Erlent

Innsti hringur Trump í skærum við þýsk yfir­völd

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Alice Weidel er formaður Valkosts fyrir Þýskaland og hefur gagnrýnt flokkun hans sem öfgasamtök harðlega.
Alice Weidel er formaður Valkosts fyrir Þýskaland og hefur gagnrýnt flokkun hans sem öfgasamtök harðlega. Getty

Utanríkisráðuneyti Þýskalands svarar fyrir gagnrýni á flokkun Valkosts fyrir Þýskaland (AfD), eins stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem öfgasamtök sem ógna lýðræðinu. Háttsettir bandarískir embættismenn hafa brugðist ókvæða við.

J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna hefur meðal annars sakað þýskar „skrifstofublækur“ um að endurreisa Berlínarmúrinn og Marco Rubio utanríkisráðherra lýsti flokkuninni sem „harðræði í dulbúningi.“

Tilkynnt var um það í gær að þýska leyniþjónustan hefði skilgreint Valkost fyrir Þýskaland sem öfgasamtök. Í rökstuðningi sínum sagði leyniþjónustan að kynþáttahyggja innan hægrijaðarflokksins samræmdist ekki lýðræðislegum leikreglum samfélagsins.

Orðaskipti utanríkisáðherra Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Þýskaland í gærkvöld.Skjáskot

Flokkunin gerir leyniþjónustunni kleift að fylgjast með starfsemi flokksins með leynilegum aðferðum, þar á meðal með uppljóstrurum og með því að hlera fjarskipti. Ákveðnar deildir innan flokksins hafa verið skilgreindar öfgasamtök áður, þeirra á meðal ungliðahreyfingar og sambandslandsstjórnarflokkar.

Eins og fram hefur komið hafa bandarískir embættismenn brugðist illa við þessari ákvörðun og saka þýsk stjórnvöld um andlýðræðislega tilburði. Menn í innsta hring Donalds Trump hafa í gegnum tíðina verið miklir stuðningsmenn Valkosts fyrir Þýskaland og þar ber hátt á Elon Musk, tæknijöfrinum og nánum ráðgjafa Bandaríkjaforseta, sem flutti ræðu á fjöldafundi flokksins í janúar.

Marco Rubio utanríkisráðherra birti ofangreind ummæli sín á samfélagsmiðlum og reikningur utanríkisráðuneytis Þýskalands svaraði óvænt færslu hans en reikningurinn er yfirleitt ekki notaður í slíkt heldur bara til að birta tilkynningar og annað tilfallandi efni.

„Við höfum lært af sögu okkar að öfgahægristefnu þarf að stöðva,“ stóð í svari ráðuneytisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×