Innlent

Harma að upp­lýsingar hafi verið sendar út fyrir mis­tök

Kjartan Kjartansson og Jón Þór Stefánsson skrifa
Höfuðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands í Reykjavík. Vísir/Egill

Sjúkratryggingar Íslands segjast harma að upplýsingar vegna heilbrigðisþjónustu hafi fyrir mistök verið sendar til heilbrigðisstarfsfólks og þjónustuþega. Málið sé litið alvarlegum augum og búið sé að greina hvað gerðist og gera viðeigandi ráðstafanir.

Fyrr í dag varaði Ljósmæðrafélag Íslands við gagnaleka hjá Sjúkratryggingum Íslands sem hefði leitt til þess að fjölskyldur sem hefðu þegið heimaþjónustu ljósmæðra fengu reikninga fyrir henni sem þeim bæri ekki að greiða.

„Sjúkratryggingar harma að fyrir mistök hafi verið sendar út upplýsingar vegna heilbrigðisþjónustu til afmarkaðs hóps þjónustuþega og heilbrigðisstarfsfólks, í tengslum við breytingu á útsendingu gagna. Vinnsla var stöðvuð um leið og málið uppgötvaðist,“ segir í yfirlýsingu frá Sjúkratryggingum vegna málsins.

DV hafði í dag eftir formanni Ljóðsmæðrafélagsins að viðkvæmar persónuupplýsingar ljóðsmæðra hefði einnig birst hópi skjólstæðinga þeirra, þar á meðal kennitölur, reikningsnúmer og verktakagreiðslur þeirra fyrir vitjanir.

Í yfirlýsingu Sjúkratrygginga segir að gögnin sem send hafi verið út hafi innihaldið upplýsingar sem viðtakendurnir höfðu í raun rétt á.

„Vert er að taka fram að þær upplýsingar sem sendar voru sneru eingöngu að þjónustu sem þjónustuþegi hafði fengið hjá viðkomandi heilbrigðisstarfsfólki og innihéldu upplýsingar sem þjónustuþegi og heilbrigðisstarfsmaður höfðu rétt á að fá,“ segir í yfirlýsingunni.

„Sjúkratryggingar leggja ríka áherslu á öryggi gagna og líta málið alvarlegum augum. Búið er að greina hvað gerðist og gera viðeigandi ráðstafanir við útsendingu gagna til að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×