Málið varðar umfjöllun Kastljóss 28. nóvember 2016 um dýrahald og eggjaframleiðslu Brúneggja ehf.
Brúnegg voru í eigu bræðranna Kristins Gylfa og Björns Jónssona sem höfðuðu málið í gegnum félög þeirra, Bala og Geysis.
Landsréttur á öðru máli
Að mati Landsréttar mátti MAST ekki afhenda RÚV gögn sem vörðuðu starfsemi Brúneggja. En að mati dómsins var augljóst að strax í kjölfar þess að Kastljósþátturinn var sýndur hafi orðið hrun í sölu afurða Brúneggja. Afhending stofnunarinnar á gögnum og yfirlýsingar starfsmanna hennar orsökuðu þetta hrun. Landsréttur sagði hins vegar að ekki væri hægt að segja að umfjöllun Kastljóss væri efnislega röng, eða hefði ekki fréttagildi eða ætti ekki erindi við almenning.
Afhendingin olli ekki saknæmu tjóni
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gögnin væru ótvírætt þess eðlis að stofnuninni væri skylt að afhenda þau á grundvelli upplýsingalaga. Það hefði verið góð stjórnsýsluframkvæmd hjá MAST að óska eftir áliti Brúneggja á afhendingunni á sínum tíma. Það hefði hins vegar ekki breytt neinu um skyldu stofnunarinnar til að veita gögnin.
Því var ekki fallist á að afhending gagnanna hefði verið til þess fallin að valda Brúneggjum tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti.
Hæstiréttur féllst heldur ekki á að MAST væri skaðabótaskyld vegna þess að starfsmenn stofnunarinnar voru sagðir hafa veitt liðsinni við gerð sjónvarpsþáttarins. Ekki væri hægt að sjá að afhending gagna og samskipti sem voru því tengd væri að veita liðsinni, og ekki heldur að veita viðtöl um málið.

Þar að auki komst Hæstiréttur að því að ummæli starfsmanna MAST hefðu leitt til bótaskyldu til Brúneggja vegna viðbragða birgja, smásala og neytenda við fréttaflutningi. Ekki hefði verið sýnt fram á að neitt rangt hafi komið fram í umfjölluninni.
Hæstiréttur gerir því Bala og Geysi að greiða MAST annars vegar og RÚV hins vegar kostnað vegna reksturs málsins á öllum dómstigum. Félögin þurfa að greiða MAST þrjár milljónir króna og RÚV fimm milljónir.