Erlent

Tveir létust í skot­á­rás á há­skóla í Flórída

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hinn grunaði árásarmaður er sagður nemandi við háskólann. 
Hinn grunaði árásarmaður er sagður nemandi við háskólann.  AP

Tveir létu lífið og sex særðust í skotárás sem gerð var á ríkisháskóla Flórída í Bandaríkjunum í dag. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglumönnum og handtekinn í framhaldinu. 

Reuters hefur eftir lögregluyfirvöldum í Flórída að árásarmaðurinn sé líklega nemandi við háskólann. Hinir látnu séu það aftur á móti ekki. 

Árásin var gerð laust fyrir hádegi á staðartíma. Nemendur sem tilkynntu um byssuhvelli fengu þau fyrirmæli að fela sig meðan á árásinni stæði. Yfir fjörutíu þúsund nemendur sækja námskeið á háskólasvæðinu.

Notaði skotvopn móður sinnar

Sjónarvottur segir árásarmanninn hafa yfirgefið byggingu nemendafélags skólans, og hafið að skjóta. Fimm voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar, þar á meðal árásarmaðurinn. 

Walter McNeil sýslumaður í Leon-sýslu segir hinn grunaða heita Phoenix Ikner. Hann sé tvítugur að aldri og sonur fulltrúa sýslumanns sem starfi í sömu deild og McNeil. Skotvopn í eigu móður hans hafi fundist á vettvangi. Þetta kemur fram í umfjöllun AP, sem heldur uppi lifandi fréttavakt um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×