Innlent

RÚV hættir með tíufréttir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Síðasti tíufréttatíminn verður sendur út 1. júlí.
Síðasti tíufréttatíminn verður sendur út 1. júlí. Vísir/Vilhelm

RÚV ætlar að hætta að senda út sjónvarpsfréttir klukkan tíu á kvöldin. Þá mun fréttatíminn sem er í dag klukkan sjö á kvöldin færast til klukkan átta.

Þetta kemur fram á vef RÚV, en ákvörðunin mun hafa verið kynnt á starfsmannafundi fréttastofu RÚV í dag.

Fram kemur að síðasti tíufréttatíminn verði sendur út 1. júlí næstkomandi. Breytingin mun þó ekki taka alveg gildi þá, en EM kvenna í fótbolta hefst 2. júlí og á meðan verður fréttatími á dagskrá klukkan níu. Frá og með 24. júlí, þegar EM verður næstum því búið, mun nýja fyrirkomulagið taka við og fréttir verða klukkan átta á kvöldin.

„Fréttir hafa verið sendar út í sjónvarpi klukkan 19 frá árinu 1999, en fyrir það voru fréttirnar klukkan 20 og höfðu verið allt frá árinu 1966.

Heiðar Örn Sigfinnsson er fréttastjóri RÚV.Vísir/Vilhelm

Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV segir í samtali við fréttastofu að ákvörðunin sé tekin vegna fréttamynsturs sem sé mikið breytt. Nú sé fréttaneysla meira á stafrænum miðlum og minna í sjónvarpi.

„Við erum að reyna að bregðast við þessu,“ segir Heiðar.

Hafið þið tekið eftir því mikið undanfarið á áhugi á tíufréttum, og sjónvarpsfréttum almennt sé að minnka?

„Nei nei, ekki alveg nýlega, en áhorf á línulega dagskrá hefur farið minnkandi um langt skeið. Það er liðin tíð að það sé fimmtíu prósent áhorf á kvöldfréttir eins og var.“

Heiðar segir að yngri hópar sæki sér nú fréttir á vefnum og á samfélagsmiðlum. RÚV vilji ná til þeirra enda sé það lýðræðisleg skylda RÚV að ná til allra aldurshópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×