Skoðun

Þjóðar­morðið í blokkinni

Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar

Um 16.000 börn hafa verið drepin á Gaza á einu og hálfu ári. Til að setja þá tölu í samhengi þá jafngildir það því að öll grunnskólabörn í Reykjavík væru drepin. 1. til 10. bekkur í öllum grunnskólum Reykjavíkur þurrkaður út í blóðbaði.

Ef þetta gerðist á Íslandi mundum við vænta þess að þjóðir heims – bæði stórar og smáar – töluðu hátt gegn slíku voðaverki og tækju sig saman um að stöðva það. Samt er það svo að Ísland hefur gert frekar lítið til að tala gegn eða þrýsta á stöðvun þjóðarmorðsins á Gaza.

Samhliða þessu máttleysi sýnum við líka meðvirkni. Rússland hefur verið beitt viðskiptaþvingunum og verið útilokað frá alþjóðlegum íþróttamótum og menningarviðburðum vegna innrásarinnar í Úkraínu. En þetta gildir ekki um Ísrael. Við höldum áfram að taka þátt í leik og starfi með Ísrael þrátt fyrir að vita um voðaverkin.

Þetta er eins og að búa í blokk og vita að það býr ofbeldismaður í blokkinni en gera lítið sem ekkert í því. Við vitum að hann gengur í skrokk á fjölskyldunni sem býr við hliðina á honum, hefur lagt íbúð þeirra undir sig og hindrar meira að segja aðgang sjúkraliðs að hinum slösuðu. Samt höldum við áfram að bjóða honum í partý og spilum reglulega með honum bumbubolta. Við höfum aðeins maldað í móinn með þetta á aðalfundi húsfélagsins, sagt að hann verði að fylgja alþjóðlegum húsreglum, en það er u.þ.b. allt sem við höfum gert. Við viljum jú ekki blanda „pólitík“ saman við íþróttir og skemmtun.

Auðvitað er það rugl. Alveg eins og einstaklingi ber siðferðisleg skylda til að sýna ekki athafnaleysi og meðvirkni gagnvart ofbeldi nágranna, þá hljótum við sem þjóð að bera skyldu til að sýna ekki athafnaleysi og meðvirkni gagnvart þjóðarmorðum. Þess vegna verða íslensk stjórnvöld að gera meira til að stöðva voðaverkin á Gaza og við öll að hætta að láta eins og það sé normalt að ríkið, sem stendur fyrir þjóðarmorðinu, standi líka eins og ekkert sé með okkur inni á íþróttavellinum, í viðskiptaheiminum eða á menningarsviðinu.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×