Íslenski boltinn

„Finnst þessir fyrstu tveir leikir hræði­legir“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anna María Baldursdóttir var fjarverandi í upphafi móts og sást það á spilamennsku Stjörnunnar.
Anna María Baldursdóttir var fjarverandi í upphafi móts og sást það á spilamennsku Stjörnunnar. Vísir/Diego

„Á meðan þið voruð að drulla yfir FH voruð þið að peppa Stjörnuna í aðdraganda móts,“ segir Mist Rúnarsdóttir þegar frammistaða Stjörnunnar í Bestu deild kvenna var rætt í Bestu mörkunum.

Stjarnan hefur ekki byrjað tímabilið vel en nældi þó í sinn fyrsta sigur gegn Tindastóli þegar liðið kom til baka eftir að lenda marki undir. Því spurði Mist svo í kjölfarið: „Er þessi frammistaða Stjörnunnar það sem við vorum að búast við af þeim eða erum við búnar að gleyma þessum fyrstu tveimur leikjum?“

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir var ekki á þeim buxunum.

„Mér finnst þetta eðlilegra að því leytinu til að mér finnst þetta nærri lagi því liði sem við bjuggumst við frá þeim. Það vantar Önnu Maríu (Baldursdóttur) í fyrstu leikjunum, Betsy (Hassett) er ekki með. Meðalaldurinn hækkar í þessum leik, mér finnst þetta meira út frá því sem við vorum að hugsa.“

„Mér finnst þessir fyrstu tveir leikir hræðilegir. Hræðilegt að fá tólf mörk á sig en ég held að Stjarnan sé ekki búin að finna nægilega mikinn stöðugleika til að sýna okkur annað hvort eða.“

Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi, viðurkenndi síðan að hún bjóst við miklu betra Stjörnuliði í upphafi móts. Umræðuna Bestu markanna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Bestu mörkin: „Finnst þessir fyrstu tveir leikir hræðilegir“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×