentakjallaranum og Hótel Borg. Ég var á höttunum eftir einhverri allt annarri konu. Svo verður þessi kona fyrir mér og mér fannst hún hættuleg, í alltof stuttu leðurpilsi og ég flýtti mér burtu. Ég var alltaf á þessum árum einn og reyna að vera ekki að drekka. Þarna er ég hættur en ég var að keyra á milli skemmtistaða.“ Svo fer Sveinn Rúnar á Hollywood. „Ég vissi að þarna voru vinir mínir, Bjöggi Gísla og einhverjir að spila. En það var sláandi að þegar ég kem þarna inn þá er ekkert fólk. Þrennt á gólfinu, annars enginn og ég sé að þarna er þessi hávaxna. Ég fer og heilsa uppá þau, en þetta eru þá bróðir hennar og mágkona. Ég fer að dansa við hana og býð henni svo far heim. Hjónin Björk Vilhelmsdóttir og Sveinn Rúnar Hauksson. Þau eiga tvö tónlistarbörn saman.vísir/aðsend Ég er svo óheppinn að ég á heima vestast í Vesturbænum en hún lengst uppi í Breiðholti. Ég gat ekki bakkað út úr því. En við höfðum um nóg að kjafta. Þetta var Hjaltabakki 6, það var eitthvað sexí við þetta.“ Og síðan hafa þau verið óaðskiljanleg. Hún 23 ára og Sveinn Rúnar rétt að verða fertugur, fráskilinn þriggja barna faðir. Þetta er talsverður aldursmunur? „Segir hver?“ Sveinn horfir fast í augu blaðamanns sem segir: Ekki neinn. Ekki nokkur maður. „Nei. Og ári síðan giftum við okkur og eigum saman tvö tónlistarbörn.“ Nískur á dópið Þegar Sveinn Rúnar er beðinn um að rifja upp hvað er minnisstæðast úr starfinu verður hann hugsi. Þar er af mýmörgu að taka. „Stundum hefur þetta verið erfitt. Menn hafa reiðst mér. Einu sinni reiddist hann mér vinur minn og annar kom ekki aftur. Hann var í maníu og fíkill; mikill tónlistarmaður, snillingur og frábær útvarpsmaður. Ég hélt mikið uppá hann. Reynslan hefur kennt Sveini Rúnari að óvarlegt er að skrifa út lyf eins og enginn sé morgundagurinn. vísir/anton brink Ég mun ekki nefna nafn hans. Hann kom, var enn á deildinni einhverri en hafði verið hleypt út, og hann var bara með lista af lyfjum. Sem ég átti bara að kvitta uppá. Og ég sagði honum að ég væri ekki svona sjálfsali. Hann varð alveg brjálaður út í mig. Það er ekkert við því að gera stundum. Ég get verið svolítið leiðinlegur.“ Jú, ég kannast alveg við það. „Eftir að ég fór að læra þessi fræði á Voninni um áfengi og lyf og eiga svo að flytja fyrirlestur um það og tenginguna við fíkn breytist allt. Þetta er frægt hvernig fólk sem hefur aldrei drukkið neitt áfengi en verið að nota svefnlyf og róandi, fær svo ekki lengur aðgang að þeim og fer að halla sér að flöskunni. Það verður alkóhólistar eftir mánuð. Það þarf engin ár til að þróa sjúkdóminn. Öll þessi tenging milli áfengisfíknar og lyfjafíknar gerði það að ég var og hef alltaf verið varkár í sambandi við lyfin.“ Nískur á dópið, hreinlega? „Já. En stundum hefur maður verið með fólk árum og áratugum saman og maður þekkir það, og sér að það er ekkert slíkt að gerast. Og það er merkilegt með til dæmis svefnlyf sem eiga að vera vanabindandi, að fólk getur áratugum saman tekið sama skammtinn, hálfa töflu og ekkert breytist.“ Taugaveiklun eftir endurlífgun Sveinn Rúnar nefnir af handahófi annað atvik, sem gerðist á Húsavík en hann var þá nýkominn af hjartadeildinni þar sem hann lærði að lesa í hjartalínurit. „Auðvitað var ég enginn sérfræðingur, en öðrum þótti gott að koma til mín og fá álit mitt á hjartalínuriti. Hann kemur inn til mín að sýna mér hjartalínurit. Mér líst ekki á og fer til að skoða sjúklinginn og þá er hann bara dáinn. Þá er farið í að endurlífga manninn. Allir komu í það, yfirlæknirinn á sjúkrahúsinu og við erum þrír heimilislæknar sem skiptumst á að hnoða hann og blása í hann. Eftir hálftíma segir yfirlæknirinn að þetta sé komið nóg.“ Sveinn Rúnar segir að það hafi verið einhver þrjóska í sér, hann hafði einhverja tilfinningu fyrir púlsi og vildi halda áfram. Allir labba í burtu nema einn verður eftir ásamt Sveini. „Eftir tíu til fimmtán mínútur tekur hann við sér og lifnar við. Hann náði sér furðuvel. Greinilegt að pumpið okkar hefur skilað sér. Hann hefði átt að vera skertur í heilanum eftir svona langt stopp en ef þér tekst að pumpa nógu vel og blása í hann þá er þetta hægt. Hann tók við sínu yfirmannsstarfi og stóð sig vel í tíu ár. Hann kom oft til mín. En það var taugaveiklun í honum sem var skiljanlegt eftir það sem hann hafði gengið í gegnum. En þetta er hægt.“ Hefði ég getað gert betur? Þetta starf verður varla mikið dramatískara? „Það getur verið það. Ég var að missa konu sem var búin að einangra sig. Kom til mín á stofu eftir langt árabil og leit mjög illa út. Hún var til í að fara í blóðprufu.“ Þetta var á föstudegi og hringt var í Svein frá blóðrannsókninni sem er óvanalegt. „Að það sé eitthvað meira en lítið að. Niðurstaðan bar með sér að hún væri með hvítblæði, ákveðna tegund, en niðurstaðan yrði ekki endanleg fyrr en eftir helgi. Sveinn Rúnar með einn skjólstæðing sinn sem nú er uppá heilsugæsluna kominn með alla sína margvíslegu sjúkdóma.vísir/anton brink Sérfræðingurinn sagði að það þyrfti að fá hana inn öðru hvoru megin við páskana. Og svo dó hún bara, enginn veit út af hverju. Þetta hvítblæði átti ekki að vera bráðdrepandi.“ Sveinn Rúnar segir hafa haft samband við sérfræðinga Landsspítalans. Endalausar spurningar fylgja starfinu og stöðu sem þessari. Brást hann rétt við? Í þessu tilfelli heyrði hann í aðstandanda síðar sem fullvissaði hann um að þessi tiltekna kona hefði ekki kært sig um neina meðferð. „Kannski hefði verið hægt að lengja líf viðkomandi eitthvað? Svo vilja margir ekkert vita um það hvort það sé með krabbamein eða ekki. Það eru ýmsar hliðar á þessu. En það er óskaplega gott þegar vel tekst til í vinnunni.“ Trúaður kirkjustrákur Sveinn Rúnar segir starfið fyrst og síðast ákaflega gefandi. Einkum finnst honum gefandi þegar hann nær að hjálpa ungu fólki að takast á við við kvíða eða fíknvanda. Sveinn Rúnar stendur nær dauðanum en ef hann væri í öðru starfi. Hann segir þó heimilislækna að einhverju leyti í skjóli. En er hann trúaður? „Já, ég er kirkjustrákur. Ég er einn af örfáum af minni kynslóð sem fer til messu flesta sunnudaga. Þetta hefur sveiflast mikið hjá mér. En ég get sagt það núna að ég sé trúaður. En þegar litið er til baka hefur þetta verið með köflum.“ Sveinn Rúnar segist ekki hafa verið neitt sérstaklega trúaður sem barn eða unglingur. „Það var ekki fyrr en ég kom til Bandaríkjanna sem skiptinemi á vegum Þjóðkirkjunnar. Það var mikið ævintýri. Við Kalli Sigurbjörnsson heitinn, við fórum saman til Seattle. Vorum ekki á sama stað en gátum heimsótt hvor annan.“ Forvitinn um kirkjur og trúfélög Sveinn Rúnar segist hafa verið afar forvitinn um kirkjur og trúfélög og heimsótti aragrúa slíkra staða. „Þegar upp var staðið var ég í gegnum skiptinemasamtökin í umræðu um alþjóðamálin og þar var beinlínis stillt upp róttæku prógrammi sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig og hefur enn þann dag í dag. Það var að horfast í augu við veruleikann.“ Sveinn Rúnar horfir yfir farinn veg.vísir/anton brink Og hver var þessi veruleiki sem við áttum að horfast í augu við. Sveinn nefnir bilið milli ríkra og fátækra sem stöðugt fer stækkandi. „Arðránið í heiminum. Og þetta var orð sem var nánast bannað á Íslandi, þetta var bara eitthvað ljótt kommaorð. Annað sem við töluðum um var aðskilnaðarstefnan í Suður-Ameríku og í Bandaríkjunum. Ekki í Ísrael. Og í þriðja lagi var talað um stríð og frið og það var talað um hvernig Bandaríkin höfðu verið með stríðsrekstur látlaust frá stríðslokum ´45 út um allan heim, það var ekki bara Víetnam heldur öll þessi stríð í Suður-Afríku, Suður-Ameríku og í Asíu. Meðan ég var þarna úti, Grenada!“ Nálgast helst Guðdóminn í hæstu maníum Sveinn Rúnar segist hafa komið heim og jaðrað þá við að aðhyllast frelsunarguðfræði, þessa suðuramerísku sem virkaði á hann. „Allaveganna kom ég heim með róttæka kristni. Og strax haustið 1965 stofnuðum við samtökin KAUS - samtök skiptinema. K-ið sem stóð fyrir kristileg féll út og nú þekkja allir þessi samtök sem AUS. Þau verða sextíu ára í haust. Við stóðum fyrir fyrstu poppmessunum og reyndum að hleypa lífi í æskulýðsfélögin.“ Þetta er svolítið saga Sveins Rúnars, hann hefur ætíð valist til forystu í félagsstörfum í gegnum tíðina. „Margir úr Tenglastarfinu komu að þessu starfi. Ég missti síðan alveg þráðinn. Við Kalli vorum miklir vinir og hann kom að því að stofna Verðandi. Hann hvarf inn í Guðsdýrkunina en ég inn í annan heim. Ég hugsa að það hafi verið Bakkus sem tók við hjá mér. En mér fannst alltaf þegar ég var nógu brjálaður að þá kom trúarsveifla í mig. Það fylgdi hæstu maníum, þá nálgaðist ég Guðdóminn.“ Tímamót Víetnam Átök í Ísrael og Palestínu Heilbrigðismál Mest lesið Fréttamaður í næstlélegasta flokknum en Væb stórstjörnur Lífið „Ég varð stjörf af hræðslu“ Lífið Næsta lag fjalli um hið íslenska gufubað Lífið „Og ég varð snargeðveikur“ Lífið „Ég þurfti að breyta hugsun, hegðun og tali“ Áskorun Vilja stimpla sig inn með stæl Lífið Krakkatían: Reikistjörnur, regnbogar og kengúrur Lífið Söngvakeppnin og stríðsrekstur Ísraels: „Ég er stolt af landinu mínu“ Lífið Sjáðu þrjátíu sekúndur af atriði VÆB í Eurovision Lífið Bók skilað eftir 56 ára útlán Lífið Fleiri fréttir Fréttamaður í næstlélegasta flokknum en Væb stórstjörnur Næsta lag fjalli um hið íslenska gufubað „Ég varð stjörf af hræðslu“ Krakkatían: Reikistjörnur, regnbogar og kengúrur „Og ég varð snargeðveikur“ Fjölmenni á sjötíu ára afmæli Kópavogs Bók skilað eftir 56 ára útlán Hugmyndir fyrir mæðradaginn Bakaríið í beinni útsendingu Fréttatía vikunnar: Páfakjör, poppstjarna og nýr kanslari „Þetta eru þýðingarmestu skilaboð Davids Attenborough til þessa“ Hönnunarunnendur skáluðu í Kópavogi Molly-Mae og Tommy Fury saman á ný Drengurinn Fengurinn hlaut styrk úr Minningarsjóði Svavars Péturs Leikstjórinn James Foley er látinn Frumsýning hjá Auðuni: Langaði til að gera fallegt náttúruklám Kristín Péturs orðin tveggja drengja móðir Katrín Tanja og Brooks tilkynna kynið Glæsileg íbúð handboltakempu í Sigvaldahúsi Heklaði sér fyrir útborgun í húsi í Þingholtunum Hilmir Snær og Vala eiga von á stúlku Stjörnufans í sumarselskap Söngvakeppnin og stríðsrekstur Ísraels: „Ég er stolt af landinu mínu“ Arnór Ingvi og Andrea skinu skært í sænsku konungshöllinni Sjáðu þrjátíu sekúndur af atriði VÆB í Eurovision VÆB opnar verslun í Kringlunni Reyndi við þrjár milljónir Ný heimildarmynd Attenborough sýnir eyðileggingu í höfum jarðar Stefán Einar keypti 145 milljón króna þakíbúð Logi og Hallveig keyptu hús í 101 Sjá meira
Sveinn beitir við lækningar sínar aðferð sem sjaldan bregst; hann er ávallt veikari en sjúklingurinn sem braggast allur í samanburði. Eða svo sagði Dr. Gestur Guðmundsson í ræðu þegar Sveinn varð fimmtugur. Dró upp búnt af Jónösum „Aðal söfnunardagurinn er 1. maí. Það safnast líka mikið hér á stofunni.“ Ætlarðu að fara að pína mig til að borga? „Neinei. Þú ert nefnilega ekki svoleiðis,“ segir Sveinn Rúnar þegar hann tekur á móti blaðamanni Vísis og ljósmyndara. Hann er að pota í skjöl á stofu sinni og segir að líklega verði þetta safn. „Það kom hérna einn maður um daginn.“ Sveinn Rúnar er enn að tala um söfnun fyrir frjálsa Palestínu. „Ég vissi að það var mikið í fötunni. Hann kom í hjólastól og var líka með hækjur. Hann bakkaði hér að, hann þurfti að sjá á stafatöfluna. Þegar ég var að útbúa vottorðið fyrir hann til að hann fengi ökuskírteini, spyr hann mig hvort ég sé enn með þessa Palestínusöfnun? Sveinn Rúnar segir að maður nokkur hafi komið á hans fund og afhent sér búnt af Jónösum, milljón krónur samtals.vísir/anton brink Þetta er alvörugefinn karl, Bjarni Hannesson frá Undirfelli Húnavatnssýslu, og svo dregur hann fram búnt af Jónösum, tíu þúsund króna seðlavöndull. Jújú, segi ég, við erum að safna fyrir gervifótum fyrir Gaza. Þá segir hann: Þá vil ég að þú takir þetta. Og það kom í ljós að þetta voru hundrað seðlar, ein milljón samtals.“ Sveinn Rúnar segir að það þurfi að gera grein fyrir peningunum sem safnast mánaðarlega, það þurfi að fara í gegnum skriffinnsku vegna hryðjuverka og peningaþvættis. Dagur var dauður þremur mánuðum síðar Meðan ljósmyndarinn stillir honum upp eftir kúnstarinnar reglum segir Sveinn Rúnar af því þegar Dagur Sigurðarson heitinn og Kári Schram kvikmyndagerðarmaður mættu til hans. „Ég er í rauninni ekki heimilislæknir. Ég er kvikmyndaleikari. Ég er bara atvinnulaus og hef verið að dunda þetta í atvinnubótaskyni. En þetta var eina hlutverkið sem ég fékk,“ segir Sveinn Rúnar og hlær. Kári var að gera mynd um Dag sem kom í læknaviðtal til Sveins Rúnars. Læknirinn vildi fá hann á bekkinn. Ein mynda sem hangir á vegg skrifstofu Sveins Rúnars er mynd sem Dagur Sigurðarson gaf honum.vísir/anton brink „Ég teygði úr bekknum og dugði ekki til. Hann var langur. Svo finn ég þessa ógurlegu lifur á honum. Ég fer að ræða þetta við hann, um lifrina, það líti ekki vel út með hana. Og nú sé ekkert annað að gera en hætta að drekka. Hann hlustaði kurteislega á mig og gaf mér þessa mynd,“ segir Sveinn Rúnar og bendir á mynd sem er á vegg stofunnar. „Voðalega skemmtileg mynd. Hann fór beint frá lækninum og á barinn. Hann var dáinn þremur mánuðum seinna.“ Ætlaði sér alla tíð að verða læknir Sveinn Rúnar segir að nú séu þetta að vera fjörutíu ár síðan hann kom inn í Domus Medica til starfa og það sé söknuður, sorg sem því fylgi að vera að hætta. „Tannlæknirinn minn, sem ég var hjá í morgun, sagði að maður mætti vera þakklátur fyrir að vera að hætta í starfi sem maður saknar.“ Áður en hann settist á skrifstofu sína 1. október 1985 í Domus Medica hafði Sveinn Rúnar verið í þrjú ár spítala- og heilsugæslulæknir á Húsavík. Og þrjú ár þar áður á spítölum í Reykjavík. „Þetta eru komin 46 ár hér á landi, eftir að ég kom heim frá Danmörku.“ Var þetta eitthvað sem þú hafðir alltaf stefnt að? Að verða læknir? „Þetta er góð spurning. Ég var sennilega ekki nema fimm ára gamall þegar ég fékk þá dellu í kollinn að ég ætlaði að verða læknir þegar ég yrði stór. Sveinn Rúnar segist hafa ákveðið fimm ára gamall að hann vildi verða læknir og einhvern veginn gekk það eftir.vísir/anton brink Einhvern veginn breyttist það bara ekki neitt. Það kom svo í ljós að áhugi minn var ekkert endilega á læknisfræði heldur miklu frekar á félagsmálum, ég hefði sennilega átt að fara í félagsráðgjöf. Ég giftist nú félagsráðgjafa á endanum.“ Þarna er Sveinn Rúnar að tala um eiginkonu sína Björk Vilhelmsdóttur. „Haustið 1985 var heilmikið að baki í einkalífinu. Ég bjó einn og var að leita mér að vinnu. Ég átti marga góða kunningja og margir þóttust endilega vilja fá mig á sinn vinnustað en einhvern veginn gekk það ekki eftir. Ég var eiginlega til neyddur að opna stofu sjálfur. Og það gat maður á þeim tíma. Það voru margir að opna stofu á þessum tíma. Við vorum ekki færri en 10-12 sem vorum að byrja á þessum tíma.“ Hverfur inn í stúdentapólitíkina Sveinn Rúnar telur að þá hafi verið í Reykjavík um 35 heimilislæknar sjálfstætt starfandi þannig að þetta var talsverð innspýting. „Heilsugæslukerfið var lítið farið að byggjast upp. Ég átti svo eftir að komast að því að það átti ekkert betra við mig en að vera einmitt heimilislæknir. Ég hafði í sjálfu sér aldrei neinn faglegan metnað í læknisfræði, ég hefði ekki viljað vera á spítala í einhverri sérgrein, skrifa einhverjar rannsóknargreinar og reyna að príla upp metorðastigann. Þarna gat ég, í starfinu sem heimilislæknir, snúið mér beint að fólki og það var það sem ég hafði áhuga á.“ Læknirinn gerir stutt hlé á ræðu sinni og hugsar sig um. „Fyrir réttum fimmtíu árum lauk Víetnamstríðinu. Það var 30. apríl. Og mér finnst það á vissan hátt vera góður lokadagur fyrir mig líka. Það eru fimmtíu ár liðin síðan því stríði lauk og ég var ekki síður upptekinn af því stríði en Palestínu núna.“ Sveinn Rúnar hefur komið víða við í félagsmálum og þá var hann formaður Víetnamnefndarinnar, en ekki hvað? „Ég vakti þessa nótt og hlustaði á Kanann en þar gat ég fengið beinar fréttir af ósigri þeirra í Saigon. Þegar síðustu hermennirnir flúðu sem fætur toguðu, upp í þyrlu út á haf. Og sigur var unninn í Suður-Víetnam fyrir þjóðfrelsishreyfinguna. Með stuðningi félaganna í norðri. Þetta voru stórir viðburðir fyrir mig, sem snertu mig mjög persónulega. Víetnamstríðið hafði mikil áhrif á Svein Rúnar, líkt og átökin á Gaza nú.vísir/anton brink Og mér fannst ég núna verða að skoða minn gang. Þá voru liðin átta ár eða frá haustinu ´67 sem að ég þá nýstúdent hóf nám við læknisfræði. Ég var þá þegar á kafi í allskyns félagsmálum: Það voru Tenglar, þá var stúdentapólitíkin að koma til sögunnar, Víetnammálið ekki síst, Grikklandshreyfingin og svo framvegis og svo framvegis.“ Svona menn þurfum við í læknisfræðina! Sveinn Rúnar segist hafa verið upptekinn af öllu þessu, á þessum málum hafði hann áhuga en síður á læknisfræðinni. „Ég kunni efnafræðina svo mér gekk vel í því, hana hafði ég lært í Bandaríkjunum, í High School, í Seattle. Svo ég fór létt með fyrsta prófið í læknisfræðinni. En síðan ekki söguna meir. Ég var hangandi í þessari læknisfræði til 1975. Það voru liðin átta ár og ég var eiginlega ekki búinn með neitt. Kannski hægt að telja saman sem tvö ár sem ég var búinn að klára. Á öllum þessum tíma.“ Þegar þarna er komið sögu hafði Sveinn Rúnar heyrt af Árósum í Danmörku, fagkrítískum fronti, stúdentafylkingu sem réði ferðinni í stúdentapólitíkinni. „Þetta var marxísk hreyfing og hún gagnrýndi fagið og fögin. Þetta leist mér á, að væri eitthvað sem gæti haldið mér við námið og ég pantaði tíma hjá námsráðgjafa. Ég átti leið um Danmörku fyrir Stúdentaráð eða Æskulýðssambandið, ég man ekki hvort, og skaust til Árósa á fund með honum. Og lagði spilin á borðið. Sveinn Rúnar var ekki með hugann við námið þegar hann hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Annað glapti.vísir/anton brink Hérna væri ég sem hefði byrjað í læknisfræði 1967, og hefði ekkert gert að viti. Ég hefði verið að gera eitthvað allt annað og taldi það upp fyrir honum. Ég átti allt eins von á því að hann myndi hrista höfuðið og segja að ég ætti að finna mér eitthvað annað að gera. Nei, hann bara tókst allur á loft yfir þessari sögu og sagði: Það er einmitt svona menn sem við þurfum í læknisfræði!“ Fór aldrei í formlegt sérnám Þessi maður greiddi götu Sveins og lagði til við kennslunefndina að hann fengi undanþágu. Og í Árósum hóf okkar maður nám haustið 1975. „Ég lauk námi á tilsettum tíma, á fjórum árum og var á kafi í félagsmálum allan tímann. En það truflaði ekki á sama hátt. Það er allt öðru vísi þegar maður er í útlöndum og getur ekki selt sér það að maður beri einn ábyrgð á öllu og allskyns þráhyggjurugl. Og þetta var læknanámssagan í stuttu máli.“ Þegar þarna er komið sögu á Sveinn Rúnar konu og tvær dætur. Og þau halda nú heim á leið. „Mín beið vinna hjá öldrunarlækningardeild hjá Þór Halldórssyni yfirlækni. Ég hafði unnið við hjúkrun hjá honum með náminu, ellihjúkrun á Sólvangi og hafði lofað honum því að ég myndi koma til hans aftur. Og ég var fyrstu tvö árin hjá honum. Svo fór ég á aðrar deildir áður en ég fór til Húsavíkur, ég var á hjartadeildinni, þvagfæradeildinni og háls-, nef- og eyrnadeild. Ég var á Reykjalundi og víðar og þetta var minn undirbúningur. Nokkur þeirra áhalda sem Sveinn Rúnar hefur þurft að grípa til við störf sín.vísir/anton brink Ég fór aldrei í formlegt sérnám sem heimilislæknir. Mig langaði heldur ekki út aftur, menn urðu eiginlega að fara utan til að fara í sérfræðinám. Ég var búinn að vera úti í fjögur ár og langaði meira að vera heima með fjölskyldunni.“ Sveinn Rúnar kom heim 1979 og hafði þá starfað á taugaskurðdeild úti í Danmörku og aðeins hjá nunnunum í Vejle við fæðingarhjálp. Í Svíþjóð á geðsjúkrahúsi í Lundi og sem héraðslæknir í Karlshamn. „Þetta var sumarvinna sem ég hafði fengið sem læknastúdent. En starf beið mín svo hér í Domus Medica 1. október 1985. Fanatískur bindindismaður að upplagi Sveinn Rúnar segist hafa eignast góða konu og fjölskyldu á námsárunum hér. „Ég var á Gamla Garði en við fórum að búa 1972 og áttum von á fyrsta barninu ´73. Við eignuðumst svo dóttur úti í Danmörku. Hún varð ófrísk af drengnum þar og hann fæddist svo hér um vorið 1980. Hér var að byrja mjög erfiður tími fyrir fjölskylduna vegna minna veikinda.“ Sveinn Rúnar kveður nú stofu sína í Domus Medica. Hann vitnar í tannlækni sinn sem segir gott að hætta í starfi sem maður sakni. Hlustunarpípuna setur Sveinn ekki um háls sér nema hann sé að nota hana. Nú fer hún uppá vegg. Og þarna má sjá stafatöfluna sem maðurinn þurfti að rýna í til að fá ökuskírteini.vísir/anton brink Og þar er Sveinn Rúnar ekki að ýkja. „Það má víst ekki segja geðveiki lengur heldur verður maður að tala um áskoranir. Geðrænar áskoranir. Hjá mér var hreint og beint samband milli þessa og kannabisneyslu. Þegar ég byrjaði í Háskólanum tvítugur ´67 hafði ég aldrei smakkað áfengi. Ég var það sem kallast fanatískur bindindismaður. Ég var ekki í Góðtemplarareglunni en amma var þar og mamma hafi komið þar við. Við höfðum heilmikil tengsl við regluna. Þetta mótaði mig mjög. Það var mikill áfengisvandi í fjölskyldunni á báða bóga og ég var harður á því að ég ætlaði að vera í bindindisliðinu. Ég ætlaði ekki að vera í drykkjumannaliðinu.“ Þetta var svona tvískipt? „Já, fyrir mér voru þetta hreinar línur og þannig má segja að ég hafi verið fanatískur. Ég læt það fara í taugarnar á mér bæði áfengisauglýsingar í sjónvarpinu og líka þykir sjálfsagt að vera með áfengi í veislum þar sem líka eru börn. Mér finnst ekki ástæða til að umgangast áfengi eins og hverja aðra neysluvöru, eins og kleinur og vínarbrauð.“ Verður snargeðveikur af kannabisreykingum En Sveinn Rúnar segist hafa fallið fyrir áróðri sem nú endurómar um þjóðfélagið og varðar hugvíkkandi efni. „Ég verð ákaflega fanatískur á móti því ég er brennt barn. En kynntist þessum hugvíkkandi efnum ´68, fyrir sextíu árum að verða. Eða, ég kann ekki þennan hugarreikning lengur. Það var geðlæknir og sálfræðingur sem kynnti þetta fyrir mér sem eitthvað alveg stórkostlegt. Fyrst og fremst var þetta hass. Ég snerti hitt aðeins líka, LSD, en það var örsjaldan.“ Reynsla Sveins var einkum og sér í lagi af kannabis, sérstaklega eftir að hann var kominn til Þýskalands 1970, þar sem aðgangur var opinn og nóg að hafa. „Verandi í dagneyslu þá af sterku kannabisefni eins og Svörtum Afgan sem var mikið í tísku þá var nokkuð sem minn heili þoldi ekki. Og ég varð snargeðveikur af því. Fyrirgefðu að ég nota orðið en ég meina geðveikur. Ekki eins og þegar krakkar segja að eitthvað sé alveg geðveikt.“ Alvarlegar ranghugmyndir gera vart við sig Sveinn Rúnar er að tala um alvarlegar ranghugmyndir og rugl og hann endaði á geðdeild í Þýskalandi en komst heim við illan leik. Hvernig lýstu þessar ranghugmyndir sér? Sveinn Rúnar segir af því þegar hann var gripinn alvarlegum ranghugmyndum eftir að hafa dvalið í nektarkommúnu í Berlín.vísir/anton brink „Þú ert algjörlega miðja heimsins. Og alltaf í tengslum. Ég hafði ratað inn í þorp niður í Tübingen. Ég var ekki lengur í Berlín, og var þar inni á fjölskyldu. Átti kærustu þarna og var að rangla um. Rata inn í gamla bæinn, inn á torg þar, og inn í hús og inn í herbergi og þar bíður mín einmitt ritvélin sem mig vantaði svo ég gæti skrifað greinar í Spiegel. Um reynslu mína. Þarna var líka útvarpstæki sem virkaði í báðar áttir. Og ef það var sjónvarpsskjár vissi ég alveg að ég var í upptöku og sást annars staðar og gat þannig verið í sambandi.“ Og þetta er rétt að byrja. „Allt í umhverfinu hafði merkingu. Ég hafði lært það í Berlín í nektar- og hasskommúnu, af amerískum prófessor í merkingarfræði – Sementics. Tiner vildi hann láta kalla sig og hann kenndi mér að lesa úr táknum í umhverfinu. Blöðin les maður á allt annan hátt og ekki síst Bild, sem var æsingarblaðið eða DV þess tíma, mjög andkommúnískt og rak harðan áróður gegn stúdentum og mótmælum þeirra. Og tengdi svo alltaf við eina nektarmynd í blaðinu. Ef þú last bara fyrirsagnirnar og tengdir þær gastu séð boðskapinn sem blaðið var að færa fjöldanum. Og þá tengdust saman morð og kommúnismi og nauðganir og svoleiðis. Blaðinu var beinlínis kennt um skotárás á stúdentaleiðtoga sem var skotinn. Þannig voru þeir tímar, 1970, þegar ég kem þar út.“ Komst heim frá Þýskalandi við illan leik Sveinn Rúnar var sem sagt alvarlega þjakaður af ranghugmyndum þegar þetta var. „Ég komst heim með hjálp konu sem kom til að sækja mig, skildist mér á mömmu og ég var fljótlega kominn inn á Klepp. Ég var kunnugur öllu á Kleppi því þar hafði ég staðið fyrir sjálfboðaliðsstarfi í ein fimm ár eða frá febrúar ´66 sem kallað var Tenglar. Allskyns félagsstarf til að rjúfa félagslega einangrun og líka að umgengni við sjúklinga á Kleppi væri eins og við fólk.“ Sveinn Rúnar er alveg sannfærður um að kannabisreykingar hafi orsakað skammhlaup í heila sínum.vísir/anton brink En hvort kemur á undan, hænan eða eggið? Varstu geðveikur vegna kannabis eða varstu það fyrir? „Ég var náttúrlega, eins og mamma, áreiðanlega alltaf frekar ör. En ég er sannfærður um það, og það er ekkert hægt að efast um að sambandið milli þess að ég var kominn í stórneyslu og að verða svona alvarlega geðveikur. Það var beint samband enda er það þekkt nú til dags.“ Nú er talað um tvígreiningu? „Já, þetta er einmitt tvígreining, fíknsjúkdómur og geðsjúkdómur. Ég er dæmigerður slíkur. Þú ert helvíti góður í þessu.“ Jaaaá, ég hérna, … er áhugamaður um geðlækningar (segir blaðamaður rogginn við lækninn sem glottir á móti.) Vildi kenna veru sinni í nektarkommúnunni um veikindin „En ég lendi í því þarna að um leið og ég er laus undan efninu, en þetta er eins og hver önnur afvötnun að vera þarna á Kleppi í fjórar vikur, að ég verð algjörlega læknaður og allt rugl úr kollinum. Það var sérstakt að koma þarna inn sem sjúklingur. Menn vildu ekkert taka mér á lokuðu deildinni. Talið var að þetta væri bara nýtt skref hjá Tenglum, nú láta þeir sér ekki nægja að koma í heimsókn, þeir flytja bara inn! Ég þekkti náttúrlega mjög marga.“ En Sveinn Rúnar var ekki læknaður eins og hann taldi þá vera. „Ég vildi náttúrlega ekki kenna hassinu um, ekki frekar en alkóhólisti áfenginu. Það er alltaf allt einhverjum öðrum að kenna. Hjá mér var það kúlktúrsjokkið að lenda þarna í nektarkommúnu í Berlín og allt þetta. Það var mín ástæða og þess vegna hélt ég áfram minni neyslu en miklu tempraðra auk þess sem það var erfiðara að ná í efnið. Og ég var búinn að læra inn á það.“ Sveinn Rúnar segist hafa kynnst hassinu löngu áður en hann stofnaði fjölskyldu. Og þetta var löngu áður en til þess kom eða 1971. Þegar hann kom heim 1979 var hann orðinn hundleiður á því. „Ég gat ekki hugsað mér að starfa sem læknir og vera með pípuna bak við horn. Ég fór í bindindi, snerti hvorki tóbak né áfengi. Ég gerðist bindindismaður og hóf störf á öldrunarlækningardeildinni hjá honum Þór. Þetta eru afdrifarík ár sem taka við, 1980 til 1985. Þetta eru veikindaárin fyrir utan þetta sem gerðist í Berlín.“ Fékk sér í pípu og flaug af stað til móts við maníuna Sveinn Rúnar segist þá hafa upplifað þunglyndi, kvíða og svefntruflanir. „Ég var ekkert að lækna sjálfan mig með pillum eða leita til annarra heldur harka þetta af mér. Ég var vinsæll í vinnunni og einnig fjölskyldunni, því ég var nú orðinn svo hægur og talaði svo lítið. Gat hlustað á aðra,“ segir Sveinn og kímir. Sveinn Rúnar var nauðungavistaður og beittur ofbeldi, ofbeldi í geðlækningum sem hann hefur barist gegn síðan.vísir/anton brink „Þetta gekk fram á vor þá fór ég til Danmerkur. Og hitti þar mann og sagði við hann: Nú blandar þú í pípu fyrir mig. Ég vissi að ég þurfti ekki annað til að læknast af þessu þunglyndi og kvíða. Og það stóð heima. Ég varð umsvifalaust glaður og reifur og flaug af stað í fyrstu maníuna.“ Það sem við tók var ekki eitthvað „geðveikirugl“ heldur hrein og tær manía. „Eins og maður væri á spítti. Ég hef reyndar aldrei snert þessi hvítu efni en eftir lýsingum að dæma var það svo. Fyrir mér er manían þannig að hún er ekki geðrofssjúkdómur. Hún þurfi ekki að vera það. Hún er skilgreind sem slík en það var ekki beint mín reynsla. Maður varð bara ofboðslega hraður og miklu gáfaðari en allir í kringum mann. Allir voru svo hægir og lengi að hugsa.“ Nauðungarvistaður og mátti sæta ofbeldi En nú fer Sveinn Rúnar að huga að því að leita sér hjálpar. „Ég endaði inni á geðdeild, á nýju deildinni á Landspítalanum. Ég var rekinn þaðan fyrir óþekkt. Og þá leitaði ég til Klepps en þeir neituðu að taka við mér nema ég væri sviptur. Og það fór svo að ég var lagður þar inn. Móðir mín var neydd til að skrifa upp á nauðungarpappíra, það var meira en nauðugungarvistun, þetta var sjálfræðissvipting í þá daga. Hjá mér var það skúffusvipting. Ég var látinn halda að ég væri sviptur en pappírarnir voru geymdir hjá dómaranum.“ Og þannig voru árin 1980 til 1985. Vorin reyndust Sveini Rúnari erfið, þá fór hann oftast í maníu. „Það verða úr þessu nauðungarinnlagnir og ofbeldi sem ég varð fyrir bæði 1980 og 1981. Þá fór ég til Víetnam og kom til baka. Áður en ég fór hafði ég verið á geðdeildinni sviptur og nauðungarvistaður. Þegar ég kom til baka frá Víetnam, ´81 og ´82 missti ég af maníunni. Ég hafði fengið stífa meðferð. Og ekki mikils að sakna. Og þá fluttumst við til Húsavíkur, ég, mín kona og þrjú börn fædd 1973, 1978 og 1980. En þessi fimm ár einkennast af þessum erfiðleikum sem eru hjá mér.“ Skilnaður í loftinu Sveinn Rúnar segist hafa kynnst mörgu yndislegu fólki á deildunum, fólki sem honum mun alltaf þykja vænt um. „Auk þess sem ég hef alltaf verið að berjast gegn þessu ofbeldi í geðlækningunum. Ég var lengi varaformaður Geðhjálpar á sama tíma og ég var formaður Palestínufélagsins. Og er nýhættur þar. Það sem gerist er að þetta tekur enda með síðustu maníunni 1985. Og þá kemur til skilnaðar. Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir og fyrrum formaður félagsins Ísland-Palestína. Hann er að láta af störfum sem heimilislæknir 78 ára gamall. Ég var á fylleríi, það var ekki hægt að halda mér nema í tvær vikur þá samkvæmt reglunum. Og þá þvældist um landið og deleraði. Og kom meðal annars við heima á Húsavík og upp úr því varð skilnaður.“ Langt er um liðið og Sveinn Rúnar getur séð þetta núna í skondnu ljósi. „Ég fór einu sinni inn á deildina eftir það. Þá kom ég við á Löggustöðinni og sagði við þá: Strákar! Eruð þið ekki til í að skutla mér uppá deild? Þeir stukku á fætur fleiri en einn eins og þeir væru að bíða eftir mér. Það var ekkert sjálfsagðara. Þá fór ég sjálfviljugur og óskaði eftir innlögn en það var samt skráð sem nauðungarinnlögn. Og yngsti bróðir minn þurfti að skrifa uppá það.“ Sýslumaðurinn á geðdeild en Sveinn Rúnar gengur laus En þetta var algjört niðurbrot fyrir Svein. Hann bjó þá hjá móður sinni og stjúpa og gerði fátt annað en fara í göngutúra. „Ég átti ekkert, ég var skilinn, ég hafði enga vinnu.“ Sveinn Rúnar rifjar upp fræga sögu af sér þegar hann var fluttur suður í sjúkraflugi og sýslumaður var með í för. Sveinn Rúnar hafði þá um nóttina látið eins og vitleysingur í klefanum og vildi ekkert þiggja. Þegar þeir eru að lenda segist Sveinn Rúnar vera orðinn glorhungraður, hvort þeir ættu ekki að koma við á Loftleiðum og fá sér snarl. Sýslumaður var til í það. „Ég rauk beint í Svörtu Maríu og segi í þessum tóni: (Sveinn breytir röddu sinni.) Strákar! Við ætlum aðeins að fá okkur snarl. Ekki í læi? Jújú, ekkert mál. Ég sá ekki hvað gerðist á bak við mig. Sýslumaður ætlaði að ganga beint inn í bygginguna en þeir grípa hann. Þeir ætluðu ekki að láta þrjótinn sleppa. Þess vegna kom þessi kvittur upp í Húsavík: Það er nú ljóta ástandið í henni Reykjavík. Lögreglan ruglaðist á Sveini Rúnari og sýslumanni. Sýslumaður er á geðdeild og Sveinn Rúnar gengur laus! Ég man enn eftir svínasteikinni sem við borðuðum. Með öllu.“ Konan fær endanlega nóg af Sveini Þessi innlögn snemma árs 1985 reyndist sú síðasta. „Ég hafði komið norður með þjósti og fannst konan ekki taka nógu vel á móti mér. Þú vilt kannski bara skilja? Jaaaaá, sagði konan undirleit og mjög hikandi. Eigum við þá bara ekki að koma til Séra Björns? Juuuúúú, sagði konan. Og við keyrðum þangað og hann lét hana hafa miða. Ég sá strax eftir þessu og bað hana um að týna þessum miða fyrir alla muni. En ég þurfti auðvitað að hringja í hana með bölvuðum frekjulátum. Þá fékk hún nóg og fór með miðann til sýslumanns daginn eftir.“ Sveinn Rúnar segir eftirsjá af eiginkonu og fjölskyldu sinni. Og hann lenti í því hlutverki, eins og svo margur annar, að hitta börnin um helgar. „Ef þau nenntu að hitta mig. En þarna tók við nýtt líf hjá mér eftir að ég kom síðast út af geðdeildinni sumarið ´85. Ég fór að leita mér að vinnu. En það bar engan árangur, það kom margt til greina, helst rannsóknarvinna á sýkladeild eða röntgendeild. Ég vildi helst vera í einhverri þægilegri vaktalaustri vinnu. En þá kom þessi hugmynd upp að það væri opið að opna stofu sem heimilislæknir. Ég hafði svo sem sex ára reynslu af spítala- og heilsugæslu sem væri sambærilegt við sérfræðinám þó það sé það út af fyrir sig ekki. En það hefur þurft að duga mér.“ Ráðinn óvænt til meðferðarstarfs Og þá hófst ferill Sveins Rúnars sem heimilislæknir. Hann hafði ekki starfað sem slíkur nema í eitt ár þegar stór tíðindi verða í hans lífi. „Þá var voðalega lítið að gera í vinnunni. Eins og ég sagði þér vorum við einir 12 sem byrjuðum saman. Sigurbjörn Sveinsson var síðastur, Grímur Sæmundsen var að byrja um þetta leyti… Já, við vorum stór hópur. Og þegar fólk var að skrá sig í samlag skiptist það á ansi marga. Þannig að ég var ekki kominn með nema þrjú hundruð á skrá þarna um haustið. Og það taldist ekki mikið. Þú hefðir þurft átján hundruð til að það teldist vera fullt.“ Sveinn Rúnar ber saman bækur sínar við móttökuritarann í Domus Medica. Hún heitir Helena Lind Svansdóttir, dásamleg og vill hvern manns vanda leysa, að sögn Sveins.vísir/anton brinki Sveinn Rúnar fékk þó grunnlaun greidd en það var rólegt að gera. „Svo er það einn miðvikudag, 15. desember, þá hringir síminn. Ég er heima því það er miðvikudagur.“ Þetta var Grétar Haraldsson innheimtulögfræðingur sem vill fá Svein á fund. Hann tengdist þá þessu leynifélagi, sem var svo sem ekkert leynifélag, sem hét þá Vonin. Sem tengdist mikilli vakningu í meðferðarmálum. „Hann var að hringja fyrir Blóma-Binna sjálfan. Hann var að hjálpa þeim á Voninni. Og þar með fyrir Björgólf (heitinn Guðmundsson) og Þórarinn Tyrfingsson sem stóðu að þessu fyrirtæki í óskaplega fallegu húsi sem ég átti heldur betur eftir að kynnast. Bárugötu 11 held ég að það hafi verið en það var Vélstjórafélagið sem hafði byggt húsið. Og þarna var meðferðarheimili fyrir útlendinga eða Norðurlandabúa: Grænlendinga, Færeyinga, Norðmenn og Svía og fáa Dani. Ég veit aðeins eina skynsamlega ástæðu fyrir því að ég var ráðinn þarna sem var sú að ég talaði dönsku og hafði læknispróf.“ Dagdrykkjumaður og yfirlæknir Ólafur Ólafsson verðandi landlæknir var að vinna þarna og það hafði þá orðið uppgjör hjá fyrirtækinu: Þrír aðilar höfuð verið reknir á einu bretti því talið var að þeir ætluðu að sölsa undir sig fyrirtækið. „Eða þannig var mér sagt frá þessu. Og nú vantaði með látum lækni. Ég sagðist ekkert vera að leita mér að vinnu. En hann biður mig um að koma og ræða við þá. Ég var að fara í vinnuna, ég var heima því ég hafði lagt mig og átti að vera mættur í símatímann klukkan hálffjögur. Og taka við tveimur þremur eftir fjögur. En maðurinn gefur sig ekki. Starfið hjá Voninni hafði mikil áhrif á Svein Rúnar.vísir/anton brink Ég lofa að mæta þarna til að tala við Binna. Og ég fann það strax um leið og ég kom í húsið, ég hitti strax lið þarna, fór afsíðis inn á skrifstofu til Binna. Ég sagðist myndi hugsa málið eftir viðtal við hann.“ Sveinn Rúnar segist hafa sett þrjú skilyrði sem þeir gengu að og svo byrjaði hann að vinna þarna. „Á þessum tíma er ég ekki bindindismaður. Síður en svo. Ég sem aldrei hafði verið brennivínsmaður var nú farinn að drekka á hverju kvöldi. Og jafnvel upplifa blackout og svona. Ég bjó einn og þetta var mjög skrítið, að þessi stöð, og þessi Binni vildi ráða í vinnu gamlan Kleppara, hassista og dagdrykkjumann. Þetta lá allt á borðinu en hann vildi samt ráða mig. Ég hafði sótt um vinnu hjá SÁÁ ári áður en Þórarni Tyrfingssyni leist ekki á mig og ég skil hann alveg, frænda minn. Ég fór að læra meira um alkóhólisma innan frá. Maður lærði ekkert um þetta í læknisfræðinni.“ Sveinn Rúnar verður loksins edrú Sveinn Rúnar segist þá smám saman hafa öðlast skilning á fíknisjúkdómnum. „Ég fór að mæta á morgunfundi með sjúklingum. Og svo kom að síðasta fylleríinu 5. febrúar 1987. Það endaði einhvers staðar úti í bæ. Ég vissi ekkert hvar ég var staddur þegar ég vaknaði eða hjá hverjum né hvernig ég hafði komist þangað. Þetta var hið ömurlegasta mál og ég var að drífa mig til vinnu á Voninni.“ Martin Götuskeggi meðferðarstjóri tók Svein Rúnar í viðtal og plataði hann í bindindi. Ef hann héldist edrú í þrjá mánuði væri þetta ekkert vandamál en ef ekki myndi hann koma honum í Hazelden sem var Mekka meðferðarinnar. Hundruðir höfðu farið til Freeport en útvaldir fóru til Minnesota. „Minnesotameðferðin. En ég hef aldrei komið þangað. Það var aldrei staðið við það loforð af hálfu Marteins Götuskeggja. Ef mér tækist að vera edrú í þrjá mánuði, þá myndi mér bjóðast námsferð sem læknir til Minnesota. Ef ég gæti það ekki væri eitthvað að. Ég tók ekki bara þriggja mánaða bindindi, ég hef verið edrú síðan. Það eru komin meira en 38 ár.“ Sveinn Rúnar segist fara þrisvar í viku á fundi auk geðhvarfafundar sem er vikulega. „Ég verð þessum mönnum ævinlega þakklátur. Óskaplega þakklátur. Sem bæði vísuðu mér á þetta og tóku mig í vinnu sem verður til að ég kynnist þessu prógrammi. Þetta breytti minni æfi. Síðan ég fór í þetta starf og hef ég ekki snert á neinum hugvíkkandi efnum og enginn hefur séð ástæðu til að loka mig inni. Ég hef gengið laus og verið frjáls. Það munar mikið um það. Ég er ekki að segja að ég sé algerlega óbrjálaður en það er enginn að fara fram á það.“ Skaut djúpum rótum fyrir norðan Sveinn Rúnar segist ekki hafa lengi verið við störf hjá Voninnni. Átökin sem urðu til þess að hann var ráðinn leystust tveimur árum síðar og sú saga verður ekki sögð hér. Sveinn Rúnar, sem hafði haldið starfi sínu sem heimilislæknir meðfram, einbeitti sér nú að því. Þú verður fljótt vinsæll heimilislæknir? „Já, það er mjög furðulegt í raun og veru. Mér var kappsmál að verða ekki vinsæll héraðslæknir. Þá yrði enginn friður. En ég skaut hins vegar mjög djúpum rótum fyrir norðan og á þar mikið af góðum vinum. Ekki bara á Húsavík heldur ekki síður í sveitunum. Kópaskeri og Mývatni þangað sem við fórum reglulegar ferðir. Nákvæmlega svona þekkja margir sjúklingar Svein Rúnar Hauksson.vísir/anton brink Þetta fólk hefur komið reglulega hingað eftir að það flutti suður. Ég var ekki eins upptekinn af því þegar ég byrjaði hér en það er skrítið að ég skyldi, eins og þú segir, verða þetta vinsæll. En það eru þín orð.“ Og blaðamaður, sem hefur lengi verið einn af skjólstæðingum Sveins Rúnars, stendur fastar en fótunum á því að svo sé í pottinn búið. Alltaf aðeins veikari en sjúklingarnir Sveinn Rúnar rifjar nú upp mikil hátíðarhöld sem efnt var til þegar hann varð fimmtugur. Ekki dugði minna en Borgarleikhúsið undir hátíðina, mikil menningardagskrá var keyrð þar sem trúbadorar stigu á stokk auk klassískra tónlistarmanna. Og aðeins ein ræða var leyfð en hana flutti Dr. Gestur Guðmundsson. „Og hann notaði tækifærið til að hæðast að mér. Það verður bara að segjast eins og er. Hann meinti það ekkert illa en hann lýsti því hvernig það væri að koma á stofu til mín. Og vera með ýmislegt sem plagaði mann. En það væri yfirleitt þannig að sjúklingarnir kæmu ekki upp nema tveimur orðum, þá greip læknirinn inn í og segði: Já, einmitt! Ég hef einmitt átt við þetta að stríða. Og það er alveg sama hvort meinið væri andlegt eða líkamlegt, læknirinn kannaðist persónulega svo vel við það. Og hafði í raun verið miklu þjáðari, hálfu veikari en sjúklingurinn. Hann sagði svo frá því þannig að fólk færi frá lækninum alheilt. Samanburðurinn væri svo hagstæður.“ Við hlæjum saman að þessari lýsingu Gests og þó Sveinn Rúnar telji þetta fært í stílinn þá er þetta fyndið því þarna er sannleikskorn að finna. „Ég er þakklátur fyrir að hafa verið í þessu starfi. Mér finnst það svo skemmtilegt. Mér finnst fólk svo skemmtilegt. Allavega fólk. Að hafa það að atvinnu að fá kannski til sín tíu manns daglega, hvern öðrum skemmtilegri! Jújú, það er líka gaman að takast á við vanda og reyna að leysa hann. Og takast það stundum. Þá má líka segja jákvæðu hliðina á þessu starfi og ég á kannski auðveldara en margir með að skilja og geta sett mig í spor fólks sem á við erfiðleika að stríða. Ég hef svolítið verið í því og ég hugsa að það fólk hafi sótt meira til mín en meðaljónsins. Jú, ætli megi ekki segja það?“ Sveinn Rúnar og frægur sjúklingahópurinn Og þinn skjólstæðingahópur er litskrúðugur? „Jú, það finnst mér. Hinir læknarnir segja með öfundartóni, þú ert með allt fræga fólkið? Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég á marga vini í hópi listamanna og tónlistarfólks ekki síst. Þetta er nú þannig.“ Sveinn Rúnar vill ekki gera mikið úr því að hann sé vinsæll heimilislæknir en kannast þó við að aðrir læknar öfundi hann oft af frægu fólki sem eru skjólstæðingar hans.vísir/anton brink Sjúklingar Sveins Rúnars verða oftar en ekki vinir hans. Hann segir svo frá að hann hafi bara þá í hádeginu hitt einn sinn eftirlætissjúkling á Múlakaffi og snætt með honum ýsu eins og mamma gerir hana. „Það var svo gaman að hitta vin í hádeginu og borða með. Mér finnst þegar ég er að hætta núna að ég sé að yfirgefa þrjúhundruð vini. Ég er ekki með nema sjö hundruð á skrá.“ Sveinn Rúnar útskýrir að það hafi verið að minnka á skrá hjá sér ekki síst vegna þess að nú er fólki gert að skrá sig á sjúkraskrá. Heilsugæslan taki við. Þeir eru bara þrír eftir á Domus Medica. „Ég verð 78 ára bara eftir nokkra daga. Jón Gunnar er orðinn 75. Við erum í rauninni ekki nema tveir. Sá þriðji, Lárus, er hættur. En heldur sinni stofu gangandi í launalausu leyfi. Maður veit ekki hvað þetta hangir lengi. Ekki hjálpar það að ég sé að hætta.“ Frægir menn að skyggja á „hætt“ Sveins Þetta hefur gerbreyst? „Já, við fengum þetta einhliða í hausinn frá Sjúkratryggingum að ekki yrði leyfilegt að ráða inn fyrir þá sem eru að hætta. Þetta er kallað sólarhringsákvæði og það er í raun verið að bíða eftir því að við hættum. Og það er öllum vísað í heilsugæslustöðvarnar hvort sem þær eru ríkisreknar eða einkareknar.“ Þar er ekki beinlínis gaman að koma? „Nei, það er mér sagt. En gengur nú oft ágætlega samt. Ég held að menn þurfi líka að sjá þetta, eins og ráðherra sagði nýlega á fundi sem ég var á, að hann væri ekki að lofa heimilislæknum fyrir alla heldur heimilislæknateymum. Það er kannski hjúkrunarfræðingurinn sem þú átt að tengja þig við þegar þú nærð ekki í lækninn.“ Við förum yfir það að margir kappar eru nú að láta af störfum. Og skyggja þar með á starfslok Sveins svo sem Bogi Ágústsson og Pétur prestur hjá Óháða söfnuðinum boði til lífslokamessu. „Þessir menn eru að skyggja á mig,“ gantast Sveinn Rúnar. „Kári Stefánsson ætlaði reyndar ekki að hætta en sama samt.“ Upplagt tækifæri til að rifja upp forna frægð En hvernig kynntist þú Björk? „Það var stúdentapólitíkin sem tengdi okkur saman. Árið 1968 hafði ég verið fenginn til að leiða vinstri menn í Háskólanum, svokallaðan Bræðing; kratarnir, Framsókn og Félag róttækra sem voru kommarnir.“ Það þarf greinilega talsverðan inngang að þessum sögulegu kynnum. „Ég var ekki í neinum flokki. Vaka vann kosningarnar raunar með því að bjóða fram frábæran dreng, Ólaf Guðmundsson augnlækni, sem var frjálslyndur maður og við náðum strax vel saman. Eins Bjarni Magnússon sem var krati og hann var hjá Vöku, hann hefði alveg eins getað verið á listanum hjá okkur en það var mjótt á munum. Það var það á þessum árum. Þegar Helgi Kristbjarnar fór í framboð ári á eftir mér var jafnt algjörlega og það varð að varpa hlutkesti.“ Sveinn Rúnar og Björk eru bæði á bólakafi í baráttunni fyrir frjálsri Palestínu. Það lítur ekki vel út með ástandið á Gaza nú sem stendur.vísir/anton brink Sveinn Rúnar rekur að hann hafi ásamt fleirum stofnað Verðandi sem tók nokkrum nafnabreytingum og varð að Röskvu – félagi vinstri manna. Sveinn rifjar upp að hann hafi komið að því að ýmsir leiðtogar vinstri manna urðu formenn. „Síðan kom formaður Stúdentaráðs sem var kona sem ekki var á mínum vegum og hún var Björk Vilhelmsdóttir. Hún var formaður vinstri manna. Og hér er komið 1986. Björk þessi hringir í mig og spyr hvort ég sé ekki til í að koma með innlegg, þau voru þá með fundarröð um sósíalisma. Ég segist ekkert vita um sósíalisma. En nei, hún vildi bara fá mig til að tala um hvernig þetta var þarna 1968. Svo ég fann þarna tækifæri til að velta mér upp úr fornri frægð. Og sagði, já takk. Ég skal bara koma.“ Og þá var hún þarna þessi hávaxna Þá hittust þau fyrsta sinni. Og síðar var Sveinn Rúnar að þvælast með vini sínum Páli Biering. „Í Stúdentakjallaranum og Hótel Borg. Ég var á höttunum eftir einhverri allt annarri konu. Svo verður þessi kona fyrir mér og mér fannst hún hættuleg, í alltof stuttu leðurpilsi og ég flýtti mér burtu. Ég var alltaf á þessum árum einn og reyna að vera ekki að drekka. Þarna er ég hættur en ég var að keyra á milli skemmtistaða.“ Svo fer Sveinn Rúnar á Hollywood. „Ég vissi að þarna voru vinir mínir, Bjöggi Gísla og einhverjir að spila. En það var sláandi að þegar ég kem þarna inn þá er ekkert fólk. Þrennt á gólfinu, annars enginn og ég sé að þarna er þessi hávaxna. Ég fer og heilsa uppá þau, en þetta eru þá bróðir hennar og mágkona. Ég fer að dansa við hana og býð henni svo far heim. Hjónin Björk Vilhelmsdóttir og Sveinn Rúnar Hauksson. Þau eiga tvö tónlistarbörn saman.vísir/aðsend Ég er svo óheppinn að ég á heima vestast í Vesturbænum en hún lengst uppi í Breiðholti. Ég gat ekki bakkað út úr því. En við höfðum um nóg að kjafta. Þetta var Hjaltabakki 6, það var eitthvað sexí við þetta.“ Og síðan hafa þau verið óaðskiljanleg. Hún 23 ára og Sveinn Rúnar rétt að verða fertugur, fráskilinn þriggja barna faðir. Þetta er talsverður aldursmunur? „Segir hver?“ Sveinn horfir fast í augu blaðamanns sem segir: Ekki neinn. Ekki nokkur maður. „Nei. Og ári síðan giftum við okkur og eigum saman tvö tónlistarbörn.“ Nískur á dópið Þegar Sveinn Rúnar er beðinn um að rifja upp hvað er minnisstæðast úr starfinu verður hann hugsi. Þar er af mýmörgu að taka. „Stundum hefur þetta verið erfitt. Menn hafa reiðst mér. Einu sinni reiddist hann mér vinur minn og annar kom ekki aftur. Hann var í maníu og fíkill; mikill tónlistarmaður, snillingur og frábær útvarpsmaður. Ég hélt mikið uppá hann. Reynslan hefur kennt Sveini Rúnari að óvarlegt er að skrifa út lyf eins og enginn sé morgundagurinn. vísir/anton brink Ég mun ekki nefna nafn hans. Hann kom, var enn á deildinni einhverri en hafði verið hleypt út, og hann var bara með lista af lyfjum. Sem ég átti bara að kvitta uppá. Og ég sagði honum að ég væri ekki svona sjálfsali. Hann varð alveg brjálaður út í mig. Það er ekkert við því að gera stundum. Ég get verið svolítið leiðinlegur.“ Jú, ég kannast alveg við það. „Eftir að ég fór að læra þessi fræði á Voninni um áfengi og lyf og eiga svo að flytja fyrirlestur um það og tenginguna við fíkn breytist allt. Þetta er frægt hvernig fólk sem hefur aldrei drukkið neitt áfengi en verið að nota svefnlyf og róandi, fær svo ekki lengur aðgang að þeim og fer að halla sér að flöskunni. Það verður alkóhólistar eftir mánuð. Það þarf engin ár til að þróa sjúkdóminn. Öll þessi tenging milli áfengisfíknar og lyfjafíknar gerði það að ég var og hef alltaf verið varkár í sambandi við lyfin.“ Nískur á dópið, hreinlega? „Já. En stundum hefur maður verið með fólk árum og áratugum saman og maður þekkir það, og sér að það er ekkert slíkt að gerast. Og það er merkilegt með til dæmis svefnlyf sem eiga að vera vanabindandi, að fólk getur áratugum saman tekið sama skammtinn, hálfa töflu og ekkert breytist.“ Taugaveiklun eftir endurlífgun Sveinn Rúnar nefnir af handahófi annað atvik, sem gerðist á Húsavík en hann var þá nýkominn af hjartadeildinni þar sem hann lærði að lesa í hjartalínurit. „Auðvitað var ég enginn sérfræðingur, en öðrum þótti gott að koma til mín og fá álit mitt á hjartalínuriti. Hann kemur inn til mín að sýna mér hjartalínurit. Mér líst ekki á og fer til að skoða sjúklinginn og þá er hann bara dáinn. Þá er farið í að endurlífga manninn. Allir komu í það, yfirlæknirinn á sjúkrahúsinu og við erum þrír heimilislæknar sem skiptumst á að hnoða hann og blása í hann. Eftir hálftíma segir yfirlæknirinn að þetta sé komið nóg.“ Sveinn Rúnar segir að það hafi verið einhver þrjóska í sér, hann hafði einhverja tilfinningu fyrir púlsi og vildi halda áfram. Allir labba í burtu nema einn verður eftir ásamt Sveini. „Eftir tíu til fimmtán mínútur tekur hann við sér og lifnar við. Hann náði sér furðuvel. Greinilegt að pumpið okkar hefur skilað sér. Hann hefði átt að vera skertur í heilanum eftir svona langt stopp en ef þér tekst að pumpa nógu vel og blása í hann þá er þetta hægt. Hann tók við sínu yfirmannsstarfi og stóð sig vel í tíu ár. Hann kom oft til mín. En það var taugaveiklun í honum sem var skiljanlegt eftir það sem hann hafði gengið í gegnum. En þetta er hægt.“ Hefði ég getað gert betur? Þetta starf verður varla mikið dramatískara? „Það getur verið það. Ég var að missa konu sem var búin að einangra sig. Kom til mín á stofu eftir langt árabil og leit mjög illa út. Hún var til í að fara í blóðprufu.“ Þetta var á föstudegi og hringt var í Svein frá blóðrannsókninni sem er óvanalegt. „Að það sé eitthvað meira en lítið að. Niðurstaðan bar með sér að hún væri með hvítblæði, ákveðna tegund, en niðurstaðan yrði ekki endanleg fyrr en eftir helgi. Sveinn Rúnar með einn skjólstæðing sinn sem nú er uppá heilsugæsluna kominn með alla sína margvíslegu sjúkdóma.vísir/anton brink Sérfræðingurinn sagði að það þyrfti að fá hana inn öðru hvoru megin við páskana. Og svo dó hún bara, enginn veit út af hverju. Þetta hvítblæði átti ekki að vera bráðdrepandi.“ Sveinn Rúnar segir hafa haft samband við sérfræðinga Landsspítalans. Endalausar spurningar fylgja starfinu og stöðu sem þessari. Brást hann rétt við? Í þessu tilfelli heyrði hann í aðstandanda síðar sem fullvissaði hann um að þessi tiltekna kona hefði ekki kært sig um neina meðferð. „Kannski hefði verið hægt að lengja líf viðkomandi eitthvað? Svo vilja margir ekkert vita um það hvort það sé með krabbamein eða ekki. Það eru ýmsar hliðar á þessu. En það er óskaplega gott þegar vel tekst til í vinnunni.“ Trúaður kirkjustrákur Sveinn Rúnar segir starfið fyrst og síðast ákaflega gefandi. Einkum finnst honum gefandi þegar hann nær að hjálpa ungu fólki að takast á við við kvíða eða fíknvanda. Sveinn Rúnar stendur nær dauðanum en ef hann væri í öðru starfi. Hann segir þó heimilislækna að einhverju leyti í skjóli. En er hann trúaður? „Já, ég er kirkjustrákur. Ég er einn af örfáum af minni kynslóð sem fer til messu flesta sunnudaga. Þetta hefur sveiflast mikið hjá mér. En ég get sagt það núna að ég sé trúaður. En þegar litið er til baka hefur þetta verið með köflum.“ Sveinn Rúnar segist ekki hafa verið neitt sérstaklega trúaður sem barn eða unglingur. „Það var ekki fyrr en ég kom til Bandaríkjanna sem skiptinemi á vegum Þjóðkirkjunnar. Það var mikið ævintýri. Við Kalli Sigurbjörnsson heitinn, við fórum saman til Seattle. Vorum ekki á sama stað en gátum heimsótt hvor annan.“ Forvitinn um kirkjur og trúfélög Sveinn Rúnar segist hafa verið afar forvitinn um kirkjur og trúfélög og heimsótti aragrúa slíkra staða. „Þegar upp var staðið var ég í gegnum skiptinemasamtökin í umræðu um alþjóðamálin og þar var beinlínis stillt upp róttæku prógrammi sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig og hefur enn þann dag í dag. Það var að horfast í augu við veruleikann.“ Sveinn Rúnar horfir yfir farinn veg.vísir/anton brink Og hver var þessi veruleiki sem við áttum að horfast í augu við. Sveinn nefnir bilið milli ríkra og fátækra sem stöðugt fer stækkandi. „Arðránið í heiminum. Og þetta var orð sem var nánast bannað á Íslandi, þetta var bara eitthvað ljótt kommaorð. Annað sem við töluðum um var aðskilnaðarstefnan í Suður-Ameríku og í Bandaríkjunum. Ekki í Ísrael. Og í þriðja lagi var talað um stríð og frið og það var talað um hvernig Bandaríkin höfðu verið með stríðsrekstur látlaust frá stríðslokum ´45 út um allan heim, það var ekki bara Víetnam heldur öll þessi stríð í Suður-Afríku, Suður-Ameríku og í Asíu. Meðan ég var þarna úti, Grenada!“ Nálgast helst Guðdóminn í hæstu maníum Sveinn Rúnar segist hafa komið heim og jaðrað þá við að aðhyllast frelsunarguðfræði, þessa suðuramerísku sem virkaði á hann. „Allaveganna kom ég heim með róttæka kristni. Og strax haustið 1965 stofnuðum við samtökin KAUS - samtök skiptinema. K-ið sem stóð fyrir kristileg féll út og nú þekkja allir þessi samtök sem AUS. Þau verða sextíu ára í haust. Við stóðum fyrir fyrstu poppmessunum og reyndum að hleypa lífi í æskulýðsfélögin.“ Þetta er svolítið saga Sveins Rúnars, hann hefur ætíð valist til forystu í félagsstörfum í gegnum tíðina. „Margir úr Tenglastarfinu komu að þessu starfi. Ég missti síðan alveg þráðinn. Við Kalli vorum miklir vinir og hann kom að því að stofna Verðandi. Hann hvarf inn í Guðsdýrkunina en ég inn í annan heim. Ég hugsa að það hafi verið Bakkus sem tók við hjá mér. En mér fannst alltaf þegar ég var nógu brjálaður að þá kom trúarsveifla í mig. Það fylgdi hæstu maníum, þá nálgaðist ég Guðdóminn.“
Tímamót Víetnam Átök í Ísrael og Palestínu Heilbrigðismál Mest lesið Fréttamaður í næstlélegasta flokknum en Væb stórstjörnur Lífið „Ég varð stjörf af hræðslu“ Lífið Næsta lag fjalli um hið íslenska gufubað Lífið „Og ég varð snargeðveikur“ Lífið „Ég þurfti að breyta hugsun, hegðun og tali“ Áskorun Vilja stimpla sig inn með stæl Lífið Krakkatían: Reikistjörnur, regnbogar og kengúrur Lífið Söngvakeppnin og stríðsrekstur Ísraels: „Ég er stolt af landinu mínu“ Lífið Sjáðu þrjátíu sekúndur af atriði VÆB í Eurovision Lífið Bók skilað eftir 56 ára útlán Lífið Fleiri fréttir Fréttamaður í næstlélegasta flokknum en Væb stórstjörnur Næsta lag fjalli um hið íslenska gufubað „Ég varð stjörf af hræðslu“ Krakkatían: Reikistjörnur, regnbogar og kengúrur „Og ég varð snargeðveikur“ Fjölmenni á sjötíu ára afmæli Kópavogs Bók skilað eftir 56 ára útlán Hugmyndir fyrir mæðradaginn Bakaríið í beinni útsendingu Fréttatía vikunnar: Páfakjör, poppstjarna og nýr kanslari „Þetta eru þýðingarmestu skilaboð Davids Attenborough til þessa“ Hönnunarunnendur skáluðu í Kópavogi Molly-Mae og Tommy Fury saman á ný Drengurinn Fengurinn hlaut styrk úr Minningarsjóði Svavars Péturs Leikstjórinn James Foley er látinn Frumsýning hjá Auðuni: Langaði til að gera fallegt náttúruklám Kristín Péturs orðin tveggja drengja móðir Katrín Tanja og Brooks tilkynna kynið Glæsileg íbúð handboltakempu í Sigvaldahúsi Heklaði sér fyrir útborgun í húsi í Þingholtunum Hilmir Snær og Vala eiga von á stúlku Stjörnufans í sumarselskap Söngvakeppnin og stríðsrekstur Ísraels: „Ég er stolt af landinu mínu“ Arnór Ingvi og Andrea skinu skært í sænsku konungshöllinni Sjáðu þrjátíu sekúndur af atriði VÆB í Eurovision VÆB opnar verslun í Kringlunni Reyndi við þrjár milljónir Ný heimildarmynd Attenborough sýnir eyðileggingu í höfum jarðar Stefán Einar keypti 145 milljón króna þakíbúð Logi og Hallveig keyptu hús í 101 Sjá meira