Innlent

Ó­ljóst hvers vegna ferða­manni var haldið í gíslingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan og sérsveitin lokuðu fjölda gatna í miðborginni upp úr átta í gærmorgun vegna lögregluaðgerðar í Hverfisgötu.
Lögreglan og sérsveitin lokuðu fjölda gatna í miðborginni upp úr átta í gærmorgun vegna lögregluaðgerðar í Hverfisgötu. Þorgeir Ólafsson

Íslenskur karlmaður um fertugt var í gær úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjavíkur vegna gruns um að hafa frelsissvipt erlendan ferðamann aðfaranótt fimmtudags. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort maðurinn hafi ætlað að kúga fé úr ferðamanninum.

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að líðan erlenda ferðamannsins væri góð og engir sýnilegir áverkar væru á honum. Hann hafi verið frelsissviptur aðfaranótt fimmtudags og fékk lögreglan veður af atvikinu í gærmorgun. Málið sé nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Liggur fyrir hversu lengi ferðamaðurinn var í haldi hjá þessum manni?

„Nei það liggur ekki fyrir eins og staðan er núna og er til rannsóknar núna.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur maðurinn komið þó nokkru sinnum við sögu hjá lögreglu en stutt er síðan að hann lauk afplánun fyrir annað brot.

Ásmundur segir ekki hægt að segja til um hver aðdragandinn var að því að ferðamaðurinn var hnepptur í gíslingu. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru engin tengsl á milli mannanna tveggja.

Lögreglan fékk tilkynningu um mann vopnaðan skotvopi í íbúð í Hverfisgötu í gær vegna málsins og var götunni lokað tímabundið. Ekki hefur fengist staðfest hvort lagt hafi verið hald á skotvopn á vettvangi. Ásmundur segir rannsókn málsins á frumstigi eftir mikil viðbragð í gærmorgun.

„Aðgerðir gengu mjög vel. Þetta tók um sirka tvær klukkustundir og við þurftum þarna að loka nokkrum götum vegna aðgerðarinnar og það gekk mjög vel.“

Og það var enginn annar í hættu?

Nei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×